Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:07:24 (1620)

1997-12-04 12:07:24# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:07]

Ólafur G. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég man eftir einu dæmi eftir 1959 um breytingu á lögsagnarumdæmismörkum sveitarfélaga yfir kjördæmamörk. Það er frá 1978 þegar breytt var mörkum milli Seltjarnarneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar. Það var í fullu samkomulagi milli sveitarfélaganna. Ég veit satt að segja ekki hversu margt fólk fluttist á milli en það skiptir ekki máli. Það er auðvitað landsvæðið sem við erum að ræða um þegar við erum að tala um breytingu á mörkum kjördæma. En með þeirri löggjöf voru eyjarnar Akurey, Viðey og Engey lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Ég held að þá hafi enginn búið á þeim eyjum. Jafnframt var samið um breytingar á mörkum sveitarfélaganna við Eiði á Seltjarnarnesi þannig að verulegur hluti lands Eiðis gekk til Seltjarnarneskaupstaðar á móti. Þannig að þetta er dæmi og enginn talaði þá um stjórnarskrárbrot.

Ég lét nú kannski ekki beint að því liggja að ákvæði 2. gr. eins og hún er í frv. væri stjórnarskrárbrot. Hún gæti hins vegar verið það ef frv. væri fylgt eftir eftir að það yrði að lögum og lögsagnarumdæmismörk Reykjavíkurborgar yrðu færð út sem næmi Kjalarneshreppi. Þá getum við alveg eins rætt það hvort stjórnarskráin, eins og hún er orðuð, ráði ekki þarna. Reykjavíkurkjördæmi er Reykjavík, eins og hún er þá orðin, og þar með væri ákvæðum stjórnarskrárinnar fullnægt.