Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:54:00 (1657)

1997-12-04 14:54:00# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:54]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hér er sannarlega á ferðinni vandræðamál og geri ég þar glöggan greinarmun á 1. og 2. gr. þessa frv. sem hæstv. félmrh. hefur hér mælt fyrir. Raunar er það ekki nema síðari hluti 2. gr. sem horfir til vandræða því að ég hygg að engin álitamál séu uppi um 1. gr. frv. og raunar ekki heldur um fyrri hluta 2. gr., þ.e. þann hluta sem lýtur að gildistöku þessa lagafrv. Hins vegar er skylt skeggið hökunni og ljóst að 1. gr. frv., þ.e. sameining í þessu tilfelli Kjalarneshrepps í Kjósarsýslu og Reykjavíkurborgar og sameining sveitarfélaga almennt mun sýnilega hafa veruleg áhrif á kjördæmaskipan í þingkosningum. Þess er að vænta og ég satt að segja vona það að vandamál af þessum toga yrðu kannski fleiri því að ég er mjög mikill stuðningsmaður þess að sveitarfélög í landinu sameinist og væri ástæða til þess einmitt á þessum tímapunkti í ljósi tíðinda síðustu vikna að hafa nokkur orð um það og rifja upp þegar þáv. hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir fór fyrir í þeirri stefnumörkun að freista þess að sameina sveitarfélög vítt og breitt um landið. Hún fékk viðtökur af ýmsum toga, m.a. hv. þm. í þessu húsi þar sem menn sáu ekki framtíðina liggja í þeirri stefnumörkun og því átaki öllu saman. Margir voru þeir raunar sem brostu í kampinn og bentu á, þegar fyrstu atkvæðagreiðslulotunni var lokið og hægt miðaði að, þetta hefðu þeir nú allt séð fyrir og lítil ástæða væri til að ætla að sameiningarhug væri að finna um landið vítt og breitt. En reynslan hefur sýnt okkur allt annað. Tíminn hefur unnið með þessu góða máli eins og öllum öðrum góðum málum og það er sérstaklega ástæða til að nota tækifærið og þakka hæstv. þáv. félmrh. fyrir atorku í þessum efnum. Nú erum við að uppskera, þó að síðar sé, eins og til var sáð á árum áður og ekki er allt búið enn.

Ég sagði að þetta væri vandræðamál og að mörgu leyti upplýsandi og skemmtileg umræða sem hér hefur farið fram um hinar ýmsu hliðar sem upp geta komið þegar sveitarfélög sameinast þvert á kjördæmamörk eins og þau eru skilgreind í stjórnarskrá eða eins og við höfum átt þeim að venjast.

Menn hafa hér lýst tveimur viðhorfum til þessa og ég ætla ekki að endurtaka þá röksemdafærslu sem menn hafa hér sitt á hvað viðrað, en vil þó segja það strax að mér sýnist einsýnt, virðulegi forseti, að þessi síðari þáttur frv., sem lýtur að skipan kjördæma við alþingiskosningar, fari til sérnefndar í þinginu því að þó að þessi mál séu skyld eins og ég rakti hér áðan þá eru viðfangsefnin gjörsamlega ólík. Það viðfangsefni sem við erum að ræða hér einkanlega og umræðan hefur snúist um, þ.e. áhrif sameiningar sveitarfélaga á stjórnarskrá og skipan kjördæmamarka við alþingiskosningar, er dæmigert mál sem sérnefnd á að taka fyrir og er raunar getið um það í þingsköpum að álitamálum sem lúta að stjórnarskrá beri að vísa til sérnefndar. Með þessu er ég ekki að bera brigður á hæfi félmn. til þess að sýsla með þessi mál. En mér þykir hins vegar eðlilegt að rétt sé rétt og sérnefnd taki þennan þátt málsins til sérstakrar athugunar og úrlausnar ef hana er þá að finna.

