9.--11. mál

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:08:08 (1643)

1997-12-04 14:08:08# 122. lþ. 35.97 fundur 111#B 9.--11. mál# (afbrigði við dagskrá), SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:08]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég greiði atkvæði með þessum afbrigðum en vil hins vegar segja að það er alveg ótrúlegt sleifarlag í framlagningu mála af hálfu hæstv. ríkisstjórnar þessa dagana. Það hefur ekkert verið að gera hér í allt haust í vinnu við stjórnarfrv. af neinu tagi vegna þess að ríkisstjórnin hefur í raun og veru engu komið frá sér. En núna, þegar örfáir dagar eru til jóla, þá eru menn að ryðja hér inn frumvörpum sem bersýnilega verða að verða að lögum fyrir áramót. Hvers slags eiginlega vinnubrögð eru þetta? T.d. í umhvrn. og í landbrn. er um að ræða í öllum tilvikum mál sem hefur legið fyrir í allt heila haust að yrði að taka hérna fyrir. Hvers slags vinnubrögð eru þetta í fjmrn.? Ég sé ekki betur en að núna áðan hafi hæstv. fjmrh. verið að láta dreifa hér skattafrv. með leiðréttingaratriðum þar sem komið er inn á mál sem hefur legið fyrir í allt heila haust að þyrfti að taka hérna fyrir. Þetta eru endemis vinnubrögð, herra forseti. Það er auðvitað fyrst og fremst vegna liðlegheita stjórnarandstöðunnar að þessir hlutir fá þó þrátt fyrir allt að halda áfram með þessum hætti. En ég mótmæli þessu og ég hvet til þess að hæstv. ráðherrar taki á þessum málum og að hæstv. forseti Alþingis setji þessum ráðherrum reglur þannig að menn komi eðlilega fram við Alþingi eins og Alþingi á skilið.