Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:19:50 (1612)

1997-12-04 11:19:50# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:19]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt eiga sér stað á þessum mánuðum sameiningar sveitarfélaga. Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa sérstakri ánægju minni með hve vel hefur miðað í því efni. Fólkið hefur fundið það sjálft að skynsamlegt sé að sameinast og sameining hefur þegar verið samþykkt í allmörgum sveitarfélögum og umræður og atkvæðagreiðslur fara fram á þó nokkrum stöðum til viðbótar fyrir vorið.

Þegar sveitarfélög sameinast yfir kjördæmamörk þá þarf að flytja um það sérstakt lagafrv. eða setja um það sérstök lög og því er ég hér kominn með frv. til laga um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar.

1. gr. frv. hljóðar svo:

,,Sveitarfélögin Kjalarneshreppur í Kjósarsýslu og Reykja\-vík\-ur\-borg skulu sameinuð.``

Og 2. gr. frv. hljóðar svo: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi og hafa ekki áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar.``

Þessi sameining fer fram á grundvelli atkvæðagreiðslu sem fór fram 21. júní 1997 en þar var samþykkt í báðum sveitarfélögum að sameinast. Í framhaldi af því hafa hreppsnefnd Kjalarneshrepps og borgarstjórn Reykjavíkurborgar tekið ákvarðanir um fjárhagsmálefni sveitarfélaganna o.fl., samanber 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaganna, nr. 8/1986.

Kjalarneshreppur er í Kjósarsýslu og samkvæmt 31. gr. stjórnarskrárinnar er Kjósarsýsla í Reykjaneskjördæmi. Ég hef hér í höndum álitsgerð frá embætti ríkislögmanns þar sem fjallað er um hvort breyta þurfi stjórnarskrá vegna sameiningar sveitarfélaga sem eru í sínu kjördæmi hvort. Í niðurlagsorðum segir svo, með leyfi forseta:

,,Sameining sveitarfélaga sem eru sitt í hvoru kjördæminu breytir því ekki að íbúar hinna sameinuðu sveitarfélaga tilheyra eftir sem áður því alþingiskjördæmi sem þeir áður gerðu. Atbeini stjórnarskrárgjafans þarf því aðeins til að koma að menn telji æskilegt að breyta kjördæmaskipaninni jafnframt til samræmis. Samkvæmt framanrituðu teljum við að almenni löggjafinn geti kveðið á um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu án atbeina stjórnarskrárgjafans. Til að taka af öll tvímæli má í lögum um slíka sameiningu taka fram, eins og áður hefur verið gert í löggjöf, að sú sameining hafi ekki áhrif á gildandi kjördæmaskipun.`` Þetta var tilvitnun í álitsgerð frá embætti ríkislögmanns.

Ég vil hins vegar láta þá skoðun í ljósi að ég tel næsta líklegt og nánast sjálfsagt að þegar stjórnarskrárbreyting verður gerð, vegna breytingar á kosningalögum, sem væntanlega verður fyrir lok þessa kjörtímabils, þ.e. að við aðrar alþingiskosningar hér frá verði kosið eftir nýjum kosningalögum og nýjum stjórnarskrárákvæðum. Þá tel ég það einboðið að Kjalarnes flytjist í Reykjavíkurkjördæmi. Annað fyndist mér vera óeðlilegt. En sú skipan sem nú er lagt upp með, til bráðabirgða, getur gengið.

Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta mál en vænti þess, að lokinni þessari umræðu, að frv. verði vísað til hv. félmn.