Skipting afnotaréttar nytjastofna á Íslandsmiðum

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 17:36:35 (1566)

1997-12-02 17:36:35# 122. lþ. 32.8 fundur 254. mál: #A skipting afnotaréttar nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[17:36]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég held áfram máli mínu þar sem frá var horfið. Þær 15 mínútur sem þingmönnum eru skammtaðar við framsögu fyrir þáltill. geta oft á tíðum reynst mjög knappar þegar um er að ræða viðamikið mál.

Eins og ég gat um áðan hafa sumir sagt að þetta sé sérviskuleg, jafnvel skemmtileg tillaga en algerlega óframkvæmanleg. Og ég ætla að lýsa því hvernig ég sé þetta fyrir mér.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 20 ára aðlögun og það er til þess að gæta réttlætis gagnvart þeim sem nýverið hafa keypt varanlega kvóta á 800 kr. kílóið eða 800 þús. kr. tonnið og eins til að mæta þeim gífurlega hallarekstri sem verið hefur hjá útgerðinni fyrir upptöku þessa kerfis. Einnig er gert ráð fyrir því að þeir aðilar sem stunda nýsköpun og finna nýja fiskveiðistofna megi njóta þess í 20 ár frá þeim tíma sem aðgangur að þeim stofnum er takmarkaður. Þannig er hvatt til nýsköpunar í þessu kerfi.

Þessi 20 ár eru hugsuð sem langtímaafskriftatími eða afskriftatími á langtímaeignum og ætti að gefa útgerðarmönnum og lánardrottnum þeirra tíma til að aðlaga skuldir útgerðanna sem eru umtalsverðar. Margir hafa sagt að þetta sé of langur tími. Og það er greinilegt af umræðunni sem hér fór fram áðan, að Gróska ætlar að gera þetta á fimm árum, að það verður einhver slagur um hvað eigi að gera þetta á löngum tíma. Ég tel hins vegar að það sé mjög brýnt að gera þetta á nægilega löngum tíma svo það komi ekki illa við útgerðina og til þess að ná sátt um málið.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að selja megi árlegar fiskveiðileyfiheimildir þrjú ár fram í tímann, þ.e. leigukvóta megi selja þrjú ár fram í tímann. Þetta er gert til þess að ná fram ákveðinni markaðsvæðingu og ef kerfið væri komið í gang um næstu áramót þá fengi fólk ávísun upp á 1:270.000, hver íbúi landsins, af veiðiheimildum fiskveiðiársins sem hefst 1. september árið 2000 og stendur til ágústloka 2001. Þessar ávísanir á hluta af fiskveiðiheimildum þessa fiskveiðiárs gæti fólk selt þá þegar. Sumir munu geyma þær og aðrir munu selja þær. Stofnaðir verða kvótasjóðir. Það veit ég að mun alveg örugglega gerast miðað við þekkingu mína á verðbréfamarkaðnum. Kvótasjóðirnir munu kaupa þessar ávísanir á veiðihlutdeildir, geyma þær og versla sín á milli þar til að því kemur að útdeila hlutdeild í þorski og ýsu. Það er gert rétt áður en fiskveiðiárið hefst og þá munu þeir breyta þessum ávísunum í kíló af þorski og ýsu sem má veiða á umræddu fiskveiðiári. Svo munu þeir selja þessar veiðiheimildir í kílóum eða tonnum af þorski og ýsu og karfa, mánuð fyrir mánuð, út fiskveiðiárið og dreifa sölunni á þessum fiskveiðiheimildum þannig að verðið haldist nokkuð stöðugt.

Ef einhver býst við því að verðið hækki undir lok fiskveiðiársins þá mun hinn sami kaupa fiskveiðiheimildir í byrjun ársins og selja þær svo í lok ársins. Þetta mun leiða til þess að verðið verði mjög stöðugt allan tímann. Verðið tekur í fyrsta lagi mið af því hve miklu megi búast við að leyft verði að veiða þar til það liggur fyrir, þá mun það taka mið af markaðsverði erlendis og öðrum þáttum sem geta valdið verðhækkun eða verðlækkun á kvótanum. Einstakir útgerðarmenn geta síðan keypt veiðiheimildir eftir hendinni, hvenær sem er. Þetta verður samfelldur markaður eins og við þekkjum með húsbréfin. Við getum hvenær sem er keypt húsbréf í dag og við getum selt húsbréf hvenær sem er. Verðbréfa- og fjármagnsmarkaðurinn sér til þess og fjármagnar kerfið. Útgerðarmenn geta jafnvel keypt kvóta eftir að þeir koma með aflann í land. Það er vel hægt að hugsa sér þá útfærslu að krókabátar gætu veitt eins og þeir vildu og borguðu þegar þeir kæmu í land. Þetta væri hugsanleg útfærsla. Þannig mun fjármagnsmarkaðurinn taka yfir fjármögnunarþáttinn. Þeir útgerðarmenn sem vilja tryggja sig fram í tímann geta keypt veiðiheimildir allt að þremur árum fram í tímann. Þetta sýnir hvernig kerfið vinnur.

