Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:24:37 (1613)

1997-12-04 11:24:37# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., ÓE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:24]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ætlun mín er ekki að leggja stein í götu þessa frv. með því sem ég kann að segja hér á eftir. Ef Alþingi vill haga málum eins og hér er lagt til þá sætti ég mig við það en ég segi hins vegar strax að mér þykir slík skipan vandræðalausn og hef ákveðnar efasemdir um að rétt sé staðið að málum. Það sem ég nefni hér á eftir er sett fram til þess að hvetja hv. félmn., sem væntanlega fær frv. til athugunar, til að kanna málið rækilega og svara þeim spurningum sem hljóta að vakna í sambandi við þetta frv.

Frumvarpið er í sjálfu sér afar einfalt. Það er aðeins tvær greinar eins og hæstv. félmrh. hefur rakið. Fyrri greinin er um sameiningu hinna tveggja ólíku sveitarfélaga, Kjalarneshrepps í Kjósarsýslu og Reykjavíkurborgar. Ég ætla ekki að gera neitt mál úr þeirri ætlan sem meiri hluti þeirra sem þátt tóku í hvoru sveitarfélaginu um sig, í almennri atkvæðagreiðslu, hafa samþykkt. Að sjálfsögðu er það þeirra mál og er nú leitað eftir að staðfest verði með lögum frá Alþingi eins og gera verður ef þessi samþykkt íbúanna á að fá eitthvert gildi. Ég hef hins vegar mínar skoðanir á því máli og ég get strax sagt að ég tel það ekkert ótvírætt að sú sé heppilegust skipan sveitarstjórnarumdæma að langstærsta sveitarfélagi landsins verði sköpuð sérstök skilyrði til þess að vaxa öðrum meira yfir höfuð en nokkru sinni fyrr. Ég tel það ekki sjálfsagt mál.

Um hagsmuni Kjalnesinga í þessu samhengi ætla ég heldur ekki að ræða nú. Ég segi bara að þessi leið út úr þeirra vanda er ekki hin eina sem kann að vera fær til að tryggja framtíð þess sveitarfélags. En íbúarnir hafa valið þetta og ég ætla ekki, eins og ég segi, að leggja stein í götu þeirra. En nóg um þetta.

Sameiningarmál sveitarfélaga hafa verið mjög ofarlega á baugi að undanförnu og ég hygg að það hafi allt verið í rétta átt sem þar hefur átt sér stað, hin smæstu sveitarfélög hafa verið að sameinast og minni sveitarfélög að sameinast hinum stærri. Það hefur verið rétt þróun en vandamálin í skipan sveitarstjórnarmála hafa ekki verið hér á höfuðborgarsvæðinu. Þau hafa einmitt verið út um land, meðal hinna fámennari sveitarfélaga. Smæð sveitarfélaga hefur ekki verið vandamál á höfuðborgarsvæðinu þar sem sveitarfélögin eru yfirleitt nægilega stór til þess að sinna þeim viðfangsefnum sem þeim eru ætluð. Ég undanskil þá að sjálfsögðu sveitarfélög eins og Kjalarneshrepp þar sem búa einungis um það bil 500 manns.

Hæstv. ráðherra vitnaði hér til greinargerðar fyrrv. ríkislögmanns frá því í september 1993. Ég hef þessa greinargerð undir höndum og á henni virðist 2. gr. í frv. hæstv. ráðherra fyrst og fremst byggjast, þ.e. að samþykkt frv. hafi ekki áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar. Ég ætla ekkert að fara að rekja þessa greinargerð ríkislögmanns en hins vegar hlýt ég að segja að mér finnst hún ekki vera mjög vandlega unnið plagg, mér finnst það ekki. Í henni eru atriði sem má vissulega deila um. Ríkislögmaður rekur ýmislegt sem áður hefur gerst í sambandi við breytingu á kjördæmamörkum vegna sameiningar sveitarfélaga. Og það vill nú svo til að þau dæmi sem við höfum, og þau eru nokkuð mörg, þar sem breytt hefur verið lögsagnarumdæmismörkum sveitarfélaga vegna stækkunar eða sameiningar, eru öll á einn veg.

