Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 15:36:06 (1552)

1997-12-02 15:36:06# 122. lþ. 32.5 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv., 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:36]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. um breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum, mun vera til orðið í framhaldi af viðræðum sjútvrn. við Landssamband smábátaeigenda, viðræðum þar sem fyrst og fremst var reynt að finna leiðir til að mæta þeim mikla vanda sem smábátamenn á dagatakmörkunum standa frammi fyrir. Vandi þessara útgerðarmanna, þ.e. krókabáta á dagatakmörkunum var fyrirsjáanlegur þegar þessi lög voru sett. Ég benti einmitt á það í umræðum á Alþingi vorið 1995 þegar verið var að breyta lögum um stjórn fiskveiða og krókaleyfunum var skipt upp í dagatakmarkanir og þorskaflahámark, að sá vandi væri fyrirsjáanlegur að eigendur þeirra báta sem höfðu mesta veiðireynslu og gátu fengið kvóta upp á kannski 40--50 tonn eða þaðan af meira, mundu velja þorskaflahámarkið en eftir sætu svo nokkur hundruð bátar sem áttu litla veiðireynslu og færu því á dagatakmarkanir þar sem allt of margir mundu bítast um allt of lítinn afla.

Þetta hefur gengið eftir og á síðasta fiskveiðiári veiddu þessir bátar það mikið að það hefði komið til stórskerðingar á næsta ári, það mikillar að þessir bátar hefðu kannski ekki mátt stunda sjó nema eitthvað innan við 20 daga. En því sagði ég það vorið 1995 og segi það enn að það var verið að eyðileggja krókaleyfiskerfið með þeim breytingum sem voru gerðar á því þá fyrir tveimur árum. Gamla krókaleyfiskerfið hafði þann höfuðkost að þar komu menn með allan fisk að landi og gerðu úr honum verðmæti. Þar er enginn hvati til að henda fiski og það finnst mér krókaleyfiskerfið hafa umfram aðrar aðferðir í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég vil taka undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er með ólíkindum að við skulum vera búnir að búa til ferfalt stjórnkerfi fyrir þessa litlu báta undir sex tonnum. Ég tek undir það með honum að frjáls sókn með króka á þessum bátum með óframseljanlegum heimildum væri besta aðferðin til að stýra þessum veiðum.

Það er tvennt í þessu frv. sem ég hef miklar efasemdir um og er reyndar andvígur. Það er í fyrsta lagi það sem segir í c-lið 1. gr. um framsal aflaheimilda. Ég er því algerlega andvígur að innleiða kvótabraskið í smábátaútgerðina og held að reynslan sé ekki það góð af því í útgerðinni sem býr við frjálst framsal aflaheimilda í dag að ástæða sé til að útvíkka það og færa það inn í smábátakerfið. Ég held að þetta framsal hafi skapað það mikla togstreitu milli sjómanna og útgerðarmanna og það mikla andúð þjóðarinnar á fiskveiðistjórnuninni að ekki sé á það bætandi. Þess má geta að framsalið jókst í fyrra um 120% í tonnum talið milli ára og milli 50--60% ef miðað er við þorskígildi. Sama mun auðvitað gerast ef þetta fer inn í smábátaútgerðina, þá munu menn smáþróa framsalið þar eins og í stærri flotanum og þetta endar með því að verða óskapnaður sem enginn ræður við.

Annað atriði sem ég er ekki sáttur við í frv. er ákvæði til bráðabirgða II þar sem 180 lesta kvótaúthlutun til þeirra byggðarlaga sem Byggðastofnun úthlutaði til á fiskveiðiári er ráðgerð. Þetta kemur í stað bráðabirgðaákvæðis í gildandi lögum um stjórn fiskveiða þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Á fiskveiðiárunum 1995/1996 til og með 1998/1999 skal Byggðastofnun árlega hafa til ráðstöfunar þorskaflahámark er nemur 500 lestum miðað við óslægðan fisk. Skal Byggðastofnun árlega ráðstafa þessum aflaheimildum til krókabáta sem gerðir eru út frá byggðarlögum sem algjörlega eru háð veiðum slíkra báta og standa höllum fæti.``

Þegar Byggðastofnun ætlaði að fara að vinna eftir þessu ákvæði laganna þá kom í ljós að ekkert byggðarlag uppfyllti þessi skilyrði. Mér fannst eðlilegast í þeirri stöðu að Byggðastofnun skilaði þessu verkefni af sér vegna þess að ekki var hægt að framfylgja lögunum eins og stóð í lagatextanum. Í stað þess var búin til reikniregla í Byggðastofnun þar sem 500 tonnunum var úthlutað til þeirra byggðarlaga sem komu næst ákvörðun laganna.

Ég hef reyndar oft bent á það áður hér á Alþingi að úthlutun Byggðastofnunar sé ekki í samræmi við gildandi lög og mér finnst það reyndar viðurkennt hér með því að fella út gamla lagatextann og setja inn bráðabirgðaákvæði um að úthluta til þeirra byggðarlaga sem Byggðastofnun úthlutaði til árlega. En ég vil segja það að mér finnst þessi Byggðastofnunarkvóti óþarfur vegna þess að sáralítið hefur verið veitt af honum. Ef ég man rétt, þá hefur um 1/3 verið notaður af þessum kvóta, 2/3 hafa verið óveiddir í lok fiskveiðiársins. Þess vegna finnst mér eðlilegast að úthluta þessum 500 tonna kvóta að fullu og úthluta honum þá til smábáta á aflamarki og ekki skipta þessu eins og hér er gert ráð fyrir í 180 tonn annars vegar til þessara byggðarlaga og 320 til báta á aflahámarki.

Ég vil minna á það í leiðinni að þessir smábátar á aflamarki eru sennilega þeir sem hafa farið verst allra út úr fiskveiðistjórnarkerfinu á undanförnum árum og það er reyndar staðfest í umsögnum félaga smábátaeigenda sem er vitnað í í athugasemdum með þessu frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Félög smábátaeigenda um allt land og aðalfundir LS hafa ályktað um það að þessum 500 lestum ætti að úthluta til smábáta á aflamarki, m.a. vegna þess að aukning aflaheimilda hjá þorskaflahámarksbátum hefur gert það að verkum að þeir hafa nú meiri aflaheimildir en á viðmiðunarárunum og því ekki lengur um neina skerðingu að ræða. Fyrst og fremst hafa þessi viðhorf byggst á því að þessir bátar hafi almennt farið mun verr út úr þróun síðustu ára en aðrir smábátar. Mun það vera næsta ágreiningslaust. Á móti hefur legið það sjónarmið að úthlutað hafi verið til þorskaflahámarksbáta í ákveðnum byggðarlögum sem séu sérstaklega háð smábátaútgerð og úthlutunin hafi skipt máli fyrir þau byggðarlög.``

Þetta finnst mér einfaldlega ekki standast með tilliti til þess sem ég sagði áðan, að þessar heimildir hafa nánast ekkert verið notaðar. Þær hafa verið notaðar sennilega að hámarki að 1/3. Þess vegna er þetta ekki rökrétt og ég teldi eðlilegast að úthluta þessum 500 tonnum eins og Félag smábátaeigenda og aðalfundir Landssambands smábátaeigenda hafa ályktað um, þ.e. til litlu aflamarksbátanna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni en ég vona að hv. sjútvn. muni skoða vel þessa tvo þætti sem ég nefndi, þ.e. annars vegar að taka upp framsal á þessum kvóta og hins vegar úthlutun á Byggðastofnunarkvótanum.