Uppsagnir sérfræðilækna

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:33:43 (1589)

1997-12-03 14:33:43# 122. lþ. 33.5 fundur 295. mál: #A uppsagnir sérfræðilækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:33]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þm. þá er það þannig að í 36. gr. laga um almannatryggingar er heimild fyrir Tryggingastofnun til að taka þátt í kostnaði vegna læknishjálpar utan sjúkrahúsa takmörkuð við að í gildi sé samningur við viðkomandi lækni. Samningur við viðkomandi lækni þarf sem sagt að vera í gildi. Því er svar mitt við fyrirspurn hv. þm. að það er ekki hægt að sveigja lög og reglur í takt við kjaradeilur.

Réttilega kom fram hjá hv. þm. að 56 sérfræðilæknar af 400 hafa sagt upp samningi við Tryggingastofnun. Staðan er nú sú að þeir hafa ákveðið, þrátt fyrir það að samningur sé enn í gildi, að hætta að vinna fyrir Tryggingastofnun. Uppsögn samninga er þeim að sjálfsögðu heimil en því fylgir jafnframt að Tryggingastofnun er ekki heimilt að taka þátt í greiðslu kostnaðar vegna þeirrar læknishjálpar. Hér er Tryggingastofnun í þeirri stöðu að læknarnir hafa ákveðið að hætta að vinna fyrir almannatryggingakerfið. Læknarnir taka hins vegar áfram á móti sjúklingum á stofum sínum, innheimta gjald sem þeir ákveða sjálfir og vita að Tryggingastofnun er óheimilt að taka þátt í kostnaði sjúklings.

Samningaviðræður við lækna eru í gangi en þær viðræður ganga allt of hægt. Ég get tekið undir það með hv. þm. Ég á þó von á því að niðurstöður séu á næsta leiti. Hvort nýgerðir kjarasamningar milli ríkissjóðs, borgar og sjúkrahúslækna hafa þar einhver áhrif er erfitt að segja á þessari stundu. En ég get deilt áhyggjum mínum með hv. þm. varðandi þá einstaklinga sem leita læknishjálpar og lenda í þeirri stöðu að þurfa að greiða mun meira fyrir læknishjálp en verið hefur. Um getur verið að ræða verulegar upphæðir fyrir fólk sem í mörgum tilvikum er illa statt. En ég endurtek: Ekki er hægt að sveigja lög og reglur að kjaradeilum. Það veit ég að hv. þm. skilur mætavel. Það er nauðsynlegt fyrir heilbrigðiskerfið og sjúklingarnir eiga kröfu til að Tryggingastofnun og læknarnir nái samningum hið fyrsta.

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr einnig hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að hægt verði að draga umrædda hækkun sérfræðilækniskostnaðar frá skatti. Í núgildandi skattalögum eru ákvæði þess efnis að einstaklingar geta sótt um lækkun á tekjuskatti vegna mikilla útgjalda, m.a. vegna sjúkdóma. Ég tel vafalaust að einhverjir einstaklingar geti fengið einhverja lækkun á sköttum með þessari leið en hlýt að benda á að um hana gilda ákveðnar reglur sem eru talsvert stífar að því er varðar tekjumörk og fleira. Sama gildir um endurgreiðslur Tryggingastofnunar vegna mikils læknis- og lyfjakostnaðar.

Hv. þm. sagði hér áðan að ekki væri hægt að ætlast til þess að sjúkrahúsin tækju við þeim sjúklingum sem þyrftu á aðgerðum að halda, en við verðum að ætla að sjúkrahúsin geri það. Hv. þm. sagði að um svo mikinn niðurskurð væri að ræða að það væri ekki hægt. Ef við berum saman undanfarin ár, þá er aukið fjármagn til heilbrigðis- og tryggingamála sem betur fer og um það hljótum við að vera sammála.

Við höfum líka bent sjúklingum á það að nýta heilsugæsluna meira en verið hefur á meðan á þessu ástandi stendur og fara til þeirra lækna sem eru enn á samningi hjá Tryggingastofnun. En á meðan á þessum kjaradeilum stendur eru vissir erfiðleikar og þeir bitna því miður á þeim sem síst skyldi.