[11:30]

Það hefur enginn látið sér detta í hug að það væri verið að fremja stjórnarskrárbrot sem mér sýnist hins vegar að menn ætli ef þessi 2. gr. frv. verði ekki samþykkt. En ég kannast ekki við í fyrri dæmum að slíkt ákvæði hafi verið í frv. eða löggjöf. Ég hef ekki fundið slíkt dæmi. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna stjórnarskrárbrot nú fyrst þetta ákvæði verður ekki í löggjöfinni fyrst það hefur ekki verið áður? Við höfum mörg hliðstæð dæmi. Ég get rakið þau nokkur. Ríkislögmaður hefur tekið dæmi, t.d. frá 1954 þegar Akureyrarbær var sérstakt kjördæmi, einmenningskjördæmi, en Eyjafjarðarsýsla annað kjördæmi, tvímenningskjördæmi, og hluti Glæsibæjarhrepps, Glerárþorp og ýmsar jarðir þar í grennd voru sameinaðar Akureyri. Þá talaði enginn um stjórnarskrárbrot og íbúarnir voru ósköp einfaldlega fluttir, sennilega fyrir atbeina Hagstofunnar, á kjörskrá í Akureyrarkjördæmi. Þetta er allt saman rakið, en ríkislögmaður segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Við höfum efasemdir um réttmæti þeirrar framkvæmdar.`` Svona eru fleiri dæmi í greinargerð ríkislögmanns sem segir þó að þessi túlkun hans sé ekki hafin yfir allan vafa.

Ég ætla ekki að fara að rekja þessa greinargerð neitt nánar. Ég hef aðeins sagt að mér þyki hún ekki vera nægilega vandlega unnið plagg. Ég skal taka önnur dæmi. Það er vísað til gildandi sveitarstjórnarlaga frá 1986 þar sem segir: ,,Sameining sveitarfélaga yfir mörk kjördæma verður ekki ákveðin nema með lögum.`` Þetta er að sjálfsögðu vitað og hefur aldrei verið gert öðruvísi en með lögum. Svo segir í athugasemdum sem fylgdu þessari grein frv., að sameining sveitarfélaga yfir mörk kjördæma geti raskað kjördæmaskipan og verði því ekki ákveðin nema með lögum. Síðan er vísað til handbókar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 1986 þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Væntanlega mundi tilflutningur stórra sveitarfélaga á milli kjördæma mæta andstöðu á Alþingi en öðru máli gegnir um sameiningu fámennra sveitahreppa eða hluta þeirra yfir kjördæmismörk.``

Svo segir í niðurstöðu ríkislögmanns, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við teljum að í framanröktum athugasemdum og skýringum í handbók felist ónákvæmni eða misskilningur.`` Síðan byggir ríkislögmaður niðurstöðu sína á álitinu á því sem áður hefur gerst. Mér þykir þetta ekki vandlega unnið. Fleira mætti nefna sem ég ætla hins vegar ekki að eyða tímanum í.

Hafi menn grunsemdir um að ef þetta ákvæði 2. gr. verði ekki samþykkt þá sé verið að brjóta stjórnarskrána, þ.e. þá verði Kjalarneshreppur einfaldlega hluti af Reykjavíkurkjördæmi, ekki bara Reykjavíkurborg, heldur Reykjavíkurkjördæmi í alþingiskosningum, þá má eins velta því fyrir sér hvort verið sé að brjóta stjórnarskrána með því að gera það ekki þegar þessi sveitarfélög eru orðin eitt. Í stjórnarskránni segir í 31. gr., með leyfi hæstv. forseta, þar sem talin eru upp kjördæmin, í 1. tölul. upptalningarinnar:

,,Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til 4 ára í þessum kjördæmum:

1. Reykjavíkurkjördæmi. Til þess telst Reykjavík.

2. Reykjaneskjördæmi.`` Þar eru taldir upp kaupstaðirnir og sýslurnar tvær.

Allar breytingar sem hafa verið gerðar, og þær hafa flestar orðið einmitt milli Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis, að einni undanskilinni, hafa verið á kostnað sveitarfélaganna hér í kring, Seltjarnarness, Kópavogs og Mosfellsbæjar. Allt hefur það orðið til að stækka Reykjavíkurkjördæmi, segi ég, vegna þess að í öllum tilvikum hafa íbúar viðkomandi sveitarfélaga verið færðir á íbúaskrá Reykjavíkur og fengið kosningarrétt þar, líka í alþingiskosningum, ekki bara í sveitarstjórnarkosningum. Þess vegna vaknar spurningin alveg á sama hátt hvort almenni löggjafinn geti ýtt stjórnarskrárákvæðinu út af borðinu þegar Reykjavíkurborg stækkar --- ég man ekki hvort það var samþykkt í atkvæðagreiðslunni, en mig minnir það nú, að nafnið skyldi áfram vera Reykjavík en ekki Kjalarvík eða eitthvað svoleiðis. Ég geng út frá því að það sé rétt munað hjá mér að nafnið verði Reykjavík áfram (Gripið fram í: Eða Reykjanes.) eða Reykjanes.

