Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 15:46:32 (1666)

1997-12-04 15:46:32# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[15:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta húsaleigubótamál á sér alllanga sögu sem hæstv. ráðherra sleppti að vísu að mestu leyti að fara yfir, ef til vill tímans vegna og þó ef til vill vegna þess að hæstv. ráðherra hafi ekki endilega kært sig um að rifja upp áherslur Framsfl. í þessu máli frá fyrra kjörtímabili. Svo virðist sem framsóknarmönnum hafi nokkuð snúist hugur hvað varðar afstöðu til málsins frá þeirri gagnrýni sem þeir héldu uppi ásamt öðrum í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, m.a. á það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði og að hluta til er fest í sessi með þessu frv.

Fyrst er til að taka að frágangur málsins á síðasta kjörtímabili var eitt reginklúður þannig að leitun er að mínu mati að öðru eins. Þar á ég fyrst og fremst við þann þátt málsins að húsaleigubæturnar voru ekki sjálfstæður réttur leigjendanna hvar sem þeir bjuggu á grundvelli þeirra ákvarðana sem teknar væru um ráðstöfun fjármuna í því skyni heldur háðir geðþóttavaldi sveitarstjórna á hverjum stað. En í 2. mgr. 2. gr. gildandi laga um húsnæðisbætur segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Til þess að íbúar sveitarfélags geti átt rétt til húsaleigubóta þarf að liggja fyrir ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar um greiðslu húsaleigubóta.``

Málið var þannig sett upp að ríkið og sveitarfélögin ákváðu að greiða í sameiningu húsaleigubætur, þar af átti ríkið að endurgreiða sveitarfélögunum 60% kostnaðarins við húsaleigubæturnar en rétturinn var hins vegar í valdi sveitarstjórnanna. Einstakar sveitarstjórnir í landinu gátu með því að ákveða að greiða ekki húsaleigubætur svipt íbúa sína, leigjendur í viðkomandi sveitarfélagi, ekki bara greiðslunum frá sveitarfélaginu heldur líka ríkishlutanum. Þetta var og er og mun af öllum hugsandi mönnum sem betur gá að verða talið brot á öllum góðra manna lögum, reglum og siðum. Það er ekki hægt að komast fram hjá því að þetta gengur ekki. Það stenst ekki að rétti borgaranna í landinu hvað varðar fjárstuðning úr ríkissjóði til sambærilega settra borgara sé mismunað. Það gengur ekki. Að því leyti er framför fólgin í stjfrv. sem er til umræðu að rétturinn verður almennur og sjálfstæður. Í 3. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Þeir leigjendur eiga rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili.``

Þetta er að sönnu mikil framför hvað það snertir að horfið er frá þessu mikla klúðri, þessu óréttlæti og þessari fráleitu afgreiðslu málsins sem varð á síðasta kjörtímabili að selja þennan rétt einstaklinganna í hendur geðþóttavaldi sveitarstjórna á hverjum stað. Þetta hefur jafnvel tekið á sig þær skrautlegu myndir að húsaleigubótaréttur hefur verið fyrir hendi í viðkomandi sveitarfélögum stundum og stundum ekki. Dæmi eru um sveitarstjórnir sem hafa stundum greitt húsaleigubætur og stundum ekki. Þannig hlyti það t.d. að verða ef þetta væri viðverandi fyrirkomulag og síðan skiptast á pólitískir meiri hlutar í viðkomandi sveitarfélögum. Stundum er meiri hluti við lýði sem er á móti húsaleigubótum en stundum ekki.

Herra forseti. Það er ómögulegt annað en að fara aðeins yfir þennan bakgrunn málsins og þetta mikla klúður sem verið hefur. Þetta gagnrýndu sveitastjórnarmenn. Þetta gagnrýndum við í stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili og þar á meðal hæstv. félmrh. eða að minnsta kosti flokksbræður hans og stóðu að nefndaráliti með minni hlutanum.

