Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:53:47 (1630)

1997-12-04 12:53:47# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:53]

Geir H. Haarde (andsvar):

Ég tel, herra forseti, að þegar hafi verið vakin athygli á því í umræðunni að lögin eins og þau eru núna banna í sjálfu sér enga tiltekna tegund af sameiningu jafnvel þó að landfræðilegar fjarlægðir milli slíkra sveitarfélaga gætu verið miklar. Það á þá jafnt við um Árneshrepp eða Ísafjarðarkaupstað, sem bæði hafa verið nefnd í umræðunni í dag. Bæði þessi sveitarfélög gætu fræðilega séð sameinast Reykjavík ef vilji kjósenda á báðum stöðum stæði til þess. Ég held hins vegar að ekkert vit sé í því, það væri ekki rökrétt að gera það. Það á hins vegar allt annað við um Reykjavík og Kjalarnes. Fyrir því máli voru margar og góðar röksemdir sem ástæðulaust er að rekja hérna. En umræðan í heild og þessi dæmi sem nú voru nefnd sýna kannski það að lögin eru ekki gallalaus. Við þurfum að taka á því máli í sameiningu um leið og við endurskoðum kjördæmaskipanina og þessi gömlu umdæmamörk sem nú eru orðin það gömul og úrelt að þau eru farin að verða okkur fjötur um fót og þvælast fyrir því að framfaramál, eins og við erum að tala um, geti náð fram að ganga erfiðleika- og trafalalaust.