Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:23:21 (1650)

1997-12-04 14:23:21# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. félmrh. sé á næstu grösum og svo er. Um þetta mál, herra forseti, vil ég segja, þó það sé kannski ekki svo stórt í sjálfu sér þó tvö nágrannasveitarfélög sameinist eins og hér á í hlut, þ.e. Kjalarneshreppur í Kjósarsýslu og Reykjavíkurborg, að þá vekur það upp ýmsar spurningar, býsna mikilsverðar, og eins og þegar hefur komið fram í umræðunni getur mönnum sýnst sitt hverjum um málið.

Ég er þeirrar skoðunar, og hef alla tíð verið að vilji íbúanna hvað snertir ákvarðanir um sín nærmálefni, þar með talið hvernig þeir skipa sér í sveitarfélög, sé sá hornsteinn sem eigi að byggja allt á. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt t.d. að ákvarðanir um sameiningu sveitarfélaga gerist á sjálfstæðum forsendum íbúa sveitarfélaganna sjálfra. Þannig var ég að sama skapi og hef alltaf verið algerlega andvígur hugmyndum um lögþvingun á þessu sviði og ég held að reynslan sýni einnig að það að ætla að miðstýra þessu eða stjórna ofan frá með fyrirskipunum í of ríkum mæli hafi gefist illa.

Margir, og ég þar á meðal, vöruðu við því þegar þáv. hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, gekk fram með miklu kappi á síðasta kjörtímabili og hugðist sameina meira og minna öll sveitarfélög í landinu, spáðu ekki vel fyrir þeirri tilraun. Reynslan varð líka sú að sú aðferð gekk ekki upp ósköp einfaldlega vegna þess að fólkið kolfelldi þær sameiningar nánast út um allt land. Niðurstaðan var sem sagt sú að menn vildu gera þetta sjálfir og ráða því og hafa það á sínum eigin forsendum þar á meðal og auðvitað ekki síst hvernig tillögurnar sem bornar væru upp til atkvæða á hverju svæði, væru úr garði gerðar. Nú hins vegar, þegar ekki hefur verið í gangi atrenna ofan frá eða miðstýrð, eru miklir hlutir að gerast í þessum efnum og jafnvel sameiningar að eiga sér stað, mjög hliðstæðar þeim sem voru kolfelldar á fyrra kjörtímabili. Þetta færir mér heim sanninn um að rétta leiðin sé að láta hlutina þróast eðlilega og gerast á sjálfstæðum forsendum og samkvæmt vilja íbúanna sjálfra.

Hitt er svo annað mál, herra forseti, hvort löggjafinn hyggist hafa umgjörðina þannig að hvað sem er geti gerst í þessum efnum. Þetta mál vekur fyrst og fremst upp spurningar um það í mínum huga hvort það sé skynsamlegt að láta skipan landsins í sveitarstjórnir gerast algjörlega tilviljanakennt, hafa það algjörlega opið að þær tillögur sem bornar eru upp til atkvæða geti verið nánast hvernig sem vera skal. Ég velti því æ meir fyrir mér hvort ekki sé misráðið að ekki þurfi eftir sem áður --- þrátt fyrir það sem ég hef sagt um vilja íbúanna og sjálfstæða þróun í þessum efnum --- að liggja fyrir tiltekinn rammi og tiltekin skilyrði sem uppfyllt séu þegar kosið er um slíka hluti. Og hvernig gæti það verið, herra forseti? Jú, það gæti sem best verið þannig að þrátt fyrir að menn hefðu mikið svigrúm og mikið ráðrúm til þess að velja sér sjálfir tillögur, gagnvart hverjum vilji íbúanna væri kannaður, þá lægi samt sem áður fyrir tiltekinn rammi. Tillögurnar yrðu að falla að ákveðnum skilyrðum sem sett væru svo sem eins og þeim að sveitarfélögin væru aðliggjandi eða að sveitarfélög þau þar sem kosið væri um sameiningu, mynduðu einhverja eðlilega landfræðilega eða samskiptalega heild.

