Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:38:38 (1543)

1997-12-02 14:38:38# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:38]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í framsögu hæstv. sjútvrh. þá er frv. sem hér liggur fyrir niðurstaða starfshóps sem ráðherrann skipaði í fyrravetur. Þessi starfshópur er að leita eftir mismunandi sjónarmiðum manna. Það dylst engum sem þekkir til þessara hluta og hópurinn leitaðist við að ná ákveðnu samkomulagi til að skila ráðherranum. Ég sé ekki, þó svo standi í nefndaráliti okkar að menn hafi orðið sammála um að stíga eitthvert skref nú, að það gefi ástæðu til að ætla að hér sé um meiri bráðabirgðahugsun að ræða en almennt í lagafrv. Ég held að lagafrumvörp hljóti að vera börn síns tíma og standi meðan pólitískur vilji er fyrir því að hafa lögin þannig. Þau geta ekki staðið neitt lengur. Ef pólitískur vilji er til að breyta lögum þá breytast þau þannig að þetta frv. er ekkert meira út í óvissuna en önnur stjfrv. sem flutt eru.

Ég er þess viss að frá upphafi þegar aflakvótakerfið var sett á, þá voru settar líka á takmarkanir um flotastærð og ég man ekki betur en það hafi verið hlutfallið 1:0,7 þannig að það sem menn eru að leggja til núna og menn kalla rýmkun er þá frekar í þá veru að hér sé verið að falla mjög nálægt því hlutfalli sem var áður notað eða frá upphafi. Menn skulu ekki gleyma því heldur að í lagafrv. er gert ráð fyrir því að reglan frá 1986 falli út þannig að ekki er eingöngu um rýmkun að ræða heldur er verið að fella út atriði þar sem menn gátu endurnýjað alveg hindrunarlaust. Að dómi nefndarinnar gat það verið mikið innlegg í þetta mál að menn færu að leika þá leiki að fara fram hjá reglunni um aldur skipanna 1986 og endursmíða skip þannig að það var talið skynsemdarákvæði að fella alla undir sama hatt eins og gert var ráð fyrir í þessu frv.

Nú hafa menn áður deilt um það hvort yfirleitt sé rétt að vera með einhverja stjórn á flotanum en ég held að það sé viðhorf manna um allan heim þar sem er reynt að hafa einhverja vitræna stjórnun á sjávarútvegi, að þá liggi það fyrir að stjórn á stærð og afkastagetu flotans er það sem menn horfa mjög á. Sjávarútvegsráðherra Evrópubandalagsins hefur fjallað um þetta oft, frú Bonino, og margsinnis mælt fyrir því að svo lengi sem Evrópa geti ekki náð um það einhverri reglu að takmarka afkastagetu flotans verði seint nokkurt vit í þeirra stjórnunaraðferðum. Ég held að það sýni sig bara best að það hefur verið ástæða til að gera þetta. Við höfum verið að minnka afköstin. Við höfum gert það vitandi vits. Þetta hefur verið þannig nákvæmlega að menn hafa verið að kaupa hver af öðrum. Menn eru að kaupa út verðmæti og kaupa þau hver af öðrum þegar þeir eru kaupa þessa rúmmetra þannig að þetta hefur átt sitt verð alveg eins og aflakvótinn hefur átt sitt verð, óskilgreint, þannig að enginn ætlar að segja hvers vegna. En það er bara rétt verð því að markaðurinn hefur kallað á þetta verð. Ef við værum komnir í jafnvægi með flotann og hefðum enga ástæðu til þess að hafa áhyggjur af þessum afköstum, þá mundi líka verðið fara niður í núll. Þá yrði ekkert verð á markaðnum, á frjálsum markaði, þannig að þetta skapast af sjálfu sér. Verðið fer nú mjög lækkandi eins og menn kannski vita og því er ástæða til þess að ætla að við séum að nálgast eitthvað sem markaðurinn lítur á sem jafnvægisástand þannig að þetta er að gerast af sjálfu sér og þessi breyting sem hér á sér stað er eðlileg að okkar dómi vegna þess að við töldum rétt að vera ekki að skilgreina nákvæmlega hvað það ætti að vera sem menn væru að stækka eða minnka. Ef við hefðum viljað fara út í þá sálma, þá eru til nú þegar og hafa verið til í mörg, mörg ár hjá tæknideild Fiskifélags Íslands uppreiknaðir afkastastuðlar fyrir skip. En menn hafa ekki viljað fara út í þá sálma hér og nú þó að menn hafi notað hluta af þeim stuðlum í frv. sem samþykkt var í fyrravor um nýtingu landhelginnar. Það var því kostur sem menn ætluðu sér ekkert að fara út í, að fara nákvæmlega að taka til hvaða hluti skips varð að stækka og hvað ekki heldur litu menn þannig á að það væri eðlilegt miðað við tækniframfarir að miða bara við eitthvert ákveðið hlutfall.

