Póstburðargjöld

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 13:33:11 (1567)

1997-12-03 13:33:11# 122. lþ. 33.1 fundur 267. mál: #A póstburðargjöld# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Nýverið eða hinn 1. október var gjaldskrá póstþjónustunnar hækkuð fyrir innrituð blöð og tímarit innan lands, þar með talið fréttabréf, bæklingar og þess háttar og var hækkunin á bilinu 53--144%. Að auki voru tekin upp tvö gjaldsvæði fyrir þessa póstþjónustu, annars vegar innan svæðis og hins vegar utan svæðis, en allt að 40% verðmunur er á gjaldskrá milli svæða. Hér er um að ræða stefnubreytingu frá því sem verið hefur, að taka upp tvö gjaldskrársvæði sem nauðsynlegt er að hæstv. samgrh. skýri. Með því að taka upp tvö gjaldskrársvæði er verið að skattleggja landsbyggðina sérstaklega enda lendir stærsti hluti félagspósts í þessari hækkun sem og blöð og tímarit send af Reykjavíkursvæðinu út á landsbyggðina. Þetta virðist ganga þvert á þá stefnu sem ætla má að Alþingi hefði viljað fylgja, að jafna kostnað við póst- og símaþjónustuna í landinu. Hækkunin á gjaldskránni fyrir innrituð blöð og tímarit keyrir líka úr hófi fram og virðist allt ganga eftir sem spáð var þegar Pósti og síma var breytt í hlutafélag, að það mundi leiða til hækkana á gjaldskrá fyrir póstþjónustuna.

Hæstv. ráðherra getur varla skýlt sér á bak við það að hér sé um samkeppnispóst að ræða sem ekki megi niðurgreiða með almennum pósti. Geri ráðherrann það er nauðsynlegt að hann sýni fram á það hvaða fyrirtæki eru í samkeppni við Póst og síma um dreifingu á merktum pósti eins og ýmiss konar félagspósti og blöðum og tímaritum sem merkt eru á nafn. Ég vil halda því fram að í skjóli einokunar sé Póstur og sími að hækka gjaldskrána úr öllu hófi eða um allt að 144% og fyrr en seinna mun þessi hækkun með einum eða öðrum hætti lenda á neytendum. Eina samkeppnin sem Póstur og sími er í eru ómerktar fjöldasendingar, svonefndur ruslpóstur, en það er einmitt athyglisvert að þeir sem keppa um þær póstsendingar við Póst og síma, eins og fyrirtækið Póstdreifing, eru með gjaldskrá fyrir þessar ómerktu fjöldasendingar sem er helmingi lægri en hjá Pósti og síma.

Ég vil líka benda á að þessi hækkun mun lenda með fullum þunga á ýmsum félagspósti. Ég bendi á að póstburðargjöld fyrir fréttabréf sem Landssamtök eldri borgara hafa sent út sex sinnum á ári var 960 þús. á ári fyrir gjaldskrárbreytinguna en 1.800 þús. eftir þessa gjaldskrárhækkun. Landssambandið er með til ráðstöfunar á ári 2.300 þús. Þetta er því þungur baggi og er að sliga afkomu samtakanna. Þess vegna hef ég beint fyrirspurn til hæstv. samgrh. um póstburðargjöld og spyr hvaða ástæður liggi að baki því að taka upp tvö gjaldskrársvæði póstburðargjalda blaða og tímarita innan lands, þar með talið fréttabréfa og bæklinga, frá og með 1. október sl. Hver verður verðmismunur á póstburðargjöldum milli gjaldsvæða eftir þá breytingu? Hve mikil var gjaldskrárhækkunin á framangreindum póstburðargjöldum og hve mikil hefur hún verið sl. 15 mánuði? Hvaða forsendur liggja að baki hækkuninni? Og í fjórða lagi: Hver verður tekjuauki póstþjónustunnar við þessa gjaldskrárbreytingu?