Póstburðargjöld

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 13:36:28 (1568)

1997-12-03 13:36:28# 122. lþ. 33.1 fundur 267. mál: #A póstburðargjöld# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:36]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þar sem Póstur og sími er hlutafélag þótti mér eðlilegt að vísa fyrirspurninni til hlutafélagsins og les ég hér svar forstjóra þess, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með vísan til bréfs yðar, dags. 17. nóvember 1997, upplýsist eftirfarandi vegna fyrirspurnar til samgrh. um póstburðargjöld, sbr. þskj. nr. 335.

Forsaga málsins. Í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 8/1995, um póst utan einkaréttar, segir í ákvörðunarorði: ,,Skal þess gætt að póstþjónusta sem háð er einkarétti greiði ekki niður kostnað við aðra póstþjónustu.``

Í framhaldi af þessum ákvörðunarorðum gaf samgrn. út reglugerð nr. 627/1996, þar sem felld voru úr gildi ákvæði um sérstakar reglur um innritun blaða og tímarita. Einnig var felld úr gildi sérstök gjaldskrá sem gilti fyrir innrituð blöð og tímarit og viðbótarafslætti eftir útgáfuaðila og efnisinnihaldi.

Í 18. gr. laga um póstþjónustu, nr. 142/1996, segir m.a.: ,,Gjaldskrár fyrir grunnpóstþjónustu [þar með talin blöð og tímarit] skulu taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þær skulu vera gagnsæjar og í samræmi við jafnræðisreglur.``

Pósti og síma hf. var þar með bannað að greiða niður burðargjöld fyrir blöð og tímarit með tekjum af einkaréttarþjónustu og því kom til hækkun á þeirri gjaldskrá þann 1. október sl.

1. Ástæður tveggja gjaldsvæða. Eins og mælst er til í fyrrgreindum ákvörðunarorðum samkeppnisráðs nr. 8/1995 og lögum um póstþjónustu, nr. 142/1996, var við mótun gjaldskrár fyrir blöð og tímarit, sem er þjónusta utan einkaréttar, leitast við að taka mið af raunkostnaði við dreifinguna og jafna sem best óeðlilegan mun á milli gjaldskrár fyrir blöð og tímarit og gjaldskrár fyrir almennan bréfapóst.

Þá er í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 42/1996 mælt fyrir um dreifiskyldu Pósts og síma hf. á grunnpóstþjónustu í samkeppni, þar með talið dreifingu blaða og tímarita. Samkvæmt henni er mælst til um að Póstur og sími ,,dreifi pósti fyrir Póstdreifingu ehf. á stöðum sem falla innan dreifbýlispóstnúmera samkvæmt skilgreiningu Pósts og síma frá október 1996 og á stöðum sem falla undir þéttbýlispóstnúmer þar sem eru færri en 500 heimili. Skal Póst- og símamálastofnunin (síðar Póstur og sími hf.) inna þessa þjónustu af hendi, komi um það ósk frá Póstdreifingu ehf., á sömu kjörum og gegn sömu skilmálum og sá hluti póstþjónustu Pósts og síma nýtur sem starfar í samkeppni.``

Raunkostnaður við dreifingu fer að miklu leyti eftir þeim vegalengdum sem um er að ræða. Því þótti eðlilegt að hafa gjaldskrána tvískipta, þ.e. að hafa gjaldskrá fyrir dreifingu innan ákveðinna byggðarlaga ódýrari en dreifingu milli svæða. Mismunur á milli gjaldsvæða liggur því fyrst og fremst í hærri flutningskostnaði á milli svæða.``

Ég vil skjóta því hér inn í, hæstv. forseti, að meðan við sátum saman í ríkisstjórn, ég og hv. þm. frú Jóhanna Sigurðardóttir, kom frv. til nýrra samkeppnislega fram, borið fram af einum af ráðherrum Alþfl. Ef ég man rétt var ég eini ráðherrann sem lét uppi efasemdir um hvernig þessi nýju samkeppnislög mundu verka, m.a. á fyrirtæki eins og Póst og síma, en þeir tóku andköf, ráðherrar Alþfl., yfir því hversu góð lögin yrðu. En við sjáum hér m.a. afleiðingar þess að samkeppnislöggjöfin var sett jafnströng og raun ber vitni með þeim afleiðingum sem hv. þm. frú Jóhanna Sigurðardóttir lýsti svo vel hér áðan í mjög hnitmiðuðu máli. Og sný ég mér aftur að bréfi forstjóra Pósts og síma, með leyfi hæstv. forseta:

,,2. Verðmismunur á gjöldum fyrir blöð og tímarit innan svæða og á milli svæða. Gjald fyrir dreifingu á 250 g blaði eða tímariti er 24,75 kr. innan svæðis en 33 kr. þegar sent er milli svæða. Mismunurinn er breytilegur eftir þyngdarflokkum. Hann er frá 6,50 til 9 kr.

3. Hve mikil var hækkunin 1. október sl.? Sem dæmi um umfang hækkunarinnar má nefna að almennt verð á dreifingu á 250 g blaði eða tímariti var 17,50 kr. en frá því var veittur helmingsafsláttur af burðargjaldi fyrir dagblöð, fréttablöð í landshlutum, blöð sem landssamtök stéttarfélaga gáfu út og blöð sem fjölluðu um stjórnmál, en fjórðungsafsláttur fyrir tímarit og blöð sem fjölluðu sérstaklega um bókmenntir og trúmál.``

Nú er tíminn senn á þrotum. Ég mun lesa niðurlag bréfsins í síðari ræðutíma mínum, herra forseti.