Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:33:58 (1632)

1997-12-04 13:33:58# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:33]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Póstur og sími hf., fyrirtæki allra landsmanna, hefur nokkuð verið til umræðu síðustu vikurnar og ekki að ástæðulausu. Gífurlegar gjaldskrárhækkanir fyrirtækisins gagnvart símnotendum fyrir nokkrum vikum vöktu mikla reiði meðal landsmanna og forsvarsmenn fyrirtækisins, samgrh. og ríkisstjórnin öll, sáu sitt óvænna og drógu í land. Ekki nóg þó en það er önnur saga.

Það mál sem ég geri að umtalsefni er þó vissulega náskylt hinum hneykslanlegu hækkunum á símgjöldum landsmanna um daginn. Á sama tíma og þetta fyrirtæki landsmanna allra herðir klærnar og hækkar álögur á landsmenn þá stendur það fyrir gífurlegum fjárfestingum vítt og breitt um landið. Þær fjárfestingar sem ég geri að umtalsefni hafa verið nefndar breiðbandsvæðing. Þar eru engir smáaurar á ferð. Talað er um 5 milljarða fjárfestingu á næstu 3--4 árum --- engir smáaurar, eins og tveir til þrír barnaspítalar svo einhver samanburður sé tekinn. Það mætti líka lækka eitthvað símagjaldskrána alræmdu verulega með aðeins litlum hluta þessara fjármuna. En eru þessi verkefni ekki brýn og knýjandi? Er ekki þörfin hrópandi? Verður hægt og er hægt að bíða með þessa netvæðingu, breiðbandsvæðingu, sem í hlutföstu formi má skilgreina sem heimtaugar á hvert einasta heimili í landinu með endabúnaði frá fyrirliggjandi grunnneti, ljósleiðaranum, sem þegar er kominn vítt og breitt um landið? Um þessa þörf er verulega efast hjá sérfræðingum. Nægir þar að nefna Sigfús Björnsson, prófessor í rafmagns- og tölvufræðum við Háskóla Íslands, sem hefur sett fjölmörg spurningarmerki við þessa fjárfestingarpólitík og hefur í blaðagreinum haldið því fram að möguleikar okkar með fyrirliggjandi tækni, svokallað samnet, séu langt í frá fullnýttir. Aðrir hafa enn fremur á það bent að þráðlaus boðskipti séu á fljúgandi ferð og séu framtíðin ekki síður en kaplar og þræðir í jörðu. Þess vegna má spyrja: Hvers vegna þessi gífurlega fjárfesting? Og svo hitt: Hverjir eiga að borga og hvernig? Það er auðvitað almenningur í landinu, það gefur auga leið. En kemur almenningur til með að þurfa að borga þessa fjárfestingu með hækkaðri gjaldskrá á símnotendur? Eða eiga væntanlegir áskrifendur þessarar margmiðlunar sjónvarps og útvarpsefnis og fleira að kosta hana að fullu og öllu, og með hvaða hætti þá?

Nú hefur ljósleiðarinn í kringum landið verið greiddur af almenningi en að þriðjungi þó af Atlantshafsbandalaginu og er í eigu ríkissjóðs. Aðgangurinn að þessum ljósleiðara hefur fram undir þetta verið seldur eftir kílómetragjaldi. Því lengri leið því hærra verð. Er það hugmynd hæstv. samgrh. að breiðbandið lúti sömu lögmálum þannig að dreifðari byggðir þurfi að borga meira en fólkið í þéttbýlinu þar sem mest allt þetta efni sem sent verður út verður til á höfðuborgarsvæðinu? Eða á að gilda sama verð alls staðar á landinu samanber landið eitt gjaldsvæði í símamálum? Og svo hitt sem er auðvitað grundvallarspurning í þessu: Er það eðlilegt að eigandi grunnnetsins, Póstur og sími hf., sem selur handhöfum sjónvarps og útvarpsefnis sé jafnframt í samkeppni við þessa sömu aðila með dreifingu eigin efnis og sölu á því í áskrift? Eru það eðlilegir samkeppnishættir?

Á mjög gagnlegum fundi sem samgn. þingsins átti með forsvarsmönnum breiðbandsins í gær var m.a. lýst framtíðarhugmyndum Pósts og síma hf. í þessum efnum. Þar segir m.a. í minnisblaði sem okkur var afhent og ég les, með leyfi forseta:

,,Rétthafar efnis og sjónvarpsstöðvar koma undir regnhlíf BB [þ.e. breiðbandsins] og gera dreifingarsamning. Hann innifelur dreifingu efnis, aðgang að myndlykli, áskriftar\-innheimtu og bilanaþjónustu. Einnig hlutdeild í markaðskynningu og sölu áskrifta.``

Hvað þýðir þetta í mæltu máli? Að Póstur og sími hf. ætlar að vera allt í senn, allt í kringum borðið, sjá um þetta allt? Er þetta hugmynd samgrh. að miðstýra svona gjörsamlega allri dreifingu margmiðlunar? Ég veit ekki af hverju það er nafnið --- ekki Halldór Blöndal --- heldur Marteinn Mosdal kemur upp í hugann í þessum efnum. Það er auðvitað í fullkominni andstæðu við yfirlýsta stefnu hæstv. samgrh., sem hefur talað um það hér aftur og aftur að hann vilji fara í hina áttina og selja þetta fyrirtæki allra landsmanna í bitum og bútum til lysthafa. Þannig að þetta rekst hvað á annars horn.

Því spyr ég, virðulegi forseti: Hefur samgrh. --- sem er ekki frægur fyrir staðfestu frá einum degi til annars --- (Forseti hringir.) hætt við fyrirætlanir sínar um sölu á þessu fyrirtæki? Eða ætlar hann hugsanlega að selja fyrirtækið og þar með (Forseti hringir.) grunnnetið, ljósleiðarakerfið og breiðbandið, til hugsanlegra hagsmunaaðila sem munu þar með hafa tangarhald á (Forseti hringir.) miðlun alls efnis til þorra landsmanna í næstu og lengri framtíð?

(Forseti (ÓE): Nú biður forseti hv. þm. um að gæta tímamarka, biður um það strax í upphafi. Það eru það margir á mælendaskrá og þessi umræða stendur ekki nema í 30 mínútur.)