Greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:27:38 (1587)

1997-12-03 14:27:38# 122. lþ. 33.4 fundur 280. mál: #A greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða lög frá 1993 sem farið er eftir, og enginn þekkir þetta betur en hv. síðasti ræðumaður og hv. næstsíðasti ræðumaður, sem báðir hafa unnið hjá Tryggingastofnun um langt árabil og vita nákvæmlega hvernig þessum málum hefur verið háttað í gegnum tíðina. En það sem ég vil segja í þessu sambandi þegar menn tala um réttlæti, þá verða menn auðvitað að reikna út hvað það kostar fyrir eldri einstakling að dvelja heima og hvað það kostar fyrir eldri einstakling að dvelja á dvalarheimili þar sem hann fær alla þjónustu á staðnum, þjónustu sem einstaklingurinn þarf sjálfur að greiða ef hann dveldi heima. Ég býst við að þegar þessi lög og reglur voru settar á sínum tíma hafi það verið reiknað út, en nú heyri ég að þeir sem á sínum tíma settu þau lög eru nú að koma með þáltill. um að þeir ætli að endurskoða þann kostnað sem hlýst af því að dvelja heima og síðan á dvalarheimili. En það sem skiptir máli núna er að lög um málefni aldraðra eru í endurskoðun og sú vinna er á lokastigi og er þetta sérstaklega tekið fyrir. En ég veit að það verður samt ekki svo að dvalarkostnaður verði þeim algerlega að kostnaðarlausu sem hafa tekjur, en þeir sem ekki hafa tekjur greiða að sjálfsögðu ekki fyrir dvalarkostnað.