Ég spyr mig að því --- þó það hafi meira verið sett hér fram, ég vil nú ekki segja, til gamans heldur sem dæmi --- hvað gæti gerst, ef sveitarfélög á fjarlægum landshornum tækju upp á því að vilja sameinast og bera það undir íbúa sína. Hvað t.d. með hrepp í Norður-Múlasýslu, ef mönnum í Skeggjastaðahreppi dytti nú allt í einu í hug að sameinast Kópavogi, ef fyrrverandi söfnuður eins af núverandi sóknarprestum í Kópavogi vildi bara fylgja prestinum og legði til að hann yrði sameinaður Kópavogi? Hvað með það? Finnst mönnum það þá vera hlutur sem er skynsamlegur og á að ganga svo langt að leyfa skipan landsins í sveitarstjórnarstig að ráðast jafnvel af algerlega tilviljanakenndum forsendum af þessu tagi? Það er ekki hægt að útiloka það vegna, t.d. vandamála í samskiptum nágrannasveitarfélaga, að eitt sveitarfélag vilji frekar, við getum kallað það af innanhéraðsástæðum, sameinast stórum en fjarlægum kaupstað heldur en sínum næstu nágrönnum. Þetta getur vel komið upp og þá er spurningin: Eru menn tilbúnir til þess að taka áhættuna af því eða vilja menn að þetta sé þannig að lögum, að næstum að segja hvað sem er geti gerst í þessum efnum jafnvel þó það sé fyrst og fremst fræðilegur möguleiki? Spurningin er ekki, að mínu mati, að meta líkurnar á því að eitthvað slíkt gerist heldur þessi: Vill Alþingi eða löggjafinn láta það vera fræðilegan möguleika að slíkir hlutir gerist? Dæmið sem hér um ræðir, Kjalarneshreppur og Reykjavíkurborg, er að því leyti alveg gilt í þessum efnum að þarna ákveða tvö sveitarfélög, yfir kjördæmamörk, að sameinast. Það skapar síðan ýmis lögformleg álitamál eða stjórnsýsluleg álitamál sem hér hefur verið velt upp í umræðunni. Mér sýnist frágangur málsins af hálfu hæstv. félmrh. alls ekki vera vel hugsaður eða fullhugsaður hvað varðar t.d. síðari grein frv., um alþingiskosningarnar, og það álitamál hvort íbúar hins nýja sveitarfélags eiga að tilheyra sama kjördæminu eða tveimur.

[14:30]

Það er ekki heldur, að mér sýnist, gengið frá því hvað verður þá um lögsögumörk eða lögsagnarumdæmisálitamál. T.d. er ekki tekið á spurningunni um það hvort hugtakið sýsla hefur hér orðið eitthvert sjálfstætt gildi eða ekki. Sýslurnar eru að miklu leyti aflagðar sem slíkar. Sýslunefndir eru ekki starfandi með því hlutverki sem áður var heldur einhvers konar héraðsnefndir og samstarf sveitarfélaga er á öðrum grunn.

Út af fyrir sig, herra forseti, er kannski ekki mikið annað að gera úr því sem komið er í þessu einstaka tilviki en að afgreiða frv. af þessu tagi, alla vega 1. gr. því að a.m.k. er ég ekki talsmaður þess að Alþingi fari að leggja stein í götu vilja þessara íbúa í Reykjavík og á Kjalarnesi til að sameinast. Þetta eru að vísu ekki landfræðilega aðliggjandi sveitarfélög, a.m.k. ekki enn sem komið er, nema þá yfir sjó. Það þarf að stökkva yfir sveitarfélag í Mosfellssveit til að tengja þau saman nema farin sé blauta leiðin fram hjá meginlandinu sem er svo sem hægt. En fyrir því eru fordæmi. Til að mynda er Tálknafjörður eins og eyja í hinu nýja sveitarfélagi, Vesturbyggð, ef ég veit rétt nema það kann að vera svo að á háfjöllum tengist svæðið við Arnarfjörð Patreksfirði þannig að ég sé það ekki endilega sem fordæmi til þess að staldra þarna við þó að þessi sveitarfélög liggi ekki beint landtengd, jafnvel ekki heldur þó að þau séu í sitt hvoru kjördæminu, þó að það veki auðvitað viðbótarálitamál vegna þess að það kann vel að vera að landfræðilega væri heppilegra að sameina í vissum tilvikum sveitarfélög sem liggja á kjördæmamörkum. Ég gæti þar tekið sem dæmi sveitarfélög í Strandasýslu og í Vestur-Húnavatnssýslu. Það er að mörgu leyti landfræðilega miklu eðlilegra að sveitarfélög við Hrútafjörð sameinist en kannski sveitarfélög í Strandasýslu eða við Hrútafjörð sameinist öðrum norðar eða sunnar á Vestfjörðum. Sama mætti segja um norðausturhorn landsins. Kjördæmamörkin eiga í mínum huga ekki endilega að vera heilög í þeim skilningi að ekki geti verið efnislega skynsamlegt að sameina sveitarfélög yfir þau. En spurningin er: Er nokkur glóra í því að ganga ekki frá því lagalega hvernig slíkt þá gerist, til að mynda hvað verður um kjörgengi íbúanna, hvaða kjördæmi skulu þeir tilheyra o.s.frv.?

