Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:18:26 (1649)

1997-12-04 14:18:26# 122. lþ. 35.4 fundur 289. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:18]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu, um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, hefur því miður of oft verið flutt hér á hinu háa Alþingi og vonandi er þetta í síðasta sinn enda má segja að það sé nánast ætlan löggjafans að svo verði. Hitt er annað mál sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á og það er að í 1. gr. segir svo, í a-lið, með leyfi forseta:

,,7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Yfirlýsingu um að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt. Skipstjórnarmenn og aðrir skipverjar sem hafa skráð sig á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna fyrir 1. janúar 1998 fá frest til 31. desember 1998 til að fullnægja ákvæði þessu.``

Ég velti svolítið fyrir mér hvernig framkvæmdin gæti best orðið á þessu vegna þess að menn þurfa að skrá sig núna og það er einn mánuður til stefnu fyrir þá sem ekki hafa farið í Slysavarnaskólann. Við sjáum það því miður hve illa hefur gengið að fá marga sjómenn til þess að fara í Slysavarnaskólann, svo nauðsynlegur sem hann er. Ágæti þeirrar kennslu sem sjómenn hljóta þar hefur margsýnt sig og sannað. Því vildi ég leggja áherslu á að ráðuneytið mundi beita sér fyrir því ásamt sjómannasamtökunum að minna nú rækilega á að þetta frv. verði ekki flutt aftur þannig að um áramótin 1998/1999 verði allir sjómenn búnir að fara í Slysavarnaskólann.

Ég verð að segja að það er til vansa fyrir sjómannastéttina að hafa ekki staðið betur að verki en raun ber vitni. Því miður eru allt of margir sem ekki hafa farið í Slysavarnaskólann. Ég veit að Slysavarnaskólanum hefur vaxið ásmegin og hann fengið meiri vigt í umræðunni meðal sjómanna um öryggismál. Og ég heiti á sjómenn að taka nú duglega á þessu máli og leysa okkur sem hér sitjum á Alþingi undan þeim vanda að vera sífellt með einhverjar björgunaraðgerðir hér í landi en það eru einmitt þeir sem eiga að hugsa mjög um þær sem snúa að sjó.

Í annan stað vildi ég aðeins koma inn á það sem hér var rætt varðandi Slysavarnaskólann sjálfan og þann aðbúnað sem þar er. Oft hefur verið rætt um það og óneitanlega hefur það oft komið upp í huga mér hvort nauðsynlegt sé að hafa þennan skóla fljótandi, hvort ekki sé möguleiki á því að hafa hann á landi nálægt sjó. En í viðræðum við skólastjóra Slysavarnaskólans í öryggisnefnd þingmanna sem hefur verið kosin til þess að skoða hina miklu slysatíðni sjómanna --- við ræddum einmitt við skólastjóra Slysavarnaskólans í gær um þetta mál --- að þá virðist svo vera að vegna mikils búnaðar meðfylgjandi kennslunni sé eðlilegt að skólinn sé fljótandi eins og nú hefur verið um mörg undanfarin ár. Hitt er svo annað vandamál sem skólastjóri Slysavarnaskólans kom inn á, en það er að skipið Sæbjörg, sem nú er notað til kennslu, er orðið mjög úr sér gengið og vægast sagt í því ástandi að varla er við unandi fyrir þá sem þangað sækja fræðslu. Því vildi ég taka undir spurningu hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, þ.e. fyrirspurn og athugasemdir hans hér og fagna að vísu því svari sem fram kom hjá hæstv. ráðherra. Það er vissulega full þörf á og nauðsynlegt að nú á allra næstu vikum verði tekin ákvörðun um framtíðarskipan þessa skóla svo mjög vel sem hann hefur reynst sjómannastéttinni.