Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:53:06 (1616)

1997-12-04 11:53:06# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:53]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá eru lagagreinarnar einfaldar og skýrar og þær þrjár setningar sem ég las úr greinargerðinni rökréttar þar til maður fer að velta málinu fyrir sér og gera þau flókin eins og þingmaðurinn vísaði til. Ég tek alveg undir það og ég ætla að vona að Kjósarsýsla verði á sínum stað þrátt fyrir það að Reykjavík og Kjalarnes sameinst. Þetta lítur hins vegar út fyrir að vera lögfræðilegt atriði sem virkar mjög undarlega á mig miðað við þá yfirlýsingu sem fyrrverandi ríkislögmaður gaf og miðað við framsögu félmrh. Mér finnst ankannalegt að Reykjavík eigi ekki að vera öll í Reykjavíkurkjördæmi. Mér finnst það eðlilegt úr því að menn ákveða þetta, að Kjalarnes verði í Reykjavík og Reykjavíkurkjördæmi og ég hef það á tilfinningunni að það þyrfti ekki að vera flókið en það skýrist væntanlega þegar við förum að kalla til okkar alla þá lögfróðu aðila sem við hljótum að leita til við úrvinnslu þessa litla en flókna frv.