Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:08:36 (1671)

1997-12-04 16:08:36# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:08]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að taka neitt aftur sem ég hef sagt um húsaleigubætur fyrr eða síðar. Ég er því sammála að frágangur málsins var klúður á sínum tíma en það var ekki eingöngu að kenna hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þáv. félmrh. Hún réði þessu ekki ein og það er ekki ástæða til þess að liggja henni á hálsi fyrir þessa lendingu sem þarna var jafnvel þótt hún væri klúður.

Það er verið að reyna að laga klúðrið núna. Nú eru húsaleigubæturnar á einni hendi, greiddar í öllum sveitarfélögum og á allt leiguhúsnæði. Það er verið að færa þetta verkefni alfarið til sveitarfélaganna. Ríkið tekur við verkefnum á móti þannig að ekki er verið að hugsa um að snuða sveitarfélögin eða íþyngja þeim. Í samningunum eru verkefni færð sem sveitarfélögin greiða að hluta og að sjálfsögðu er þetta á jafnréttisgrundvelli. Ríkið tekur sem sagt við verkefnum sem sveitarfélögin hafa kostað á móti.

Hitt er rétt hjá hv. þm. að frv. er helst til seint fram komið af því að það þarf að verða að lögum fyrir jól. Til þess liggja þær orsakir að það var mjög hörð krafa forráðamanna Sambands ísl. sveitarfélaga að bæturnar yrðu skattfrjálsar. Um það varð ekki samkomulag. Önnur niðurstaða fékkst. Það tafði málið um þó nokkurn tíma. Það er alllangt síðan málið var lagt fram á Alþingi. Ég hef ekki fengið að tala fyrir því fyrr en núna. Þetta er skýringin á því að þetta er svona seint fram komið.

Ég vil taka það fram að ég tel að sveitarfélögin hafi skyldur varðandi húsnæðismál og það sé ekki óeðlilegt að sveitarfélögin annist þetta verkefni. Ég lít svo á að það sé samkomulag við sveitarfélögin, ekki bara formann og framkvæmdastjóra, hestamann og alþýðubandalagsmann ágætan. Stjórn sambandsins og fulltrúaráð stendur að þessu máli líka.