En þar var reyndar margt fleira tínt til, herra forseti. Þá kem ég að því sem er ekki jafngott við þetta frv. og horfir ekki til framfara. Það fyrsta sem ég vil segja er að frv. gerir ráð fyrir því að verkefnið færist alfarið til sveitarstjórnanna. Það held ég að sé ekki gott fyrirkomulag. Ég er þeirrar skoðunar eins og á síðasta kjörtímabili að stuðningur vegna húsnæðisöflunar fólks eigi að vera á sömu hendi og annar stuðningur þegar um er að ræða til að mynda vaxtabætur vegna fjárfestinga fólks í íbúðarhúsnæði. Hvers vegna skyldi ríkið annast þá hluti og hafa það innan skattkerfisins en sveitarfélögin sjá um húsaleigubæturnar? Ég held að það sé ekki heppilegt upp á samræmingu þessara mála. Vilji menn á annað borð reyna að stilla hlutina þannig af að stuðningur hins opinbera sé sambærilegur eða á einhverjum efnislegum rökum reistur hvað varðar þá sem eru að kaupa sér íbúð eða byggja húsnæði í fyrsta sinn og hinna sem velja þann kost að leigja þá verður það að vera á sömu hendi. Til lengri tíma litið mun það ekki ganga með neinu viti að mínu mati öðruvísi. Það er langeðlilegast að þetta sé allt innan skattkerfisins. Þar er þá hægt að taka á tekjutengingunni, þar er hægt að taka á samræmingunni og mér finnst það líka í raun og veru þannig, herra forseti, að þetta séu grundvallarþættir af því tagi sem eðlilegt sé að ríkið hafi með höndum.

Þá er líka rétt að draga athyglina að því, herra forseti, að hæstv. ráðherra í allri hógværð sinni, mælandi fyrir þessu frv. 4. des. 1997, fer fram á að málið verði afgreitt fyrir áramót. Við þær aðstæður að hann boðar vonandi samkomulag við sveitarfélögin eftir helgi um fjármálaleg samskipti og hugsanlega einhverja niðurstöðu í því hvernig farið verði með skattlagningu húsaleigubóta á næstunni. Samt á Alþingi vinsamlegast að drífa þetta í gegn núna fyrir Þorláksmessu. Auðvitað er alveg hrapallega að málunum staðið hjá hæstv. félmrh. Maður leyfir sér að spyrja, hæstv. forseti: Hvað hafa hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar yfirleitt verið að gera? Eins og kom fram í orðaskiptum fyrr í dag hefur nánast ekkert verið að gera á Alþingi undanfarið. Það hefur nánast ekki verið einn einasti kvöldfundur og það er komið fram í desember og nefndir eiga að vera að störfum í næstu viku og þá verður fundarhlé og þá fyrst fara að koma frv. frá hæstv. ráðherrum. Flest þeirra eru þannig að það er brýnt að sögn hæstv. ráðherra að afgreiða þau fyrir áramót.

Varðandi tekjusamskiptin er það alveg ljóst að samkomulag við sveitarfélögin sem reyndar er af nokkuð sérkennilegum toga --- það kemur fram í greinargerð með frv. að þetta samkomulag, þ.e. sem vísað er til á bls. 6 í greinargerðinni í athugasemdum við frv. um að það komi til greina að sveitarfélögin yfirtaki alfarið þetta verkefni að greiða húsaleigubætur --- milli hverra? Milli félmrh., fjmrh. og formanns og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga. Með fullri virðingu fyrir þessum mætu mönnum og miklu valdamönnum í þjóðfélaginu, formanni annars vegar og framkvæmdastjóra hins vegar Sambands ísl. sveitarfélaga verð ég að segja að það bindur auðvitað ekki sveitarstjórnirnar í landinu. Ég veit ekki til þess að þær hafi framselt þessum mönnum réttinn til þess að ganga frá afdrifaríkum fjármálum af þessu tagi fyrir sína hönd. Það er líka þannig að grundvöllur þessa samkomulags, ef samkomulag skyldi kalla eða frágang málsins öllu heldur, á árinu 1994, var sá að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skyldi sjá um greiðslurnar frá ríki til sveitarfélaga vegna þessara hluta. Það hefur að sjálfsögðu alltaf verið hugsun sveitarfélaganna það ég best veit að þetta væri ekki nýtt íþyngjandi verkefni sem þau fengju á sínar herðar. Ég veit ekki til þess að það hafi verið ætlunin. Auðvitað þarf fyrst að liggja fyrir samkomulag um fjármálaleg samskipti þessara aðila áður en ríkið getur velt af sér verkefni af þessu tagi yfir á sveitarfélögin.

