Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 17:41:43 (1684)

1997-12-04 17:41:43# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[17:41]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Sú umræða sem orðið hefur um þetta frv. í dag sýnir að hér en engan veginn um einfalt mál að ræða þó að hugsunin í því kunni um margt að vera góð.

Ég vil eins og aðrir gagnrýna það hversu seint frv. kemur til umræðu. Það er að vísu nokkuð um liðið síðan það var lagt fram en það hefur ekki komist á dagskrá og greinilega er reiknað með því, samkvæmt gildistökuákvæðinu, að það verði að lögum fyrir 1. janúar 1998. Ég vildi gjarnan fá það upplýst við þessa umræðu frá hæstv. félmrh. hversu brýnt er að málinu ljúki fyrir áramót. Mér sýnist einfaldlega að hér sé um svo stórt mál að ræða að þær tvær vikur sem eftir lifa þingtímans muni vart duga þó að stíft verði fundað, en reyndar eru önnur brýn mál sem við erum að fást við í félmn. Eins og ég hef skilið stöðu málsins þá er ekki komið samkomulag við sveitarfélögin um það hvernig þessi yfirfærsla verður fjármögnuð þannig að ég vil biðja hæstv. félmrh. --- því miður missti ég af framsöguræðu hans. Það kann að vera að þetta hafi komið fram, en ég bið þá forláts --- að endurtaka það hversu brýnt það sé að þetta frv. verði að lögum 1. janúar og hvernig hangir það saman við það samkomulag sem nauðsynlega þarf að gera við sveitarfélögin.

Áður en ég vík að einstökum atriðum frv. vil ég velta vöngum yfir stöðu húsnæðismála hér á landi og því hvernig opinberir aðilar styrkja fólk, ýmist til húsnæðiskaupa eða til leigu. Niðurgreiðsla á vöxtum, húsnæðislán og húsaleigustyrkir hafa tíðkast, alla vega á Norðurlöndunum, um alllangt skeið og litið hefur verið á slíka aðstoð og fyrirgreiðslu sem hluta af aðferð ríkisins til þess að jafna kjör fólksins í viðkomandi landi. En hér á landi var það svo til skamms tíma að nánast eingöngu þeir sem voru að kaupa húsnæði fengu aðstoð. Hér var lengi ríkjandi sú hugmynd að það væri nánast sáluhjálparatriði að fólk ætti húsnæði og ég hygg að það sjónarmið sé nokkurn veginn allsráðandi í samfélagi okkar.

[17:45]

Samt sem áður er að koma betur og betur í ljós að það eru býsna stórir hópar sem þurfa á leiguhúsnæði að halda og ekki síður hitt að sveitarfélögin, sérstaklega úti á landi og reyndar líka hér á höfuðborgarsvæðinu, þurfa að ráða yfir allnokkrum fjölda leiguíbúða. En verulegur skortur hefur verið á leiguhúsnæði, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Það hefur leitt til þess að öðru hvoru hefur leiga farið upp úr öllu valdi. Samkvæmt mínum upplýsingum þá var til skamms tíma sæmilegt jafnvægi hér á höfuðborgarsvæðinu. Sú efnahagskreppa sem samfélag okkar gekk í gegnum á tímabilinu 1991--1996, ef við gerum ráð fyrir að henni sé lokið í bili, varð til þess að framboð á leiguhúsnæði jókst og nokkuð var um að skrifstofuhúsnæði væri breytt í íbúðir eða menn færu að leigja húsnæði af ýmsu tagi í ríkari mæli en áður og framboð á leiguhúsnæði jókst. Mér er sagt að aftur sé komin nokkur spenna á markaðinn hér sem auðvitað vekur spurningar um hvernig eigi að bregðast við og hversu brýnt það er að tryggja aukið framboð á leiguhúsnæði. Hvernig eiga bæði ríkisvaldið og sveitarfélögin að koma inn í málið og tryggja byggingu leiguhúsnæðis?

