Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:11:00 (1622)

1997-12-04 12:11:00# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:11]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur verið afar fróðlegt að hlusta á umræðurnar í morgun og þetta er merkilegt mál sem við erum að fjalla um. Ég get fullvissað hv. 8. þm. Reykv. og aðra sem tekið hafa til máls um að þetta mál mun að sjálfsögðu fá mjög vandlega skoðun í félmn. Ég get sagt það að ég hef mjög miklar efasemdir um hvort þetta frv. standist stjórnarskrána yfir höfuð. Það er stjórnarskráin sem er æðri, um það er ekki nokkur vafi. Það þarf ekki annað en að lesa 31. gr. stjórnarskrárinnar, eins og menn hafa reyndar gert á undan mér, til að sjá hver vandinn er. Annars vegar er kjördæmið Reykjavíkurkjördæmi skilgreint. Til þess telst Reykjavík. Hins vegar er Reykjaneskjördæmi skilgreint þar sem Kjósarsýsla er upp talin. Og eins og við vitum tilheyrir Kjalarnesið Kjósarsýslunni. Þarna er því vandfarið meðalhófið og ég held að hvernig sem á það er litið þá sé þetta mikið túlkunaratriði. Það vekur upp þá spurningu sem hv. 8. þm. Reykv. kom inn á í lokin um það hvort eðlilegt er að festa kjördæmaskipanina svona rækilega niður, eins og gert er í stjórnarskránni, að þegar samþykktir eru gerðar á við þá að sameina Reykjavík og Kjalarneshrepp þá skulum við lenda í þeim vanda að mikið mál er að breyta kjördæmamörkum. Það má velta því fyrir sér og væri fróðlegt að fara ofan í það hvaða rök lágu fyrir því á sínum tíma. Árið 1934 og árin þar á undan áttu sér stað gríðarlegar deilur um kjördæmaskipan og um vægi atkvæða og fleira slíkt m.a. með frægu þingrofi 1931 og endanlegu samkomulagi, sem Framsfl. var nú lítt hrifinn af og barðist mjög gegn. Það væri fróðlegt að rifja upp hver rökin voru fyrir því að setja þessa kjördæmaskipan í sjálfa stjórnarskrána og hvernig það er í öðrum löndum, hvort menn ríghalda svona í kjördæmamörkin. Það hlýtur að vera öllum ljóst að stokka þarf upp kjördæmaskipanina þó mikil tregða sé til þess. Sem dæmi þá hefur mér alltaf þótt staða Seltjarnarneskaupstaðar úti á Nesi afar sérkennileg --- reyndar hét allt svæðið áður Seltjarnarneshreppur en það er búið að skera hann endalaust niður. (Gripið fram í: Er þingmaðurinn í landvinningahugleiðingum?) Hv. þm. má túlka það eins og hann vill. En það má líka hugsa sér og skoða þá hugmynd að skipta Reykjavík upp í fleiri kjördæmi þótt ég sé fyrir fram ekkert spennt fyrir þeirri hugmynd. En það má velta fyrir sér ýmsum möguleikum til að jafna kjördæmin og flytja mörkin.

[12:15]

Þetta eru allt saman hlutir sem þarf að skoða rækilega og reyna að finna lausn á þeim vanda sem er við að glíma. Ég get tekið undir með hæstv. forseta þingsins að enginn veit hvenær niðurstaða fæst í kjördæmamálin og breytingar á kosningalögunum þó að nú sé nefnd að störfum. Það getur dregist von úr viti. Það hefur a.m.k. gengið mjög treglega á undanförnum árum að knýja fram einhverjar raunverulegar og stórar breytingar og menn hafa mjög mismunandi skoðanir á því hvað beri að gera í því og hvaða leiðir eigi að fara. Eins og frv. lítur út orkar það mjög tvímælis og þarf að fá fleiri greinargerðir til þess að fá úr því skorið og auðvitað er það Alþingi sem á endanum kveður upp úr.

Lögsagnarmörk eru athyglisvert atriði. Ef lögsagnarmörkin verða ekki færð út þannig að sveitarfélagið Reykjavík verður í tveimur lögsagnarumdæmum, hvaða afleiðingar hefur það? Hver er þá orðinn sá ávinningur íbúanna, t.d. að hafa sameiginlega löggæslu og geta leitað til dómstólanna í Reykjavík o.s.frv.? Hvað þýðir þetta allt saman? Maður hlýtur að velta því fyrir sér. Skoðun mín er sú að hið eðlilega hefði verið að geta um leið breytt skilgreiningunni á Reykjavíkurkjördæmi og Reykjaneskjördæmi.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta, hæstv. forseti. Ég vil í lokin víkja að því hversu ánægjulegt það er að horfa upp á þá þróun sem við höfum verið að sjá á undanförnum vikum og mánuðum að sveitarfélög hafa sameinast. Ég var á sínum tíma ekki ánægð með hvernig gengið var fram í því máli þegar nánast átti að ýta eða þvinga sveitarfélögin inn í sameiningu. Mér fannst ekki nógu vel að þeim málum staðið, enda var sameiningin mjög víða felld, en þróunin hefur svo orðið sú að sveitarfélögunum fækkar mjög og þau stækka. Ég held að allir hljóti að sjá það og viðurkenna að það eflir sveitarfélögin og ef þau eiga að vera fær um að sinna lögbundnu hlutverki sínu og að tryggja íbúunum góða þjónustu verða þau að sameinast og standa saman að sínum verkefnum. Ef eitthvað getur dregið úr þeim mikla flutningi fólks sem átt hefur sér stað til höfuðborgarsvæðisins og á sér margvíslegar orsakir eins og kannanir að undanförnu hafa leitt í ljós, þá eru það auðvitað sterkari og öflugri einingar. En það verður að koma í ljós hver þróunin verður og það er ljóst að Reykjavík hefur takmarkað land. Kannski má nýta það land sem Reykjavík hefur betur. Mönnum vex í augum stærð og umfang þess sveitarfélags en þetta er nú einu sinni höfuðborgin og það skiptir máli að hún sé sem öflugust sem best stjórnað.

En enn og aftur, hæstv. forseti. Þetta mál mun verða að fá rækilega skoðun og hér er mál sem ýtir á það að niðurstaða fáist hjá þeirri nefnd sem nú er að skoða skipan kjördæmanna og kosningalögin.