Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 12:55:19 (1631)

1997-12-04 12:55:19# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[12:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er í meginatriðum sammála hv. þm. Ég tel vandamálið í rauninni liggja í sveitarstjórnarlögunum. Ég tel að það sé vandamálið. Það er orsökin fyrir því að þetta vandamál kemur upp. Ef menn hefðu girt fyrir það í sveitarstjórnarlögunum að þetta gæti komið upp, að menn færu að sameina sundurliggjandi sveitarfélög, þá værum við ekki að glíma við þetta vandamál hvað varðar kjördæmaskipanina. Ég held að við ættum --- af því að þingið mun fjalla um ný sveitarstjórnarlög á þessu þingi --- að taka það mál með í umræðunni og afgreiðslu á þessu máli þannig að við girðum þá fyrir að nýju sveitarstjórnarlögin hafi sama annmarka og þau sem nú gilda og framkalla þessa sérkennilegu stöðu sem menn eru í.

Ég tel hins vegar að óskynsamlegt hafi verið að bera fram tillöguna um sameiningu Kjalarness og Reykjavíkurborgar, eins og reyndar er nú komið á daginn, af því að það skapar vandamál sem menn hafa ekki séð út úr að leysa. Ef menn geta lagt til að sameina Reykjavík og Kjalarnes og telja það eðlilegt, þá er líka eðlilegt að sameina Reykjavík og Akranes eða Reykjavík og Keflavík. Þar er alveg nákvæmlega sama landfræðilega afstaða þannig að það að leyfa sér að fara út í að segja að eðlilegt sé að sameina Reykjavík og Kjalarnes leiðir líka til þess að menn lenda í ógöngum.