Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 15:35:22 (1665)

1997-12-04 15:35:22# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[15:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um húsaleigubætur. Þegar upphaflegu lögin um húsaleigubætur voru sett þá var ákvæði þar til bráðabirgða um að þau skyldu endurskoðuð fyrir árslok 1997. Það hefur verið gert.

Ég fékk það verkefni nefnd sem hóf störf 17. maí í fyrra. Í þeim starfshópi áttu sæti fyrir hönd Sambands ísl. sveitarfélaga Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri Reykjavíkur, og Karl Björnsson, bæjarstjóri á Selfossi. Fyrir hönd fjmrn. Arnar Jónsson stjórnsýslufræðingur. Fyrir hönd félmrn. Áslaug Friðriksdóttir deildarsérfræðingur, Elín Blöndal deildarstjóri og Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri, sem jafnframt var skipaður formaður starfshópsins.

Í ágúst 1996 samþykkti ríkisstjórnin að leita eftir því að sveitarfélögin sæju alfarið um greiðslur húsaleigubóta. Þetta var samvinnuverkefni þó það væri ekki sérstaklega sjálfsagt samvinnuverkefni. Það er eðlilegra að sveitarfélögin sjái um ákveðna þætti ein og ríkið þá um aðra. Eftir viðræður okkar, fjmrh. annars vegar og formanns og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga hins vegar, var gert samkomulag um að stefna að því að sveitarfélögin tækju alfarið við afgreiðslu húsaleigubóta um næstu áramót. Starfshópurinn tók mið af þessu í störfum sínum. Eftir viðræður formanns og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga við okkur hæstv. fjmrh., gerði stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga samþykkt sem staðfesti þetta samkomulag.

Ég tel að þrátt fyrir að húsaleigubætur hafi verið umdeildar þegar þær voru teknar upp, þá hafi þær sannað gildi sitt. Þess vegna hef ég verið mjög fastur á því að halda áfram að hafa húsaleigubætur.

Breytingarnar sem eru í þessu frv. eru í fyrsta lagi þær að bæturnar verða alfarið á vegum sveitarfélaganna. Í öðru lagi að þær verða skylda í öllum sveitarfélögum. Í þriðja lagi að þær verða á öllu leiguhúsnæði, sama hvaða eignarform er á því, hvort heldur það eru bæjaríbúðir eða íbúðir í eigu sveitarfélaga eða einstaklinga.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni að skynsamlegt sé að húsaleigubæturnar séu á einni hendi en ekki samstarfsverkefni og þær eru eðlilega betur komnar hjá sveitarfélögunum en ríkinu. Í öðru lagi þá tel ég að það sé nauðsynlegt að þær séu greiddar í öllum sveitarfélögum. Sum sveitarfélög tóku því miður ekki upp húsaleigubætur strax. Ég tel að þau hafi unnið sér skaða með því. Afleiðingin var sú að námsfólk flutti lögheimili sitt til Reykjavíkur vegna þess að hér voru greiddar húsaleigubætur. Í minni heimabyggð, í Austur-Húnavatnssýslu, var einungis einn hreppur sem tók upp húsaleigubætur, Torfalækjarhreppur. Hann hafði framsýni til þess að taka upp húsaleigubætur. Íbúaþróun hefur verið hagstæðari þar en í öllum öðrum sveitahreppum í Austur-Húnavatnssýslu. Seinast þegar ég kynnti mér málið voru sjö námsmenn úr þessum hreppi við nám hér í Reykjavík og nutu húsaleigubóta sem Torfalækjarhreppur afgreiddi. Ég tel að þetta sé einn þátturinn í því að hamla gegn þeirri miklu byggðaröskun sem við höfum mátt búa við á undanförnum árum. Nú kann að vera að eitthvað af þessu fólki flytji suður eða úr sínu fæðingar- eða uppeldissveitarfélagi. En það er hins vegar ekki vonlaust að það komi til baka. Þar af leiðandi held ég að sveitarfélögin hafi gert sér skaða. Ég þekki mörg dæmi þess að námsmenn frá Akureyri sem farið hafa til náms í Reykjavík hafa flutt heimilisfang sitt beinlínis út af húsaleigubótum þar sem Akureyri greiddi ekki húsaleigubætur. Ég tel jafnframt að það sé eðlilegt að húsaleigubætur nái til alls leiguhúsnæðis. Það skapar jafnrétti og jafnvægi og mér finnst eðlilegt að einu gildi hvort viðkomandi leigi af sínu sveitarfélagi eða á einkamarkaði.

Ég tel að eitt af því sem okkur vantar í uppbyggingu okkar húsnæðiskerfis sé meira framboð af góðu leiguhúsnæði eða viðunandi leiguhúsnæði skulum við segja. Því miður eru margar fjölskyldur þannig staddar að þær binda sér óhæfilega erfiða bagga við að afla eigin húsnæðis. Þ.e. eignaríbúðastefnan, sem hér hefur verið alls ráðandi, hefur verið mörgum fjölskyldum þung í skauti og of stór hópur í þjóðfélaginu hefur bókstaflega ekki bolmagn til að fjárfesta í eigin húsnæði, vegna launakjara eða hverju því sem þar er um að kenna. Ég tel nauðsynlegt að hér sé nægilegt framboð af góðu leiguhúsnæði á hverjum tíma. Ég tel að það sé eitt af þeim brýnu verkefnum sem við þurfum að sinna í húsnæðismálum.

Í þessu sambandi var nokkuð rætt um skattalega meðferð húsaleigubóta. Af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga komu fram strangar óskir um það. Frv. fjallar með engu móti um skattalega meðferð enda væri ekki eðlilegt að skattaþátturinn væri í þessu frv., hann er það ekki. Meðferð skatta heyrir formlega undir fjmrn. og mundi þá vera í frv. sem hæstv. fjmrh. flytti. Fjmrn. hafði á móti því að húsaleigubætur væru skattfrjálsar og bar því við að þetta mundi flækja kerfið og innheimtuna og opna óæskilegar glufur í skattkerfið. Niðurstaðan verður væntanlega sú og milli sveitarfélaganna og ríkisins er að komast á samkomulag um fjármálaleg samskipti á árinu. Ég vænti þess að það liggi fyrir strax eftir næstu helgi og einnig þess að húsaleigubæturnar verði skattlagðar en upphæðinni hins vegar skilað til sveitarfélaganna. Ríkið er þá ekki að hagnast á skattlagningu húsaleigubóta. Þessi leið hefur einn mjög áberandi kost í mínum huga. Nú er helmingur þeirra sem þiggja eða taka móti húsaleigubótum undir skattleysismörkum og þeir mundu ekki njóta neins góðs af skattfrelsinu, þar mundu einungis betur stæðir leigjendur njóta góðs af. Þannig að ég tel að sú leið sem ég vil fara í þessu sé betri.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég tel að þarna sé um mjög mikilvæga löggjöf að ræða. Húsaleigubætur eigum við að hafa til frambúðar. Hafa þær um allt land og láta sveitarfélögin stjórna þeim.

Ég óska mjög eindregið eftir því að frv. geti orðið að lögum fyrir áramót því að annars eru húsaleigubæturnar í uppnámi. Ég vil fara fram á það við hv. félmn. að hún hraði vinnu við frv. svo sem nokkur kostur er þannig að það geti orðið að lögum fyrir næstu áramót eða áður en þingi lýkur fyrir jól.

Ég geri tillögu um að frv. verði vísað til athugunar í hv. félmn. að lokinni þessari umræðu.