Mér kæmi satt að segja ekki á óvart, virðulegi forseti, í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað að úr þessu máli verði tæpast leyst á þeim vettvangi sem hér er, þ.e. með almennri lagasetningu á hvorn veginn sem er því að ég get nokkurn veginn gefið mér það að þegar líður að þingkosningum sem væntanlega verða eigi síðar en í maí 1999, þá muni einhverjir þeirra kjósenda sem þarna eiga hlut að máli, kjósenda í Kjalarneshreppi, koma til með að láta á það reyna með kjörskrárkæru sem gangi alla leið til Hæstaréttar hvoru megin hryggjar þeir eigi að liggja og þá gildir einu hvort menn fara þá leið sem hér er gerð tillaga um eða hina leiðina og túlki mál sem svo að um leið og Kjalarneshreppur er orðinn hluti af Reykjavík, þá megi líta svo á að hann verði hluti af Reykjavík eins og hún er skilgreind í 31. gr. stjórnarskrárinnar. Kannski er það bara einfaldlega svo að úr þessu vandamáli verður ekki leyst öðruvísi en með atbeina dómstóla. Það er út af fyrir sig lausn en á hinn bóginn, og það sem er veigaþyngst í þessu, er að á þessu viðfangsefni þurfum við að taka og þá er ég einfaldlega segja að við þurfum að skoða stjórnarskrána sérstaklega í þessu ljósi og kjördæmaskipanina sjálfa.

[15:00]

En aftur vil ég benda á að það leysir ekki þann vanda sem við blasir 1999 því að stjórnarskrárbreytingar munu eins og hæstv. forseti veit ekki taka gildi fyrr en að afloknum einum kosningum, þ.e. munu þá ekki gilda fyrr en við aðrar kosningar héðan í frá. Þetta verður því sannarlega vandamál sem menn þurfa að horfast í augu við þegar líða tekur nær kosningum og þá segi ég enn og aftur: Það er eiginlega nokkurn veginn sama hvernig almenn löggjöf verður afstillt í þeim efnum. Ég held að það sé mergurinn málsins og sá veruleiki sem við okkur blasir hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Ég held hins vegar, í ljósi umræðna um stjórnarskrána og kjördæmamörk í þeim efnum, að þetta sýni okkur fram á nauðsyn þess að við reynum að leita nýrra leiða til að stilla af kjördæmamörk og þá kemur mjög vel til álita að taka ákveðna þætti þeirra atriða út úr stjórnarskránni með stjórnarskrárbreytingu og færa þá undir almenna lagasetningu, þ.e. við gefum okkur að ákveðinn breytileiki geti orðið á slíkum kjördæmamörkum með sameiningu sveitarfélaga eða af öðrum ástæðum og þá kæmi hugsanlega til álita að slík lagasetning með breytt kjördæmamörk næði ekki fram að ganga nema með auknum atkvæðafjölda, 2/3 hluta atkvæða í þinginu eða 3/4 hluta atkvæða eftir efnum og ástæðum. En allt að einu sýnist mér ljóst að út úr þessari sjálfheldu verða menn að komast því sem betur fer, eins og ég sagði hér í upphafi, sjáum við ekki fyrir endann á þessari sameiningarhrinu. Hún mun halda áfram væntanlega til aldamóta og fram yfir þau þannig að mér finnst það álitamál sem menn eigi strax að fara að velta fyrir sér og venja sig við að hugsa um hvernig við getum lagfært stjórnarskrána í þessu samhengi.

Það er fyrirliggjandi og opinbert að stjórnmálaflokkarnir hafa sest að því verki. Ég vil ætla að alvara sé á ferðum og menn ætli sér að ljúka ákveðnum þáttum þess, endurbótum á annars ágætri stjórnarskrá og sérstaklega hvað varðar atkvæðavægi og atkvæðarétt og fleiri þætti sem að því lúta, þar á meðal þessum kjördæmamörkum sem eru hér til sérstakrar umræðu.

