Skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:04:14 (1609)

1997-12-04 11:04:14# 122. lþ. 35.1 fundur 108#B skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra# (munnl. skýrsla), KH
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:04]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þó að réttindabarátta fatlaðra sé að sjálfsögðu daglegt viðfangsefni er vel til fundið að helga þeirri baráttu einn ákveðinn dag. Það hvetur ófatlaða til að íhuga stöðu fatlaðra sérstaklega á þessum degi og átta sig á hvar skórinn kreppir helst, velta fyrir sér hvað áunnist hefur og hver brýnustu viðfangsefnin eru. Þess vegna er rétt að hafa í heiðri alþjóðadag fatlaðra sem á sér nú fimm ára sögu.

Samtök fatlaðra hafa notað þennan dag vel. Þau hafa notað hann til að benda á það sem vel hefur verið gert, t.d. í atvinnumálum fatlaðra, í aðgengi að opinberum stofnunum o.s.frv. en einnig til að vekja athygli á nauðsynlegum úrbótum og þeir hafa haft erindi sem erfiði eins og t.d. með lyftuna í umhvrn.

Hæstv. félmrh. hefur flutt okkur skýrslu og opnað þessa umræðu um meginreglur Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra í daglegu samfélagi. Það hlýtur að hafa verið honum að mörgu leyti erfitt miðað við stöðuna nú og allt það sem ólokið er til að jafna metin. Reglur Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku, eins og það er orðað, er okkur mikilvægur leiðarvísir. Vissulega má segja að margt hafi áunnist frá þeim tíma þegar ófatlaðir meðhöndluðu fatlað fólk almennt og yfir höfuð eins og óhreinu börnin hennar Evu, en því miður má segja að svo sé í sumum tilvikum enn. Viðhorfin hafa breyst fyrst og fremst vegna ötullar baráttu samtaka fatlaðra sjálfra, en það skortir víða enn á skilning margra á því sem gera þarf til þess að fötluðum sé kleift að taka þátt í lífi og starfi eftir því sem hugur þeirra og geta stendur til.

Nú stendur til að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna og það held ég að sé rétt stefna. Ég er þeirrar skoðunar að almennt sé betra að hafa forræði hvers konar þjónustu sem næst þeim sem þurfa á henni að halda en slíkan tilflutning verður að undirbúa vel og vandlega og hann verður að vera í góðri sátt allra aðila. Það eru mörg vandamál óleyst í því efni þótt aðeins ár sé til stefnu hvað varðar húsnæðismál, menntamál, atvinnumál og margt fleira og yfir þessi mál þarf að fara lið fyrir lið og tryggja að sveitarfélögin hafi tök á að sinna þeim af meiri metnaði og myndarskap en ríkið hefur hingað til gert. Ég verð að segja alveg eins og er að mér líst illa á undirbúning málsins. Það styð ég m.a. með tilvísun í frv. til fjárlaga á næsta ári.

Húsnæðismál fatlaðra hafa haft nokkurn forgang í uppbyggingu þjónustu á undanförnum árum og til þess að tryggja fjármagn til þeirra hluta höfum við Framkvæmdasjóð fatlaðra sem lögum samkvæmt á að fá til sín óskiptar tekjur Erfðafjársjóðs í viðbót við framlag ríkisins. Við þekkjum þá sögu hvernig staðið hefur verið við lögin í þessu efni síðustu árin, bæði með því að skerða tekjur sjóðsins og einnig með því að taka af framkvæmdafé til rekstrar. Þetta hefur margsinnis verið rætt og gagnrýnt í sölum Alþingis og utan þeirra.

Á næsta ári áformar ríkisstjórn Íslands hins vegar með stuðning mikils meiri hluta þingmanna á bak við sig að skerða lögbundið framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra um heilar 235 millj. kr. og er nú von að margur spyrji: Hverjum á að nýtast marglofað góðæri til lands og sjávar? Hvað er svo miklu brýnna í húsnæðismálum landsmanna að klípa þurfi þetta fjármagn af Framkvæmdasjóði fatlaðra?

Kannski er ekki úr vegi að benda á brýna þörf sendiráðanna í þessu sambandi. Það er nefnilega talsvert hærri upphæð sem fer til bygginga og viðhalds sendiráða okkar erlendis en hér er verið að klípa af því fjármagni sem Alþingi taldi sig vera að tryggja til húsnæðismála fatlaðra með lagasetningu þar um fyrir nokkrum árum.

Auðvitað mætti nefna mörg önnur dæmi til hliðsjónar og alltaf má deila um forgangsmál í þessu efni sem öðrum. En það svíður sárt ekki síst með tilliti til batnandi efnahags þjóðarinnar að meiri hluti Alþingis skuli sætta sig við slíkar tillögur. Þörfin er svo mikil og neyðin er svo mikil í búsetumálum fatlaðra, sérstaklega í Reykjavík og á Reykjanesi þar sem hundruð fatlaðra einstaklinga eru á biðlistum eftir húsnæði og fjölmargir þeirra eru á neyðarbiðlistum sem þýðir að núverandi heimilisaðstæður þeirra eru þannig að úrlausn þolir enga bið. Þetta er okkar stærsti vandi nú og við getum leyst hann. Þetta er spurning um vilja og forgangsröðun verkefna.

Annað sem ég vil sérstaklega benda á eru menntunarmál fatlaðra. Það er þjóðinni til skammar að ekki sé betur að málum staðið í þeim efnum en dæmin sanna og mig undraði hvað hæstv. ráðherra taldi ástandið gott. Réttur fatlaðra er ekki minni en ófatlaðra í þessu efni. Réttur þeirra er nákvæmlega hinn sami en þeir hafa ekki notið þess réttar til fulls. Yfir þetta allt þarf að fara og gera þær úrbætur sem gera þarf. Það þarf stórátak, svo mikið er víst, bæði á grunnskólastigi en ekki síður hvað varðar framhaldsmenntun. Og nákvæmlega þessa dagana erum við minnt á alvarlega mismunun sem fatlaðir hafa orðið fyrir á báðum þessum skólastigum. Mér finnst satt að segja engin ástæða til að lofa einstaka skóla fyrir að veita sjálfsagða þjónustu en úr hinu þarf að bæta þar sem réttur er brotinn.

Margt fleira mætti nefna sem úr þarf að bæta, t.d. í sambandi við endurhæfingu. Við höfum Grensás og Reykjalund, sagði hæstv. ráðherra. En Grensásdeildin er t.d. ekki nýtt nema að hálfu vegna fjárskorts.

Hv. síðasti ræðumaður ræddi um kjaramál fatlaðra og þar var ekkert ofmælt, en tíminn leyfir ekki fleiri orð um það efni að þessu sinni, herra forseti. Þróunin er vonandi á réttri braut þótt hraðar mætti ganga. Það er mikið rætt um aðgengi fatlaðra, aðgengi að öllum þáttum nútímasamfélags. Þetta mál þarf ríkari forgang. Þetta er spurning um aðgengi að lífinu sjálfu, fatlaðra sem ófatlaðra.