Áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 13:52:00 (1574)

1997-12-03 13:52:00# 122. lþ. 33.2 fundur 268. mál: #A áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:52]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 336 hefur hv. 13. þm. Reykv. Jóhanna Sigurðardóttir beint til mín tveimur spurningum um áhrif fríðindatilboða á verðlagningu vöru og þjónustu. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi: ,,Hafa afsláttarkjör, fríðindatilboð (t.d. frípunktar), samræmdir viðskiptaskilmálar og þess háttar samningar hjá fyrirtækjum og stofnunum í atvinnu- og viðskiptalífi haft skaðleg áhrif samkeppni og stuðlað að hærra verði á vöru og þjónustu til neytenda?``

Ekki hefur verið sýnt fram á, hvorki hér á landi né í nágrannalöndunum, að ýmiss konar fríðindatilboð hafi almennt skaðleg áhrif á samkeppni eða leiði til hærra vöruverðs. Samræmdir viðskiptaskilmálar keppinauta eru hins vegar skaðlegir samkeppni enda er í samkeppnislögum lagt bann við samráði og samstilltum aðgerðum fyrirtækja sem starfa á sama sölustigi og þar með á sama markaði þegar þeim er m.a. ætlað að hafa áhrif á verð, afslátt eða álagningu. Samræmdar aðgerðir hvað þetta áhrærir eru bannaðar hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi. Samvinna af þeim toga sem hér um ræðir þykir vera með alvarlegustu samkeppnishindrunum og er því bönnuð samkvæmt samkeppnisreglum langflestra landa. Skaði slíkrar samvinnu getur m.a. falist í hærra verði á vöru og þjónustu en ella mundi verða.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hefur Samkeppnisstofnun kannað sérstaklega hvort framangreind fríðindatilboð og samræmdir viðskiptaskilmálar brjóti í bága við ákvæði samkeppnislaga?``

Samkeppnisstofnun fer með viðskiptaskilmála greiðslukortafyrirtækja, samanber 37. gr. samkeppnislaganna. Þannig hefur stofnunin yfirfarið skilmála vildarkorts Visa og Flugleiða og sérkort Stöðvar 2. Þá hefur stofnunin einnig yfirfarið skilmála Fríkorts og Safnkorts Esso. Ýmsar athugasemdir hafa verið gerðar við einstök atriði í skilmálum greiðslukortafyrirtækjanna og hafa fyrirtækin alltaf farið að þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið. Skilmálarnir eru ekki samræmdir gagnvart korthöfum en mjög áþekkir þar sem um sambærileg atriði er að ræða. Fulltrúar Samkeppnisstofnunar tóku þátt í vinnuhópi á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um svokallað tryggðarkerfi. Útgangspunkturinn í þeirri vinnu var sá að hafa neytendasjónarmið að leiðarljósi. Skýrsla þessa vinnuhóps er nú í prentun og kemur út fljótlega og mun verða fróðlegt gagn í innlegg þessarar umræðu.

Í kjölfar þeirrar vinnu sem fram fór í vinnuhópnum hafa umboðsmenn neytenda á öðrum Norðurlöndum sett leiðbeinandi reglur um markaðssetningu tryggðarkerfa. Þær reglur segja t.d. til um að ávinningi verði að vera hægt að breyta í peninga hvenær sem er og að skýrt eigi að koma fram hver verðmæti ávinningsins eða punktanna séu áður en kaupin fara fram. Samkeppnisráð setur væntanlega sambærilegar reglur fljótlega hér á landi með heimild í 30. gr. samkeppnislaganna.

Að mati Samkeppnisstofnunar verður ekki séð á þessu stigi að í skilmálum og kjörum fríkorta eða annarra tryggðarkorta felist samræmd viðskiptakjör sem bönnuð eru samkvæmt samkeppnislögum enda starfa þau fyrirtæki sem að einstökum tryggðarkerfum standa ekki á sömu mörkuðum. Ekki hefur verið kannað til hlítar að öðru leyti af Samkeppnisstofnun hvort fríðindakort eða annars konar tryggðarkerfi kunni að vera skaðleg samkeppni. Umræða hefur farið fram erlendis um samkeppnisleg áhrif, t.d. tryggðarkerfa flugfélaga, að því er best er vitað án þess að niðurstaða hafi fengist eða gripið hafi verið til íhlutunar vegna þeirra. Íslensk samkeppnisyfirvöld munu fylgjast með allri slíkri umræðu.