Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:51:51 (1615)

1997-12-04 11:51:51# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:51]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að mér þykir kostulegt ef menn eiga að kjósa í einu kjördæmi til Alþingis en í öðru í sveitarstjórnarkosningum. Ég vil hins vegar spyrja af hverju þetta er svo flókið. Menn vitna í stjórnarskrána, hæstv. forseti, og þar segir ekkert annað í 31. gr. þar sem upp eru talin kjördæmin, en: ,,Til Reykjaneskjördæmis teljast`` og þar segir m.a. ,,Kjósarsýsla.`` Ég spyr þess vegna hv. þm., sem ég veit að hefur þó nokkra þekkingu á þessum málum: Er ekki hægt að líta svo á að þegar Kjalarneshreppur hefur sameinast Reykjavík, þá sé hann ekki lengur í Kjósarsýslu heldur hluti af Reykjavík? Eftir stendur Kjósarsýsla á sínum stað og ég spyr þess vegna: Er nauðsynlegt að standa fyrir einhverjum lagabreytingum af þessu tilefni? Ég dreg það satt að segja í efa, misskilji ég ekki hlutina alvarlega.