Menn gefa sér hér að þetta sé sameining við höfuðborgina einfaldlega í þeim skilningi að enginn vafi leiki á því að spurningin sé um hvort íbúarnir verði í tveimur kjördæmum eða þá allir í Reykjavík, ekki öfugt. Mönnum hefur ekki dottið í hug að íbúarnir færist allir yfir í Reykjaneskjördæmi við þessa breytingu heyrist mér miðað við umræðuna. Sömuleiðis virðist mér menn gefa sér að nafnið verði Reykjavík en ekki t.d. Kjalarnes eða Faxaflóabyggð eða eitthvað annað álíka fallegt. Menn eru alltaf að hnoða þessum viðhengjum aftan við ágæt nöfn, -byggð, -bær, -kaupstaður og hvað það nú er.

Hitt er svo annað mál að það er höfuðborgin sjálf sem í hlut á og hún er að mörgu leyti mjög sérstætt sveitarfélag þó það hafi að vísu aldrei almennilega fengist viðurkennt í íslenskum lögum og íslensku skipulagi. Af einhverjum furðulegum ástæðum hafa menn ekki eins og víðast hvar annars staðar fengist til þess að láta höfuðborgina njóta eða hafa þá sérstöðu sem að mörgu leyti er eðlilegt að höfuðborgir hafi svo að ég tali nú ekki um þegar í hlut á ekki aðeins höfuðborg heldur langstærsta sveitarfélag í landinu og lang öflugasta sveitarfélag í landinu.

Þetta sveitarfélag hefur líka þá sérstöðu að vera jafnframt kjördæmi og það tengist þessu máli sem við hér ræðum, að annað sveitarfélagið er hluti af kjördæmi þar sem mörg sveitarfélög eiga í hlut en hitt er kjördæmi fyrir í sjálfu sér.

Mín meginniðurstaða, herra forseti, er sú að þetta mál þarfnist miklu meiri skoðunar og þá ekki endilega í tengslum við það hvort nauðsynlegt er að afgreiða að einhverju eða öllu leyti þetta frv. heldur málið sem slíkt upp á framtíðina litið. Ég held að mjög óskynsamlegt sé að staldra ekki við og velta rækilega fyrir sér hvort nauðsynlegt er að gera breytingar á sveitarstjórnarlögum og jafnvel kosningalögum og hugsanlega þar af leiðandi síðar stjórnarskrá sem gangi frá vafatilvikum eða álitamálum af þessu tagi sem kunna að koma upp. Menn eru greinilega ekki undir það búnir að hlutir af þessu tagi geti gerst, hafa eðlilega kannski ekki séð þá fyrir því að framan af þessari öld og langt fram undir síðustu áratugi var þróunin nánast öll í þá átt að sveitarfélögum var að fjölga í landinu, verið var að skipta upp sveitarfélögum, búa til sjálfstæð sveitarfélög úr vaxandi þéttbýliskjörnum, en nú er þróunin öll á hinn veginn.

Ég tel að að setja þurfi í gang vandaða vinnu til að fara yfir þau álitamál sem hér er velt upp í tengslum við þetta mál og vonum seinna. Og ég vil leyfa mér að stinga upp á því við hæstv. félmrh. að hæstv. ráðherra skipi þverpólitíska nefnd með fulltrúum allra flokka ekki ósvipað því og gjarnan hefur verið gert þegar unnið hefur verið að kjördæmabreytingum og kosningalagabreytingum og er auðvitað alveg einboðið að vinna að með þverpólitíska samstöðu að leiðarljósi. Í þessa nefnd gætu auk fulltrúa þingflokka komið aðilar frá sveitarfélögunum og fleiri og þar verði ekki síst farið yfir það hvort ekki sé nauðsynlegt að reyna að lögfesta einhver skilyrði eða ramma inn í hvern tillögur eða kosningar um sameiningu sveitarfélaga verði þrátt fyrir allt að falla þannig að í framtíðinni verði skipan sveitarstjórnarstigins a.m.k. ekki hvað fræðilegu hliðina snertir algjörlega tilviljanakennd eða gæti orðið það heldur byggi hún á einhverjum skilgreindum viðmiðunum sem allar tillögur verði að uppfylla sem gengið er til kosninga um.