Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:06:05 (1670)

1997-12-04 16:06:05# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er með öllu ástæðulaust að blanda almennt gildi húsaleigubóta inn í þessa umræðu. Um það er ekki og hefur aldrei verið neinn ágreiningur og ég var jafnmikill baráttumaður fyrir því um langt árabil að taka upp húsaleigubætur og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Ég leyfi mér í allri hógværð að halda því hér fram.

Í öðru lagi verð ég að segja alveg eins og er að þegar hv. þm., hæstv. fyrrv. ráðherra, ber fram svona spurningu: ,,Hefði hv. þm. í mínum sporum tekið þennan kost``, þá vil ég fá aðeins nánari lýsingu á því hvers konar nauðungarkostir voru þetta sem hæstv. fyrrv. félmrh. voru þá settir. Voru fallbyssukjaftarnir bara við brjóstið á hæstv. ráðherra? Þessu er lýst þannig að hæstv. ráðherra hafi átt líf sitt undir því að fallast á þessi ósköp. (Gripið fram í.) Það virðist vera, já. Ég spyr aftur að því: Hvers konar nauðungarkostir voru þetta? En ég skal svara hv. þm. alveg skýrt. Svarið er:: Nei. Ég hefði aldrei gert svo lítið úr mér sem ráðherra að fallast á þessa afgreiðslu málsins hvað varðar a.m.k. ríkishlutann í húsaleigubótunum. Og af hverju ekki? Af því að ég hefði ekki getað það samvisku minnar vegna. Ég er algjörlega sannfærður um að það er brot á jafnræðisreglunni og það er brot á öllum góðum stjórnsýsluvenjum að sveitarfélögin geti svipt íbúa sína einnig þeim hluta stuðningsins sem greiddur er af ríkissjóði. Það er dálítið merkilegt að einhver leigjandi í sveitarfélagi þar sem tekin var ákvörðun um að borga ekki húsaleigubætur skuli ekki hafa látið á þetta reyna með því að höfða mál og gera út af fyrir sig að mínu mati þá eðlilegu kröfu að hann fengi allar húsaleigubæturnar en þá varakröfu að hann fengi a.m.k. ríkishlutann þó að hann byggi í svo vondu sveitarfélagi að það hefði samþykkt að borga ekki húsaleigubætur, þar sem meiri hlutinn væri þannig saman settur. Ég hefði gaman af því að sjá hvernig það mál hefði farið fyrir dómstólum. A.m.k. er ég algjörlega sannfærður um, herra forseti, að hefði sá leigjandi ekki fengið beinlínis bæturnar greiddar og það þar með síðan orðið að prófmáli fyrir aðra, þá hefði stjórnsýslan fengið falleinkunn fyrir það að standa svona að málum. Það eitt er alveg víst. Ég tók eftir því að hv. þm. reyndi þrátt fyrir allt ekki að verja þessa efnislegu niðurstöðu.