Sala á Pósti og síma hf.

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:08:50 (1532)

1997-12-02 14:08:50# 122. lþ. 32.2 fundur 106#B sala á Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:08]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég lái engum manni að skipta um skoðun ef hann hefur fyrir því rök og ef aðstæður breytast þannig að ástæða er til að taka upp aðra stefnu og breytta. Það sem ég er að gagnrýna eru blekkingar sem eru hafðar í frammi. Ráðherrann lýsti því yfir í fréttum útvarpsins ekki alls fyrir löngu að hlutafélagavæðing Pósts og síma hefði verið hugsuð sem millileikur og ef þetta er rétt, þá var hann að blekkja Alþingi á sínum tíma þegar hann sagði að ekki stæði til að selja fyrirtækið. En nú segir hann að þetta hafi verið hugsað sem millileikur. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í framhaldinu: Stendur til að selja Póst og síma til útlanda? Sá háttur hefur verið hafður á víðast hvar þar sem póst- og símafyrirtækin, símafyrirtækin sérstaklega, hafa verið einkavædd að menn hafa tekið þetta skref fyrir skref. Fyrst er stofnununni breytt í hlutafélag og þjóðinni sagt að ekki standi til að selja. (Forseti hringir.) Síðan er næsta skref að ekki eigi að selja fyrirtækið til útlanda. En að sjálfsögðu endar það þar eins og nú hefur gerst með danska símann sem er kominn í meirihlutaeign Ameríkana.