Það er svo líka með smábátana sem menn hafa komið hér inn á, með krókabátana, að ég vil minna á það, herra forseti, að það var ekki fyrr en vorið 1995 sem voru settar takmarkanir á krókabáta. Þeir höfðu haft frjálst leyfi til stækkunar að koma inn í bátaflotann sem var til mikilla vandræða vegna þess að með stöðugri fjölgun smábátanna var verið að þrengja mjög að lífsrými þeirra sem fyrir voru. Ég held að það skref sem við stigum vorið 1995 þegar við stoppuðum þá fjölgun hafi verið algert lykilatriði til þess að tryggja þeim afkomu. Hefði það ekki verið gert, þá væri engin leið til þess að horfa framan í það að þeir menn sem eiga þessa útgerð ættu einhverrar afkomu von þannig að það er eðlilegt í þessu tilfelli af okkar hálfu að hafa reglurnar svona, óbreyttar gagnvart krókabátum, því það má vissulega benda á að þeir sem róa á þorskaflahámarki eru náttúrlega með frjálsa sókn í aðra fiskistofna þannig að það var ekki talin ástæða til þess að breyta því neitt. Við erum með annað frv. hér í gangi þar sem menn gera ráð fyrir því að koma til móts við þær kröfur að finna smábátunum stað og ég þykist vita það að þingið mun styðja þær tillögur mjög einarðlega. En í þeim er líka gert ráð fyrir því að halda áfram að úrelda smábáta sem er mjög nauðsynlegt til þess að reyna að finna jafnvægi þar líka.

Ég tel að þessar aðferðir sem við Íslendingar notum jafnframt kerfinu við stjórn fiskveiðanna, flotastýringu, séu lífsnauðsynlegar, ekki hvað síst með tilliti til þeirra vandræða sem við vitum að nágrannar okkar í Evrópu eiga með sinn gríðarlega stóra flota sem þeir ráða ekkert við. Við vitum að samskiptin aukast og eru vaxandi og þá er þetta sá varnagli sem við höfum fyrir því að menn geta ekki flaggað hér inn endalaust undir íslenskum fána. Það eru vandræði sem við munum aldrei ráða við. Þessi stjórnun hefur komið sér vel. Það hefur ekkert annað gerst en að menn hafa verið að greiða hver öðrum. Greinin hefur ekkert verið að láta neina peninga frá sér í gegnum árin sem við höfum haft þetta kerfi þó menn hafi verið að greiða hver öðrum og þannig hafa þeir sem hafa talið sig vera kannski með bestu útgerðirnar verið tilbúnir til þess að standa fyrir því að endurnýja og búa til ný og tæknivæddari skip. Þetta hefur greitt fyrir þeirri minnkun flotans sem er okkur lífsnauðsynleg þannig að við séum í jafnvægi með þessar fjárfestingar sem sannarlega voru komnar mjög langt frá því að vera í samræmi við afrakstursgetu fiskstofnanna á Íslandsmiðum.

Þetta frv., herra forseti, er þannig að mínu mati lagt fram ekkert út í óvissuna. Það er ekkert sem segir í þessu frv. annað en í öðrum lagasetningum. Það stendur svo lengi sem vilji er fyrir því á þingi að hafa þau lög þannig og ég á von á því að menn muni ekki hverfa frá því nokkurn tíma að hafa stjórn á flotanum vegna þess að markaðurinn mun sjá fyrir þessu jafnvægi sjálfur. Verðið fer þá niður í ekki neitt þegar þetta er í jafnvægi þannig að það er alveg óþarfi að vera að hafa áhyggjur af því að afnema þessi lög.