Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:25:30 (1539)

1997-12-02 14:25:30# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef hvatt til þess mörg undanfarin ár að reglur um úreldingu fiskiskipa eða endurnýjunarreglur yrðu endurskoðaðar. Ég hef reyndar flutt um það frumvörp á undangengnum tveimur eða þremur þingum að í fyrsta lagi yrðu þessar reglur rýmkaðar með ákveðnum skilyrtum hætti og í öðru lagi að heildarfyrirkomulag þessara mála verði tekið til endurskoðunar og mótuð um það framtíðarstefna hvort og þá með hvaða hætti slíkar reglur skuli yfirleitt vera við lýði. Að sjálfsögðu fagnaði ég því þarf af leiðandi þegar fréttist að hæstv. sjútvrh. hefði skipað starfshóp til að fara ofan í þessi mál, en að sama skapi verð ég að segja að mér eru það nokkur vonbrigði hversu rýr eftirtekjan er því hér er í raun og veru á ferðinni ákaflega veigalítil breyting, að mínu mati, miðað við það sem við mátti búast. Það sem er þó verra er að málið er á engan hátt gert upp. Það er á engan hátt kveðið upp úr um það hvernig skuli farið með þessi mál til lengri framtíðar litið. Það er mikill ókostur vegna þess að það er afar slæmt þegar í hlut á langtímafjárfesting af því tagi sem endurnýjun á stórum og dýrum fiskiskipum er, þá skuli ríkja nokkur minnsta óvissa um ákveðna grundvallarþætti undir slíkri fjárfestingu eins og úreldingarreglurnar að sjálfsögðu eru.

Af hverju segi ég þetta, herra forseti? Ég segi það m.a. vegna þess að það vakir í sjálfu málinu, kemur fram í greinargerð og kom reyndar fram í orðaskiptum hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar og hæstv. sjútvrh. áðan að menn reikna í raun og veru með að einhvern tímann í framtíðinni, eftir einhver x ár verði þetta sennilega aflagt en samt á að halda í þetta og það með ekki merkilegri rökstuðningi en þeim sem hér kemur fram, að það gæti hugsanlega skapað einhvern þrýsting á stjórnvöld um að auka aflaheimildir ef skipastóllinn stækkaði án þess að reglur af þessu tagi virkuðu þar hamlandi á. Það er að mínu mati ekki mjög góð niðurstaða, herra forseti, að hafa svona mál áfram hangandi í hálfgerðri óvissu. Hér er að vísu stigið visst skref sem er að sjálfsögðu í rétta átt vegna þess að þarna er viðurkennt að fullkomlega óraunhæft er að gera þær kröfur við endurnýjun fiskiskipa, t.d. þegar endurnýjað er kannski 30 ára gamalt skip eða eitthvað því um líkt að rúmmetratalan haldist óbreytt vegna þess að kröfur dagsins í dag hvað varðar aðbúnað mannskaps, vinnsluaðstöðu um borð, útbúnað til meðferðar hráefnis og margt fleira eru gerbreyttar og á engan hátt sambærilegar við það sem var fyrir 20--30 eða þaðan af fleiri árum. Þetta er mönnum sem betur fer loksins orðið ljóst og niðurstaðan er þá sú að stíga þarna visst skref en er slumpað á að þetta megi aukast um 25% og þó aðeins meira hlutfallslega þegar minni skip eiga í hlut vegna þess að ákvæðið um 100 m3 verkar að sjálfsögðu þannig að það eykur stækkunarmöguleika minni skipa, en þó geta þau aldrei orðið meira en 60% stærri en það skip sem veiðileyfi lætur. Þessi niðurstaða er að mínu mati sem sagt stórgölluð, sérstaklega hvað það snertir að málið er ekki gert upp, óvissan verður því við lýði áfram og ekki dregur úr henni þegar sá sem fyrir málinu mælir, hæstv. sjútvrh., gefur það beinlínis í skyn að þetta regluverk ekki mjög langlíft.

Í greinargerð nefndarinnar, sem vann að málinu fyrir hæstv. ráðherra, kemur fram á bls. 9 í frv. að nefndarmenn líta á það skref sem samstaða varð um í nefndinni sem tímabundna aðgerð. Það kemur fram, með leyfi forseta, en þar segir: „Með hliðsjón af þessu varð samstaða um það í nefndinni að leggja til að það skref yrði stigið nú að heimila tiltekna stækkun allra skipa ...“ o.s.frv. Hér er greinilega gefið í skyn að meira geti orðið á döfinni innan tíðar.