Þeir sem trúa á mátt markaðarins, eins og minn ágæti flokkur gerir, vita að verð mun haldast mjög stöðugt (Gripið fram í.) og reynsla mín af verðbréfamarkaði segir mér að slík markaðsvæðing aflaheimilda sé mjög lítið mál. Það er ekkert mál að koma þessu á.

Verðið á veiðiheimildunum færi eftir hag útgerðarinnar. Útgerðin mundi borga það verð, hún mundi gera tilboð í veiðiheimildirnar og bjóða það verð sem að meðaltali gefur henni hagnað, annað væri della. Og það lýsir mikilli vantrú á forstöðumenn útgerðarfyrirtækja að gera ráð fyrir því að þeir muni bjóða meira fyrir veiðiheimildirnar en svo að það gefi þeim hagnað. Ég skil ekki slíka vantrú. Það er tómt mál að tala um það að eigið fé fyrirtækjanna verði tekið burt því þau munu að meðaltali skila hagnaði og þau best reknu munu skila góðum hagnaði. Þau verst reknu skila að sjálfsögðu tapi og fara á hausinn. En það er gangur atvinnulífsins.

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um öfund, ágirnd og lýðskrum í sambandi við þetta mál. Oft er það þannig þegar barist er fyrir réttlætismálum að þá er sagt: Þetta helgast bara af öfund o.s.frv. Ég geri ráð fyrir því að aðallinn á miðöldum hafi notað þau rök að lýðurinn, sem var réttlaus, hefði bara öfundað hann af öllum forréttindunum. Þetta er nákvæmlega það sama. Það eru engin rök að segja að almenningur í landinu öfundi útgerðarmenn. Ég held að hann, almennt, öfundi ekki útgerðarmenn. Hann öfundar ekki þá sem gengur vel í viðskiptum, menn sem taka áhættu --- og tapa stundum og græða stundum --- menn öfunda ekki yfir slíku. En menn þola ekki óréttinn sem felst í því að einhverjir skuli tilviljunarkennt fá úthlutað eftir á, eftir að þeir voru búnir að loka árinu. Þeir voru búnir að reka fyrirtæki sín miðað við þær aðstæður sem þeir máttu eiga von á og þá allt í einu, mörgum árum seinna, fá þeir happdrættisvinning. Það skilja menn ekki af því að það máttu ekki allir taka þátt í happdrættinu.

Herra forseti. Kostir og gallar kerfisins sem hér er lagt til að skoðaðir verði eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er það bundið við íbúa landsins. Það má vel hugsa sér að t.d. útlendingar öðlist þennan rétt eftir fimm ára búsetu í landinu. Það er mjög mikilvægt að þetta komi inn, tryggt sé að það séu íbúar landsins sem selji þessar veiðiheimildir í frumsölu og arðurinn renni þannig til íbúa landsins. Við háðum landhelgisstríð, mörg hver, til þess að ná fram því markmiði að þessar aulindir yrðu þjóðarinnar eða þeirra sem búa á Íslandi. Og þetta kerfi tryggir markmið ríkisstjórnar og Sjálfstfl. eins og ég las hér upp í fyrri ræðu minni.

[17:45]

Eins og segir í ályktun um sjávarútvegsmál á landsfundi Sjálfstfl.: „Til þess þarf að trygga eftir föngum að arðsemi fiskstofnanna verði sem mest og í þágu þjóðarinnar allrar, enda eru fiskstofnarnir í hafinu sameign hennar.“ Þetta er markmið Sjálfstfl. og því er náð með þessu því að í frumsölu veiðiheimildanna eru það íbúar landsins sem selja.

Í öðru lagi komumst við hjá flókinni og krampakenndri lagasetningu. Við höfum staðið að lögum um fjárfestingar útlendinga í atvinnurekstri og reynt að hindra að útlendingar --- það er eitthvert fyrirbæri --- komist inn í þessa auðlind þjóðarinnar með alls konar furðulegum, mjög flóknum og hamlandi lögum.

Ég nefni lögin um veðsetningu sem hafa staðið í hálsinum á mönnum mjög lengi. Ég nefni reglur um afskriftir og fleira. Allt eru menn að reyna að gera til að halda þessari auðlind í eigu þjóðarinnar en tekst illa og ekki.

Þetta kerfi er ekki tilviljunarkennt, það er þriðji punkturinn. Þetta kerfi sem hér er lagt til er ekki tilviljunarkennt. Það eru ekki einhverjir sem fá það einhvern tíma heldur þeir Íslendingar eða það fólk sem býr á Íslandi sem fær úthlutunina og engir aðrir. Það er engin tilviljun fólgin í því.

Í fjórða lagi eykur þessi tillaga ekki ríkisumsvif. Á því er reginmunur, að mínu mati, og því að vera sífellt að auka báknið, sífellt að auka peningastrauminn í gegnum ríkissjóð eins og menn hafa bent á. Ég tel að einmitt aukningin á bákninu skaði landsbyggðina langmest því að báknið er hér í Reykjavík.

