Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:54:18 (1638)

1997-12-04 13:54:18# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), AK
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:54]

Arnþrúður Karlsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að opna umræðu um breiðbandið. Það sem einkum vekur athygli mína eru þær óljósu upplýsingar um hvernig rekstrarfyrirkomulagið er hugsað með tilkomu breiðbandsins. Er hér um að ræða tímabæra fjárfestingu og hvar á að taka þá fjármuni sem þetta mannvirki kemur til með að kosta? Mér finnst að það vanti alfarið í þessa umræðu. Sömuleiðis hvort hér sé verið að stofna fjölmiðlafyrirtæki í eigu ríkisins sem endurvarpar a.m.k. 24 sjónvarpsrásum í samkeppni við aðra á markaðnum. Hvað segir Samkeppnisstofnun um þessa framkvæmd eða hefur yfir höfuð ekkert verið leitað til hennar? Ég hef verulegar áhyggjur af því hvert framhaldið verður af þessari staðreynd um hlutfélag Pósts og síma. Enn er það svo að hlutafélagið er í eigu þjóðarinnar en ég óttast að í vændum séu tillögur um að einkaaðilar komi þar að og geti einhvern veginn keypt sig inn í þessa þjóðareign, og ég endurtek, inn í þessa þjóðareign.

Langstærsti hluti útgjalda Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 er leigugjald af ljósleiðara Pósts og síma og það gefur því auga leið að það er of fjárfrek framkvæmd til þess að allir sitji við sama borð. Verðlag á auðvitað ekki að vera háð fjarlægðum og það hefði jafnvel verið hægt að koma til móts við landsmenn með mun ódýrari hætti. Ef það verður staðreyndin að einkaaðilar komi þarna að þá hlýtur maður að spyrja sig hverjir koma til með að ráða mestu um afnotagjaldið sem fólk greiðir t.d. af Ríkisútvarpinu. Verða það e.t.v. hluthafarnir? Þá vaknar auðvitað sú spurning hvort það standist lög að ríkisvaldið framselji slíka lögbundna gjaldtöku til einkaaðila. (Forseti hringir.) Það er verið að gefa fleirum kost á því að senda út efni og það er auðvitað gott út af fyrir sig en ég hefði talið eðlilegra að hlutafélag Pósts og síma hefði fengið afnotarétt af þessari þjóðareign og þar með setið við sama borð og aðrir.