Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:52:34 (1629)

1997-12-04 12:52:34# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:52]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. að honum þykir það ankannalegt að sveitarfélag sé í tveimur kjördæmum og færði nokkur rök fyrir því sjónarmiði sínu. Og eins hinu að líka væri ankannalegt að sameina sveitarfélög sem væru á ólíkum stöðum á landinu. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann telji þá að núgildandi lög heimili sameiningu sveitarfélaga á þennan veg. Hvort hann telji að heimilt sé að sameina t.d., eins og nefnt hefur verið, Árneshrepp á Ströndum og Reykjavík. Ég vil líka spyrja hann hvort hann telji að það sé æskilegt. Ef hann er þeirrar skoðunar sem hann hefur lýst, þá hlýtur hann að vera þeirrar skoðunar að sameining sveitarfélaga sem ekki liggja saman sé óeðlileg. Með öðrum orðum að óeðlilegt hafi verið að leggja til að sameina Reykjavík og Kjalarneshrepp svo dæmi sé nefnt.