Uppsagnir sérfræðilækna

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:43:40 (1593)

1997-12-03 14:43:40# 122. lþ. 33.5 fundur 295. mál: #A uppsagnir sérfræðilækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:43]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér hafa stór orð verið látin falla en mig langar að spyrja hv. þingmenn sem hér komu upp áðan hvort þeim finnist að læknar eigi alfarið að ráða því sjálfir hvað þeir rukka inn og Tryggingastofnun eða heilbrigðisþjónustunni sem greiðir þessa þjónustu komi það ekkert við. Eiga læknarnir að ráða því alfarið sjálfir? Um það snýst málið. Ég trúi ekki að það sé nokkur þingmaður hér sem segi að Tryggingastofnun eigi alfarið að fara að vilja læknanna varðandi það efni. Þá fyrst yrði hér mikið misrétti í heilbrigðisþjónustunni. Við erum að koma í veg fyrir að þetta misrétti skapist. Og þó ég viðurkenni hér fúslega að þetta sé erfitt ástand fyrir marga einstaklinga sem þurfa að leita til þeirra sérfræðinga sem hafa sagt upp samningi, þá eigum við þá leið að vísa þessum sjúklingum inn á sjúkrahúsið því það gerum við. Við verðum að gera það á meðan á þessari deilu stendur. Þetta mál snýst um að við getum ekki látið læknana ráða þeim töxtum sem upp eru settir. Kjölfestan í tryggingarmálum er sú að sjúklingurinn sé tryggður en þá þurfa líka læknarnir að vera á samningi hjá Tryggingastofnun. (RG: Ég óska eftir að bera af mér sakir.)