Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:14:27 (1646)

1997-12-04 14:14:27# 122. lþ. 35.4 fundur 289. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sönnu mjög miður að enn einu sinni skuli þurfa að framlengja þennan frest. En sjálfsagt er það rétt sem hér kom fram í máli hæstv. ráðherra og liggur í fylgiskjölum með þessu frv. að það sé ekki um annað að ræða en að horfast í augu við þær staðreyndir að allt of mikill fjöldi sjómanna á enn eftir að sækja námskeiðin til að unnt sé eða raunhæft að hverfa frá því að veita þessa undanþágu eða lengja þennan aðlögunartíma, eða nánar tiltekið rúmlega 800 sjómenn þegar þeir hafa lokið námskeiðunum sem þau sækja nú eða eiga eftir að gera fram að áramótum.

[14:15]

Það sem ég vil hins vegar gera að umtalsefni í þessu sambandi, herra forseti, er hin hliðin að málinu, sem snýr að aðbúnaðinum að Slysavarnaskólanum. Ég veit ekki betur en að þar kreppi mjög að með nauðsynlegan tækjakost og á ég þá fyrst og fremst við skipið sem þar er notað sem kennsluaðstaða og tæki. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra að því í tengslum við þessa breytingu og lengdan aðlögunartíma hvort allir íslenskir sjómenn hafi lokið þessum tilskildu námskeiðum eða fengið þessa bráðnauðsynlegu fræðslu sem æ ofan æ sannar sig að vera bráðnauðsynleg og bjarga mannslífum, hvort tekið hafi verið á stöðu Slysavarnaskólans og hvort það verði tryggt með fullnægjandi hætti, hvað varðar fjárveitingar og aðstöðu, að skólinn geti með sóma rækt sitt hlutverk, bæði tekið við öllum þeim fjölda sem eftir á að ljúka grunnnámskeiðum til þess að allir starfandi sjómenn hafi gert það og líka hvað framtíðina snertir því það er væntanlega ekki ætlunin að láta þar við sitja heldur efla skólann og láta hann vera sífellt að, veita þá endurþjálfun og endurmenntun og taka nýja sjómenn hvers tíma til skólunar. Inn í þetta hafa m.a. komið hugmyndir um að skólinn fái nýtt skip sem losnar á næsta ári, þ.e. bílferjuna Akraborg, og mér finnst rétt að nota þetta tækifæri, herra forseti, eðlilega, að inna hæstv. ráðherra eftir þessu.