Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:09:22 (1621)

1997-12-04 12:09:22# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:09]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessa ábendingu. Ég ætla hins vegar að vekja athygli á því að í þessu dæmi sem hann nefndi var ekki um að ræða heilt sveitarfélag og íbúa heils sveitarfélags sem að undangenginni atkvæðagreiðslu ákvað að sameinast sveitarfélagi í öðru kjördæmi. Það er kannski munurinn. Ég held að ekkert annað dæmi sé til um það.

Varðandi mörkin þá finnst mér það mikilvægt innlegg í þetta mál, sem ég kom ekki að í ræðu minni áðan, að stjórnarskrárgjafinn hefur fjórum sinnum frá 1934 fest mörk kjördæma í stjórnarskránni. Það var ekki þannig áður. Til 1934 var þetta í kosningalögum en samkvæmt stjórnarskrárbreytingunni 1934, 1942, 1959 og svo 1983, í öllum tilvikum festu menn þessi umdæmi. Ástæðan var aðallega sú að menn töldu að nauðsynlegt væri að kveða skýrt á um þessa hluti til þess að menn væru ekki að breyta mikilvægum grundvallarþáttum stjórnsýslunnar með einfaldri lagasetningu á þingi. Ég tel því að Alþingi eigi að vera afskaplega nákvæmt, að ég segi ekki íhaldssamt að því er það varðar að túlka þessi ákvæði stjórnarskrárinnar eins og önnur.