Skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:10:36 (1610)

1997-12-04 11:10:36# 122. lþ. 35.1 fundur 108#B skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra# (munnl. skýrsla), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:10]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Samkvæmt stjórnarskrá íslenska lýðveldisins skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, uppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti, eins og segir í lögunum. Þegar kemur að stöðu fatlaðra í okkar samfélagi hygg ég að segja megi að því miður njóti þeir ekki jafnréttis í hvívetna þó að víða sé þeirra getið í lögum.

Það hefur vakið athygli mína við yfirferð frv. til fjárlaga hversu gífurlega mikið starf er unnið hér á landi í þágu fatlaðra, bæði þeirra sem eru líkamlega fatlaðir og andlega fatlaðir eða jafnvel þótt hvort tveggja sé. Hér er ógrynni félaga, styrktarfélaga og félaga aðstandenda fatlaðra og öryrkja. Það vekur hjá mér þá spurningu hvort ekki megi betur gera, hvort ekki sé hægt að sameina og nýta kraftana miklu betur en nú er gert. Að vísu á stofnun félaga sér oft þann tilgang að vekja athygli á málefnum sérstakra hópa, og veitir ekki af, en þegar jafnbrýn þörf er í okkar samfélagi og við sjáum allt í kringum okkur að bæta kjör fatlaðra, þá spyr maður sig hvort ekki væri ástæða til að sameina kraftana enn betur.

Í því samhengi vil ég vekja athygli á því hve öryrkjum hefur fjölgað mikið hér á landi á undanförnum árum. Það hefur orðið mikil fjölgun öryrkja. Sérstaklega hefur konum fjölgað í þeim hópi sem vekur upp spurningar um það hvers konar fötlun liggi þar að baki eða hvað það er sem gerir fólk óvinnufært. Þetta er til skoðunar hjá Tryggingastofnun ríkisins en þetta tengist stöðu fatlaðra á margvíslegan hátt, húsnæðismálum, atvinnumálum og öðru því sem komið hefur verið inn á í þessari umræðu og virkilega þarf að taka á.

Eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns er það einkum á höfuðborgarsvæðinu sem skortir mjög á húsnæði og þar eru langir biðlistar og ég hygg að brýnast sé að taka á þeim málum.

Hæstv. forseti. Það er líka mjög mikilvægt að tala ekki um fatlaða og öryrkja sem einsleitan hóp heldur að skoða hina mismunandi hópa, skoða konur sér, karla sér, líkamlega fötlun annars vegar, andlega fötlun hins vegar ef maður ætlar að fá nákvæma mynd af því hver þörfin er og að lokum, hæstv. forseti, vil ég skora á hæstv. ráðherra að gera nú rækilega úttekt á því hvernig stefnu Sameinuðu þjóðanna er framfylgt á Íslandi og hvað má betur fara þannig að við getum bætt okkur og stuðlað að raunverulegu jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra hér í okkar samfélagi.