Í fimmta lagi má benda á það að börn og gamalmenni, öryrkjar og aðrir slíkir fái veiðiheimildir eins og aðrir og það mun minnka þörf þeirra fyrir stuðning af hendi ríkisins. Það mun minnka þörf fyrir barnabætur, það mun minnka þörf á örorkulífeyri og ellilífeyri frá hendi ríkisins. Þetta mun verða um 50 þús. kr. á ári þegar kerfið er komið í jafnvægi og þegar veiðiheimildirnar verða komnar niður í um 30 kr. á kíló.

Í sjötta lagi gefur þessi hugmynd möguleika á að taka upp flatan skatt vegna þess að ekki er lengur þörf á að hafa félagslegt atriði inni í tekjuskattinum. Ekki er lengur þörf á því að hafa persónuafslátt og annað slíkt vegna þess að hver Íslendingur fær þarna forgjöf.

Í sjöunda lagi er um að ræða gífurlega markaðsvæðingu kvótans. Það er verið að gera alla Íslendinga virka á verðbréfamarkaði. Það er jákvætt frá mínu sjónarhorni og ég geri ráð fyrir að flestir í mínum flokki muni geta stutt það.

Í áttunda lagi verður sveiflujöfnunin, sem iðnaðurinn hefur kvartað svo mikið undan, hjá heimilunum. Þegar vel árar í útgerð, þá munu útgerðirnar geta borgað hátt verð fyrir aflaheimildirnar og þá fá heimilin mikla peninga, fjölskyldur geta farið í ferðalag og keypt sér nýjan bíl en þegar illa árar, þá á að láta það vera. Þar verði sveiflujöfnunin.

Þetta kerfi mun bæta samkeppnisstöðu Íslands þar sem íslensk fyrirtæki vita að starfsmenn þeirra fá forgjöf við það eitt að starfa á Íslandi og þegar fyrirtæki keppa um starfsfólk við önnur fyrirtæki í útlöndum, þá mun þetta hafa mikið að segja.

Í tíunda lagi getur útgerðin keypt kvóta hvenær sem er og hún ræður verðinu, útgerðin sjálf ræður verðinu. Þess vegna er þetta markaður. Og það er hugsanlegt að öll vandræðin sem við höfum átt við, hv. þingmenn, með krókaleyfisbáta séu leyst vegna þess að þeir munu hreinlega kaupa kvóta, aflaheimildir, eins og allir aðrir, og geta vel gert það því að ég hef grun um það að smábátaútgerð sé mjög arðbær.

Herra forseti. Fyrsta skrefið í átt að þessari tillögu gæti verið að nota veiðiheimildir í norsk-íslensku síldinni. Þetta hafa sumir hv. þingmenn lagt til og gæti verið fyrsta skref og þannig mildað enn frekar álögur á útgerðina.

Herra forseti. Fjármálalegar afleiðingar þessa kerfis eru þær að fjármálamarkaðurinn mun að sjálfsögðu jafna sveiflur á verði og að ekki verði miklar breytingar á verði ávísana frá degi til dags eða frá mánuði til mánaðar innan fiskveiðiársins. Það er fráleitt sem fram hefur komið t.d. hjá hæstv. sjútvrh. að aðallega ríkir geti keypt kvótann. Þeir geta ekki keypt kvótann því að þeir yrðu að kaupa hann á hverju einasta ári aftur og aftur og þeir mundu sprengja upp verðið. Hvað ættu þeir að gera við aflaheimildirnar? Þeir yrðu að veiða þær og til þess þurfa þeir aðstoð væntanlega Íslendinga þannig að það getur enginn ríkur aðili keypt allan kvótann. Það er fráleitt.

Fyrsta kastið er gert ráð fyrir að fyrstu þrjú árin fari út, þ.e. 5%, 10% og 15%, þ.e. fyrsta árið fari út, 30% sem eru til sölu og ef gert er ráð fyrir að helmingur þeirra sem fengi mundi selja, þá eru það u.þ.b. 3,5 milljarðar sem það mundi krefjast. Ekki af útgerðinni heldur af fjármálamarkaðnum. Það er fjármálamarkaðurinn sem mundi fjármagna þetta og hann fer létt með það.

Þegar kerfið verður komið í fullan gang geri ég ráð fyrir að um verði að ræða 11--12 milljarða miðað við það að verðið verði 30 kr. á kg og það muni gefa hverjum einstaklingi um 45 þús. kr. á ári. Í tillögunni er enn fremur bent á að sömu aðferð megi nota við aðrar auðlindir, eins og orkulindir og hálendið þegar takmarka þarf aðgang í þær auðlindir. Það er þannig í dag að öllum er hleypt inn í hálendið. Allir mega virkja sem geta vegna þess að það er minni eftirspurn en framboð eftir raforku. Það hefur gengið illa hjá okkur að selja raforkuna þannig að við erum ekki komnir í þá stöðu.

Aðalkostur þessarar hugmyndar er markaðsvæðing og ég vil benda á að hér er eingöngu verið að leggja til að kanna kosti og galla ákveðinnar tillögu.

Að lokinni umræðu legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til hv. sjútvn.