Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:50:49 (1545)

1997-12-02 14:50:49# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:50]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég ætlaði að það lægi alveg fyrir að þetta mundi leita jafnvægis af sjálfu sér vegna þess að ef enginn vill borga neitt fyrir rúmmetrana, þá gerir hann það ekki. Þá er ekkert verð á rúmmetrunum og jafnvægi á hlutunum þannig að menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. Ég tel að þetta frv. sé nákvæmlega eins og önnur frumvörp. Það er verið að gera tillögur um það að setja lög og lögin gilda svo lengi sem pólitískur vilji er fyrir því að hafa lögin þannig. Í þessu er engin sérstök takmörkun umfram annað, það er alveg jafnmikið uppgjör í þessu frv. og öðrum. Það gildir bara meðan lögin standa. Hér er því ekki um það að ræða að verið sé með sérstaklega óljósa hluti. Það er ekkert óljósara en hvað annað sem við setjum í lög. Við ætlum að hafa þetta kerfi. Það er pólitískur vilji fyrir því að hafa stýringarkerfi á flotanum jafnframt því kerfi sem við höfum við stjórn fiskveiða þannig að hér er enginn munur á. Íslenski flotinn varð of stór á þeim tímum að ekki var takmörkun á flotanum og hverjir mótmæltu stækkuninni mest. Hverjir voru það? Það voru útgerðarmenn sem mótmæltu stækkuninni. Árum saman gerði aðalfundur Landssambands ísl. útvegsmanna samþykkt um að mótmæla og krefjast þess af stjórnvöldum að takmarka stærð flotans. Árum saman gerðu þeir það vegna þess að þeir vildu varðveita lífsrými sitt. En alltaf voru nýir og nýir aðilar að koma inn. Útvegsmenn voru að mótmæla því. Þeir voru alveg vissir um að þeir væru ekki að stækka flotann, það voru aðrir að gera. Þess vegna voru þeir alltaf að gera þessar samþykktir.

Herra forseti. Þetta mál mun leita síns jafnvægis sjálft.