Það má líka spyrja við þessa breytingu hvort gamli Kjalarneshreppurinn, sem er þá væntanlega orðinn hverfi í Reykjavík, er enn þá í Kjósarsýslu? Það er kannski auðvelt að svara því játandi að hann sé áfram í Kjósarsýslu. En mér finnst þetta enn kalla á frekari athugun á því hvað verið er að gera hérna. Hæstv. ráðherra sagði í lok ræðu sinnar, sem ég vissi nú ekki, að ætlunin væri að samþykkja eitthvað sem væri bara til bráðabirgða. Það er ekkert getið um það. Við gerum ráð fyrir að sá tími renni upp að kjördæmaskipaninni verði breytt en við vitum ekkert hvenær það verður. Menn hafa vonað það allt of lengi. En það hefur ekki orðið og við sjáum ekki nákvæmlega hvenær sá tími rennur upp. Þess vegna vakna enn þá fleiri spurningar í þessu sambandi. Ef Reykjavíkurborg færi eftir sameininguna að beina í mjög svo auknum mæli byggðinni upp á Kjalarnes verða íbúarnir þar í Reykjaneskjördæmi. Þingmenn Reyknesinga ættu kannski að þakka fyrir sig að önnur sveitarfélög utan Reykjaneskjördæmis beini íbúaflaumnum inn í Reykjaneskjördæmi og Reyknesingar hljóta að fá fleiri þingmenn út á það. Við fengum einn þingmann til viðbótar í síðustu kosningum frá Norðurl. e., vegna íbúaflutninga, og slíkar breytingar hlytu að halda áfram. Ætla t.d. þingmenn Reykv. eða Reykjavíkurborg að una því? Ætla þeir aðilar að vinna að slíkri skipan mála? Það kæmi mér á óvart. Þetta er svona eitt með öðru sem hefur vakið upp spurningar í mínum huga og ég er að færa þær fram hér til þess að vekja athygli hv. félmn. á þessu. Ég segi enn og aftur: Það hafa oft verið gerðar breytingar en ég ætla ekkert að fullyrða um að það hafi verið lögformlega staðið að verki en það hefur samt aldrei verið dregið í efa fyrr en þá kannski núna. Ég nefni síðustu stóru breytinguna milli Reykjavíkur og þáverandi Gullbringu- og Kjósarsýslukjördæmis frá 1943 þegar lagðar voru undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í þáverandi Seltjarnarneshreppi sem og spilda úr landi jarðarinnar Vatnsenda í sama hreppi, jarðirnar Grafarholt, Gufunes, Keldur, Eiði, Knútskot, Korpúlfsstaðir, Lambhagi, Reynisvatn og jarðarhlutinn Hólmsheiði, allt í Mosfellshreppi. Allt fór þetta undir Reykjavíkurkjördæmi og enginn lét sér detta í hug að hér væri verið að fremja stjórnarskrárbrot. Ég hef minnst á breytingar á lögsagnarumdæmismörkum Akureyrar og Eyjafjarðarsýslu og mörg fleiri dæmi mætti nefna.

Ég hef þessar efasemdir líka vegna þess að ég er í hjarta mínu á móti stækkun kjördæmanna. Ég er það. Ekki síst stækkun stærsta kjördæmisins Reykjavíkurkjördæmis. En ég vil hins vegar ekki standa í vegi fyrir því ef þessi sameining milli Kjalarneshrepps og Reykjavíkurkjördæmis verður samþykkt að þetta hverfi úr Reykjavík, núverandi Kjalarneshreppur, falli þá undir Reykjavíkurkjördæmi. Mér finnst það miklu eðlilegra en að sá hluti verði áfram í Reykjaneskjördæmi. Mér finnst ekki eðlilegt að sveitarfélag skiptist á milli tveggja kjördæma nema við gjörbreytum þá kjördæmaskipaninni. Ég get vel séð fyrir mér að Reykjavík yrði nokkur einmenningskjördæmi eða tvímenningskjördæmi en ekki við núverandi skipan. (Gripið fram í.) Minnsta að flatarmáli. Það er áreiðanlega rétt hjá hv. þm.

Ég held að þessi lög gangi ekki og ég get út af fyrir sig lýst ánægju minni með að heyra hjá hæstv. félmrh. að þetta sé bráðabirgðalausn. Það breytir málinu dálítið. En ég held að hæstv. félmrh. geti ekki sagt okkur hversu lengi bráðabirgðalausnin muni standa. Gjarnan vildi ég fá svarið.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð en ítreka að orð mín eru ekki sögð til að leggja stein í götu málsins heldur eingöngu til að hvetja hv. félmn. og auðvitað þingið í heild til að athuga þetta mál sem vandlegast.