Upplýsingagjöf fyrirtækja á hlutabréfamarkaði

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:00:32 (1577)

1997-12-03 14:00:32# 122. lþ. 33.3 fundur 283. mál: #A upplýsingagjöf fyrirtækja á hlutabréfamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Á undanförnum mánuðum, ekki aðeins haustmánuðum, heldur og fyrr á þessu ári, hafa orðið nokkrar umræður um verðbréfamarkað, ekki síst um þann hluta hans sem við köllum markað með hlutabréf. Ástæður þeirrar umræðu hafa birst í inntaki þeirra, þ.e. ýmsum þeim sem á þessum markaði starfa sýnist ástæða til að fyrirtæki sem bjóða hlutabréf sín þar gefi upplýsingar með skemmra millibili en nú er gert ráð fyrir. Í síðasta mánuði kom fram skoðun eins þeirra manna sem starfa á þessum markaði og stjórna fyrirtæki sem er stór aðili að þessum viðskiptum. Það hlýtur að vekja athygli að þær kröfur sem gerðar eru til þessara fyrirtækja er ekki að finna í lögum eða reglum útgefnum af framkvæmdarvaldinu eða ráðuneytinu heldur einungis reglum sem gefnar eru út af Verðbréfaþingi Íslands sem starfar eftir sérstökum lögum. Þau lög eru nú til sérstakrar endurskoðunar, m.a. af þess eigin hálfu og að hluta til með það að meginmarkmiði að breyta lögunum á þann veg að fleiri aðilar en það eitt megi starfrækja slíkar viðskiptahallir, kauphallir, eða hvað sem við viljum nefna þær. En það hefur vakið athygli mína, herra forseti, að á þessu efni sem ég hef nefnt er ekki tekið í þeim frv. sem þegar hafa komið fram og því legg ég fyrir hæstv. viðskrh. fsp. á þskj. 354, eins og þar segir, með leyfi forseta:

Hvaða kröfur eru gerðar og af hverjum til fyrirtækja á hlutabréfamarkaði varðandi upplýsingar um hag og afkomu á nýliðnu tímabili, svo og um áætlanir um afkomu á yfirstandandi tímabili og í næstu framtíð? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þess verði krafist að fyrirtækin veiti þessar upplýsingar eftir hvern ársfjórðung?