Póstburðargjöld

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 13:45:09 (1571)

1997-12-03 13:45:09# 122. lþ. 33.1 fundur 267. mál: #A póstburðargjöld# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:45]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér er nokkur vandi á höndum. Annars vegar er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að svara þeirri skriflegu fyrirspurn sem fyrir liggur eða hvort ég eigi að svara þeim spurningum sem hv. fyrirspyrjanda liggur á hjarta. Nú hygg ég að það sé rétt að ég svari hinni skriflegu fyrirspurn fyrst. Ég vil á hinn bóginn leiðrétta það þegar hv. þm. segir að ekki sé samkeppni í því að dreifa tímaritum og blöðum. Það er mikil samkeppni í því og Póstdreifing hefur m.a. verið að dreifa tímaritum sem eru merkt einstaklingum og fyrirtækjum og af þeim sökum hygg ég að kæra Póstdreifingar til Samkeppnisstofnunar hafi verið runnin.

Svo ég haldi áfram bréfi forstjóra Pósts og síma, herra forseti --- en spurningar eru um tölulegar upplýsingar og annað þvílíkt en ekki um skoðanir ráðherra. Ég hefði auðvitað haft miklu meiri ánægju af því að ræða pólitík við hv. þm., póstpólitík, símapólitík og annað þar fram eftir götunum. En þá eiga þingmenn að spyrja þannig í þingskjali en ekki með spurningum eins og hér liggja fyrir --- þá segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Burðargjald fyrir 250 g blað eða tímarit er nú innan svæðis 24,75 kr. og 33 kr. ef sent er milli svæða. Afsláttarkjörum hefur einnig verið breytt og er nú veittur afsláttur frá fyrrgreindu verði eftir heildarviðskiptum en ekki útgáfuaðila og efnisinnihaldi eins og áður.

Hækkun á almennri gjaldskrá er breytileg eftir þyngd, á bilinu 3,8% til 77,7% þegar dreift er innan svæðis, en á bilinu 24,1% til 150% þegar sent er milli svæða ef ekki er tekið tillit til afsláttarkjara.

Hækkunin grundvallast á úttekt á raunkostnaði við flutning, flokkun og dreifingu á blöðum og tímaritum og er gerð til að mæta ákvæðum samkeppnisyfirvalda eins og áður segir.

Þá hækkuðu öll póstburðargjöld, þar með talin gjöld fyrir blöð og tímarit, um 15% 1. júní 1996.

4. Tekjuauki póstþjónustunnar við breytingu á gjaldskrá fyrir blöð og tímarit. Tekjuaukning póstsins vegna þessarar gjaldskrárbreytingar er áætluð um það bil 130 millj. kr. á ári miðað við óbreytt magn sem jafngildir þeirri niðurgreiðslu á þjónustunni sem óbreytt gjaldskrá hefði haft í för með sér.`` Og veit ég þá að hv. fyrirspyrjandi er upplýstari en áður.