[14:30]

Þetta, herra forseti, tel ég að sé kannski meginágalli málsins. En ég er jafnframt ekki mjög sannfærður um að sú efnisbreyting sem hér er á ferðinni sé að öllu leyti vel hugsuð. Hún er til að mynda ekki bundin við neina raunverulega þætti sem réttlæta eða rökstyðja það að rúmmálsaukning verði í skipum. Í þeim frumvörpum sem ég hef lagt til hef ég verið með þá hugmynd að tekið yrði mið af því hvaða breytingar fælust í endurnýjuninni hvað varðaði skilgreinda þætti í skipunum, svo sem aðbúnað fyrir áhöfn og/eða rúmmálsaukningu sem væri nauðsynleg vegna bættrar meðferðar hráefnis. Um þetta væri að sjálfsögðu hægt að setja vissa staðla og nota þannig að rúmmálsaukningin eða stækkunin tæki mið af einhverjum skilgreindum efnislegum þáttum en væri ekki bara hlutfallstala út í loftið þar sem eitt gengi yfir alla, jafnt væri á komið fyrir alla þannig að til að mynda skip sem kemur í stað eldra skips þar sem engin breyting verður á aðstöðu fyrir áhöfn, þar sem engin breyting verður á geymslu hráefnis eða afurða, eingöngu er um afkastaaukningu í formi t.d. rúmmálsaukningar að ræða ef svo má að orði komast, fær sömu stækkunarmöguleika og skip sem fyrst og fremst er endurnýjað og felur í sér breytingar sem tengjast þáttum af þessu tagi eða þá að um nýja vinnsluhætti um borð eða annað því um líkt er að ræða.

Ég tel líka að það sé nokkuð harkalegt þegar þessi rýmkun er sett hér inn hvað varðar skip á aflamarki, að þá skuli haldið í þá reglu að þegar krókabátar eru endurnýjaðir skuli rúmmálið ekki bara standa í stað heldur minnka um helming við hverja endurnýjun. Það á sem sagt að minnka þann flota við hverja endurnýjun um helming en hinn fær leyfi til að aukast sem þessu nemur.

Loks er ekki tekið á þeim ágalla þessa kerfis sem gerir það afar óþjált og að sumu leyti ósanngjarnt, að rúmmetrar sem ekki nýtast við flutning veiðileyfa milli skipa falla niður. Af þessu getur verið verulegt óhagræði þegar um minni skip er að ræða og erfitt er að finna veiðiskip, eitt eða fleiri á móti, sem er svipað af stærð og það sem kemur nýtt og getur hreinlega valdið því, t.d. að þegar um er að ræða endurnýjun á minni bátum, aflamarksbátum, að það geti skapað meiri háttar vandamál og verulega ósanngjarna reglu að ekki skuli þá einhvern veginn vera hægt að geyma eða nýta þá rúmmetra sem ekki ganga upp í hið nýja skip. Þetta er eðli málsins samkvæmt síður vandamál þegar um mjög stór skip er að ræða og safnað er saman rúmmetrum úr fleiri minni fiskiskipum því þá er oftast hægt að finna samsetningu sem gerir það að verkum að lokum að rúmmetratalan nýtist nokkuð.

Hugmyndir hafa líka verið uppi um það að menn gætu beinlínis haft einhvers konar rúmmetrabanka þar sem þessi eining, þessi fótur undir sókninni, væri geymd og að sjálfsögðu mundi það vera mikið hagræði fyrir þá sem í hlut eiga.

Þetta kerfi er einnig mjög óþjált þegar að því kemur, sem gerist æ algengara, að skip eru að færast milli lögsögu ríkja eða íslensk fiskiskip fá tímabundin verkefni erlendis, fara undir erlendan fána og nýta þar af leiðandi ekki rúmmál sitt eða veiðiheimild tímabundið innan íslensku lögsögunnar. Menn hafa talið að það væri jákvætt og til bóta að auðvelda íslenskri útgerð að nýta sér slíka möguleika að fara tímabundið eða varanlega í verkefni erlendis og það er alveg ljóst að reglugerðarverkefni af þessu tagi er ekki sérlega þjált eða hvetjandi í því sambandi.

Í það heila tekið, herra forseti, þá er röksemdafærslan fyrir því að viðhalda þessu móverki afar veik svo ekki sé fastar að orði kveðið, afar veik. Það er satt best að segja lakara, svo maður taki nú mjög hógværlega til orða, að ekki skyldi nást niðurstaða í þessu máli sem mótaði ákveðna framtíðarstefnu þar sem þetta mál væri gert upp jafnvel þó svo niðurstaðan hefði orðið sú að afnema þetta í áföngum á þó nokkuð löngum tíma. Þá hefði framtíðið verið vörðuð og menn vissu að hverju þeir gengju þegar fjárfestingar af þessu tagi eiga í hlut. Þetta boðar sem sagt óljósa framtíð um að einhverjum reglum af þessu tagi verði við haldið til hliðar við aflamarks- eða aflahlutdeildarkerfið um einhver ár, þó e.t.v. ekki mjög mörg. Og í ljósi þess hversu stórar fjárhæðir geta verið á ferðinni þegar um stærri fiskiskip er að ræða, þá er þetta að mínu mati heldur slök niðurstaða, herra forseti.