Sala á Pósti og síma hf.

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:10:21 (1533)

1997-12-02 14:10:21# 122. lþ. 32.2 fundur 106#B sala á Pósti og síma hf.# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hv. þm. varð það aftur á að mismæla sig og ekkert er við því að segja. Það er kannski nokkuð algengt að það gerist hér í þingsölum. Ég hef ekki talað um það að selja póstinn og vil leiðrétta það enn einu sinni, enda hygg ég að hv. þm. hafi ekki meint það svo.

Það sem á hinn bóginn er ljóst að minni hyggju er að við hljótum að velta því fyrir okkur hvernig við getum í framtíðinni og í hinu erfiða samkeppnisumhverfi sem síminn, er treyst atvinnuöryggi þess fólks sem þar starfar, treyst það að þetta sterka fyrirtæki geti áfram verið, ég vil segja flaggskip okkar Íslendinga á fjarskiptasviði. Við hljótum að líta til annarra sambærilegra fyrirtækja þegar við veltum þessu fyrir okkur. Núna á næstu mánuðum er nýr samkeppnisaðili að hasla sér völl hér á landi, Íslenska farsímafélagið, sem er að stofni til í eigu erlends aðila. Þeirri erlendu samkeppni verður að mæta og ég vil minna á að fulltrúar þess fyrirtækis eru þegar farnir áð leita hófanna hjá fjárfestum hér á landi, hjá sterkum fyrirtækjum, um að þeir kaupi hlutabréf í Hinu íslenska farsímafélagi til þess að reyna að tryggja sér viðskipti þeirra til frambúðar auðvitað á kostnað íslenska símafyrirtækisins, Landssímans.