Hér hefur margsinnis verið vísað til samantektar og álitsgerðar ríkislögmanns --- þáverandi ríkislögmanns nota bene því álitsgerð þessi er frá 1989 og það var Gunnlaugur Claessen þáverandi ríkislögmaður sem henni skilaði frá sér. Hún er auðvitað enginn stóridómur í þessum efnum og getur aldrei orðið það. Ég rifja það upp að í athugasemdum með lögum um sveitarfélög í landinu er að finna athugasemdir sem ganga í þveröfuga átt og ef ég man rétt þá var það Björn Friðfinnsson þáv. formaður Sambands ísl. sveitarfélaga sem gekk frá þeirri handbók og þeim athugasemdum sem þar var að finna. Margir fleiri komu að þeirri álitsgerð, menn sem þekkja sitthvað til laga og útlistana á þeim, þar á meðal núverandi ríkislögmaður, Jón G. Tómasson, sem var forustumaður í Sambandi ísl. sveitarfélaga á þeim árum sem þessi handbók og þessar athugasemdir voru gefnar út á þrykk. Það var heil laganefnd, ef ég man rétt, sem vann þau lög. Meðal þeirra sem í henni sátu var einn hv. þm., af því að ég man það, Sturla Böðvarsson. Það hefði til að mynda verið mjög fróðlegt ef hann hefði lagt hér orð í belg vegna þess að þessi umræða var hafin strax þá við frv. að smíðum um gerð nýrra sveitarstjórnarlaga árið 1986 og þeirra athugasemda og þeirra skýringa sem við þau lög voru heft árið 1989. Það er ekki í fyrsta skipti nú sem menn kunna að átta sig á því að hér kunna að vera skiptar skoðanir um það hvernig túlka skal. Og til þess að detta inn í þennan hóp þá er það mín skoðun --- en hún byggir auðvitað aðeins á minni tilfinningu og því að ég hef vegið og metið þau rök sem er að finna --- að það megi líta þannig til að hluti af Kjósarsýslu hafi sameinast Reykjavík og sé þar með hluti af Reykjavík. Það sem eftir situr er eðlilega hluti af Reykjaneskjördæmi eins og stjórnarskráin kveður á um.

Menn þurfa að velta fyrir sér ýmsum munstrum í þessu sambandi. Ég held að enginn hafi til að mynda nefnt þann möguleika að þeir Kjósverjar sameinuðust upp í Hvalfjörð og það yrði lítið sem ekkert eftir af hinni gömlu Kjósarsýslu. En fræðilega væri hægt að halda því fram að þeir þarna efra væru komnir í þrjú kjördæmi, þ.e. Vesturl., Reykn. og Reykv. Það er kannski ekkert fjarlægari möguleiki en margur annar því að þeir Kjósverjar hafa eins og þekkt er sýnt því mikinn áhuga sem gerist norðanvert við Hvalfjörðinn og kannski að áhugi þeirra fari og akkur fari í auknum mæli þar upp eftir þannig að ýmsar undarlegar myndir geta birst í þessum efnum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti, en mér þykir einsýnt og ég vil láta það koma fram hér sem mína tillögu, að þessi viðkvæmi þáttur frv. fari til sérstakrar og sjálfstæðrar skoðunar hjá sérnefnd í þinginu sem um það mál fjalli og félmn. sem er auðvitað störfum hlaðinn í mikilvægum verkum sínum taki til umfjöllunar þann þátt mála sem að henni lýtur beint og lítill eða enginn ágreiningur er hér um og vænti þess að við getum a.m.k. þokast fram á veg með þeim vinnubrögðum þó að tilfinning segi mér að kannski leiði menn þetta alls ekki til lykta á yfirstandandi kjörtímabili heldur verðum við að sigla í gegnum komandi kosningar með úrskurð hæstaréttar sem leiðsögn. En í þeim kosningum sem þá fara í hönd einhvern tíma á næstu öld, hugsanlega örfáum mánuðum eftir næstu kosningar ef mönnum tekst að ganga frá stjórnarskrárbreytingu sem bragð er af hvað varðar kjördæmamörk og kosningavægi, vægi atkvæða, þá grípa menn vonandi til þess ráðs sem þekkt er, að aðrar kosningar fari fram þá fljótlega að afloknum þeim sem áformaðar eru árið 1999 þó að margir hér inni voni satt að segja að til þeirra komi miklum mun fyrr eins og hæstv. forseti veit.