Eins er það, herra forseti, varðandi fjármálalega og skattalega hlið málsins að það er afar snautlegt svo ekki sé meira sagt hjá hæstv. félmrh. að þurfa að koma hér og viðurkenna að allt sé meira og minna í vindinum enn þá en hann vonist til að fá niðurstöðu í þessu sumu eftir helgi og öðru einhvern tímann seinna.

Aftur er ljóst að upphaf málsins skiptir heilmiklu, herra forseti. Á síðasta kjörtímabili var eitt af háleitum loforðum stjórnarsáttmálans að það skyldi taka upp húsaleigubætur. Af einhverjum ástæðum gekk ekki betur en svo með þetta mál að þáv. hæstv. félmrh. varð að sæta þeim afarkostum sem voru í boði af hálfu hæstv. þáv. og reyndar enn þá verandi fjmrh. að þetta yrði að verulegu leyti sett yfir á sveitarfélögin og frágangurinn yrði þetta klúðurslega samstarfsverkefni ríkis- og sveitarfélaga sem húsaleigubæturnar hafa verið hingað til. Auðvitað mætti nefna þar margt fleira sem var í skötulíki eins og til að mynda staða námsmanna í því kerfi. Það var alveg afleitur frágangur á því. Á það var þegar bent. Útkoman hefur orðið eins og raun ber vitni og menn óttuðust. Fjmrh. hæstv., þáv. og núv., Friðrik Sophusson, tímdi ósköp einfaldlega að borga meira en einhvern hluta af þessum bótum og auðvitað er líka ljóst að Sjálfstfl. hefur alltaf verið meira og minna á móti því að þessi réttarbót yrði tekin upp fyrir leigjendur í landinu. Það er mergurinn málsins. Eins og venjulega þegar rætt er um einhver félagsleg framfaramál af þessu tagi gufar Sjálfstfl. upp í þingsalnum. Nema það er hér aðeins eimur eftir af hv. þm. Pétri Blöndal sem er svo sem til bóta. Það væri meiri mannsbragur að því hjá sjálfstæðismönnum að gangast við að þeir hafa alltaf verið á móti þessu og vilja ekki svona félagsleg úrræði til handa leigjendum í landinu. Þeir sjá alltaf svart eða rautt eða hvað það nú er þegar slíkt er á dagskrá.

Það er engin afsökun, herra forseti, þó málið hafi verið í þessum hremmingum bæði á fyrra kjörtímabili og ef til vill einnig á þessu kjörtímabili úr því að Framsókn hefur ekki manndóm í sér til að koma því í farsæla frambúðarhöfn með því að taka þetta inn sem hluta af opinberum stuðningi ríkisvaldsins og samræma við vaxtabótakerfið og hafa sem hluta af tekjujöfnun og stuðningi af því tagi sem á heima fyrst og fremst í skattkerfinu. Það er engin afsökun í sjálfu sér að stytta sér leið í þessum efnum þó að eitt atriði sé vissulega til bóta í þessu eins og ég hef þegar farið yfir, þ.e. upphafsákvæði 3. gr.

Herra forseti. Mér er þar af leiðandi nokkur vandi á höndum að tjá mig efnislega hvað afstöðu snertir til þessa máls. Ég áskil mér að einhverju leyti rétt til að geyma það til betri tíma þegar málið hefur hlotið skoðun í nefnd sökum þess ósköp einfaldlega sem ég hef hér farið yfir að í málinu felst eitt stórt og veigamikið jákvætt atriði sem er það að gera þetta að sjálfstæðum og almennum rétti allra leigjenda í landinu, óháð því í hvaða sveitarfélagi þeir eru. Það er framför. En að hinu leytinu til er ég ósáttur við frágang málsins. Bæði hvernig að því er unnið af hálfu hæstv. félmrh., það kemur hér hálfkarað, það á eftir að ganga frá málinu við sveitarfélögin, og það er allt of seint á ferðinni. En líka vegna þess að ég hef enga sannfæringu fyrir að með þeim frágangi málsins að hafa þetta hjá sveitarfélögunum sé verið að búa því þann samastað sem farsælastur sé til framtíðar litið. Ég hefði viljað sjá þetta fara inn í skattkerfið eins og ég hef hér sagt og verða hluta af því.