Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 15:08:32 (1658)

1997-12-04 15:08:32# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[15:08]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki hafa mörg orð um þetta. Það er aðeins vegna þeirrar vissu hæstv. dómsmrh. áðan að ekki sé hægt að túlka stjórnarskrána öðruvísi en að það sé réttur skilningur sem er í frv. ráðherrans. Ég get ómögulega skilið það þannig og vil taka undir með síðasta ræðumanni og þeim sem hingað til hafa bent á að þetta sé ekki skýrt, því að í stjórnarskránni stendur að til Reykjavíkurkjördæmis teljist Reykjavík. Og ef þessi sameining er samþykkt, þá er Kjalarneshreppur í Reykjavík. Og síðan stendur: ,,Reykjaneskjördæmi. Til þess teljast:`` Síðan er upptalning og m.a. er þar Kjósarsýsla. Það má auðvitað halda því fram að Kjalarneshreppur sé nú í Kjósarsýslu. En Kjalarneshreppur verður það væntanlega ekki ef hann sameinast Reykjavík eða hvað? Og ef hann gerir það, þá er hann í hinu kjördæminu. Þetta er því alls ekki skýrt miðað við núverandi stjórnarskrá eins og hér hefur margoft komið fram. Hæstv. dómsmrh. benti á að miða eigi við ástandið eins og það var 1959. Hvar stendur að það verði að miða við eitthvað eins og það var þegar þetta er samið? Og ef svo er, hefur þá ekki eitthvað gerst síðan 1959 í þessum efnum sem ekki stenst stjórnarskrána? Ég man ekki eftir slíkum dæmum sjálf í augnablikinu en ég vil bara spyrja hæstv. dómsmrh. að þessu. Ég skil ekki að það sé hægt að líta á þetta sem einfaldan hlut. Þetta er flókið. Ég vil óska eftir því að hæstv. félmrh. beiti sér fyrir því að unnar verði nokkrar lærðar greinargerðir um þetta mál sem geta þá komið inn í hv. nefnd.