Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:19:46 (1536)

1997-12-02 14:19:46# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:19]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. er vissulega spor í rétta átt. Þær endurnýjunarreglur sem nú eru í gildi hafa staðið í vegi fyrir eðlilegri endurnýjun flotans og þá ekki síst vertíðarbátanna sem eru að eldast og hverfa einn af öðrum. Margir útgerðarmenn minni báta hafa áhuga á að byggja nýja báta og þá örlítið stærri en hafa ekki treyst sér til þess vegna þeirra reglna sem í gildi eru. Þetta á ekki síður við um loðnuflotann sem er orðinn mjög gamall og á margan hátt úreltur. Þar hafa menn brugðist við þeim reglum með endalausum endurbótum, dýrum endurbótum á þessum gömlu skipum sem eftir sem áður eru gömul og á margan hátt úrelt og þarna vantar auðvitað ný og betri skip. Ég held að þessar reglur séu hreinn óþarfi meðan við búum við það fiskveiðistjórnarkerfi að hverju skipi er úthlutað upp á kíló hvað það má veiða af hverri fisktegund, þá sé ég ekki að miðstýringu þurfi á þessu sviði.

Það kemur fram í greinargerðinni að þessar reglur séu til komnar vegna hættu á auknum þrýstingi fyrir ákvörðun um aukinn heildarafla og eins hins að koma í veg fyrir brottkast á fiski. Mér finnst satt að segja að þetta séu ekki fullgild rök og skil það svo sem vel að ágreiningur hafi verið í nefndinni en ég held að stíga eigi skrefið til fulls. Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. hvort ekki sé ástæða til að stíga skrefið til fulls og afnema þessar reglur með öllu.