Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 11:54:26 (1617)

1997-12-04 11:54:26# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[11:54]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka undir athugasemdir mínar því að auðvitað koma upp vandamál sem alltaf verða óleysanleg ef Reykjavík verður ekki í heilu lagi sem kjördæmi. Það væri gaman að hugsa sér hvernig hv. fjárln. afgreiðir fjárlög varðandi Reykjavík og þennan undarlega hluta hennar sem á að verða áfram í öðru kjördæmi. Ég held að þetta gangi ekki og jafnvel þó virðulegur ríkislögmaður hafi þær skoðanir sem hann lýsir í greinargerð sinni, þá leyfi ég mér að draga í efa að þær áhyggjur séu eins gildar og hann telur og ég vil biðja hv. félmn. að kanna hvort málið sé bara ekki svo einfalt að Kjalarneshreppur gangi úr Kjósarsýslu. Eftir stendur sú góða sýsla og er auðvitað hluti af sínu kjördæmi áfram, en Reykjavík hlýtur, held ég, að þurfa að hanga saman, bæði sem sveitarfélag og kjördæmi og ég vil leggja á það mikla áherslu að menn klúðri þessu ekki.