Upplýsingagjöf fyrirtækja á hlutabréfamarkaði

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:09:55 (1581)

1997-12-03 14:09:55# 122. lþ. 33.3 fundur 283. mál: #A upplýsingagjöf fyrirtækja á hlutabréfamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:09]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. um þróun á hlutabréfamarkaði það sem af er en við verðum að hafa í huga að þessi markaður er mjög ungur og hafa verið á honum miklar sveiflur á þeim tíma sem hann hefur starfað. Þá er það svo að þessar sveiflur hafa mjög komið fram og menn hafa verið að fjárfesta þar í áhættusamri starfsemi oft og tíðum.

Skýrar reglur eru mjög mikilvægar og reglulegar upplýsingar gegna mjög mikilvægu hlutverki einmitt til fjárfestanna í því sambandi. Ég held að þegar fram líða stundir muni það verða mikilvægt samkeppnisatriði á þessum markaði hversu nákvæm upplýsingagjöf þeirra aðila sem verða á markaðnum er. Hversu reglulega hún er veitt og hversu oft upplýsingarnar berast inn á markaðinn frá viðkomandi aðilum. Ég held að þetta verði samkeppnisatriði þegar fram líða stundir gagnvart fjárfestunum. Fjárfestar verði frekar tilbúnir til að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum sem eru með reglulega upplýsingagjöf og nákvæma og um leið að hún berist mjög hratt inn á markaðinn.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurði hvort í þessum nýju reglum sem tækju gildi á Verðbréfaþinginu í desember væru um auknar kröfur að ræða frá því sem nú er. Reglurnar ganga fyrst og fremst út á það að tíminn er styttur í sex mánuði í desember. Varðandi upplýsingar um eignatengsl og laun stjórnenda þessara fyrirtækja, sem hv. þm. spurði um, er það svo að þessar upplýsingar liggja allar fyrir, ýmist á Verðbréfaþinginu eða varðandi eignatengslin í hlutafélagaskrá sem dæmi. En upplýsingar um launakjör liggja fyrir á Verðbréfaþinginu vegna þess að skila þarf inn ársreikningum þessara fyrirtækja á Verðbréfaþingi. Allar þessar meginupplýsingar um stjórnunarkostnað og þann kostnað sem hér hefur oft verið til umræðu á þingi undanfarnar vikur og mánuði, svo sem ferðakostnað, risnukostnað og hvaða kostnað sem er sem þarna er um að ræða, kemur allt mjög skýrt fram í ársreikningum fyrirtækja. Ársreikningalögin, virðulegur forseti, gera ráð fyrir að þessi kostnaður sé sundurliðaður og það er gert.