Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:37:06 (1541)

1997-12-02 14:37:06# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við kunnum þetta báðir nokkuð vel, ég og hæstv. sjútvrh. og það er enginn misskilningur hér á ferðinni. Mér er að sjálfsögðu ljóst að sá möguleiki er og hefur verið fyrir hendi að menn safni saman rúmmetrum úr ýmsum áttum og kaupi þetta af nágrönnum sínum og þar með er í raun og veru búið að gera þessa rúmmetra, eins og allir vita, að verðmætum. Þessi skrýtna eining, rúmmetrarnir í íslenska fiskiskipaflotanum, er orðin viðbótargullmyntfótur undir kerfinu til viðbótar við framseljanlegt aflamark, og hefur tekið á sig sjálfstætt verðgildi og verðmætið á þessari einingu fór í háar hæðir um tíma þegar best lét. En á hvaða verðmæti í raun þetta ávísar er svo hins vegar annað mál, eða hvað? Er það ekki þannig, herra forseti?

Ég var að vísa til þess í mínu máli sem menn geta gert á grundvelli endurnýjunar eigin skipakosts og þar er ljóst að þetta hefur verið þannig að þar hefur þetta gilt einn á móti einum, en nú er leyfð þó þessi rýmkun. Ef menn hins vegar ætla að stækka meira þá verða þeir að ná sér í rúmmetra annars staðar frá. Það er mér vel ljóst að er áfram möguleiki eins og verið hefur.