Við umfjöllun um fjárlögin fyrir árið 1998 fórum við í hv. félmn. nokkuð ofan saumana á stöðu húsnæðismála, sérstaklega hvað varðar félagslega húsnæðiskerfið og auðvitað er ljóst að það mundi á margan hátt verða miklu hentugra fyrir sveitarfélögin að breyta félagslegum eignaríbúðum og kaupleiguíbúðum í leiguhúsnæði eftir því sem þörf krefur. Þannig mundi sveigjanleikinn aukast og komið væri í veg fyrir að félagslegt húsnæði sé á uppsprengdu verði og þá mismunun sem felst í því að þeim sem eiga félagslegt húsnæði er tryggt að það seljist vegna kaupskyldu sveitarfélaganna meðan aðrir íbúar sveitarfélaga, og þá er ég auðvitað fyrst og fremst að hugsa um sveitarfélögin úti á landi þar sem mikið er um autt húsnæði, tapa í raun og veru miklum fjárhæðum vegna þess að þeirra húseignir eru nánast óseljanlegar. Allt hangir þetta saman, framboð á leiguhúsnæði, staðan í félagslega kerfinu og það mál sem hér er til umræðu, hvernig eigi að styrkja og styðja þá sem leigja. Það er auðvitað markmið þessa frv. og þeirra laga sem í gildi eru að jafna eða eins og hér segir í 1. gr., með leyfi forseta: ,,... draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum``.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að hér hefur ríkt sú stefna að allir ættu að eiga húsnæði þá hefur það verið þannig að það eru fyrst og fremst námsmenn og láglaunafólk sem er á leigumarkaði þó vissulega séu undantekningar á því. Auðvitað tengist það því atriði sem kemur fram í grg. að þegar sveitarfélögin verða skyldug til þess að taka upp húsaleigubætur þá er reiknað með því, eins og segir hér á bls. 10, með leyfi forseta: ,,Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hverfi frá beinni niðurgreiðslu félagslegs húsnæðis og greiði húsaleigubætur í staðinn.`` Maður spyr sig hvað þetta þýði. Hvað þýðir þetta fyrir þann hóp leigjenda sem hefur verið í niðurgreiddu húsnæði á vegum sveitarfélaganna? Ég þekki þetta aðallega héðan úr Reykjavík og veit að sá hópur sem fær leiguíbúðir á vegum Reykjavíkurborgar er fyrst og fremst skjólstæðingar félagsmálastofnunar. Eftir því sem kostur er er síðan reynt að koma því fólki yfir í félagslega húsnæðiskerfið, ef viðkomandi ræður við þau kjör sem þar er boðið upp á, ef fólk nær greiðslumatinu eða er talið ráða við slík kaup. Þannig held ég að við hljótum að skoða alveg sérstaklega hvað í því felst að sveitarfélögin hætti að greiða niður íbúðir og greiði húsaleigubætur í staðinn.

Mér óar við þeim tölum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi hér í ræðu sinni því það getur auðvitað ekki verið tilgangurinn að kjör þeirra versni sem verst standa, þeirra sem hafa orðið að leita á náðir sveitarfélaganna. Auðvitað kunna að vera alls konar undantekningar þar á. Vissulega er ákveðinn hópur fólks sem reynir alltaf að spila á kerfið. Hv. þm. Pétur Blöndal virðist þekkja mikið af slíku fólki sem er mjög útsmogið og finnur allar smugur í kerfunum hver sem þau eru. En staðreyndin er sú að langstærsti hópurinn í húsnæði á vegum sveitarfélaganna er mjög illa staddur og sveitarfélögin hafa orðið að hlaupa undir bagga með. Þetta atriði finnst mér að þurfi að skoða alveg sérstakalega. Hvað þessi breyting þýðir fyrir leigendur og sérstaklega fyrir þennan hóp leigjenda.

Ég vil aðeins velta vöngum yfir því hvort það sé rétt að færa húsaleigubæturnar alfarið yfir til sveitarfélaganna og ég hlýt að spyrja hæstv. félmrh. hvaða rök séu fyrir því að aðstoð við þá sem eru að kaupa húsnæði kemur frá ríkinu en leigjendur eiga sitt undir sveitarfélögunum. Hvaða rök eru fyrir þessari skiptingu? Ef það er stefna ríkisvaldsins að greiða fyrir því að fólk hafi þak yfir höfuðið, hvort sem það er verið að kaupa eða leigja, hvaða rök eru fyrir því að skipta þessu með þessum hætti? Það getur út af fyrir sig verið stefnan, og er sú stefna sem er ríkjandi, að færa æ fleiri verkefni til sveitarfélaganna og að mörgu leyti er ég sammála því að það eigi betur við um ýmis verkefni, en ég er ekki sannfærð um að svo sé í þessu tilviki. Það sem skiptir þó meginmáli í þessu frv. er auðvitað sú breyting að þetta kerfi nái til allra sveitarfélaga vegna þess að það valfrelsi sem ríkt hefur leiðir til mismununar. Fólk hefur verið afar mismunandi sett eftir því hvar það hefur búið á landinu, og jafnvel eins og hér hefur komið fram, hafa húsaleigubætur verið greiddar í Reykjavík en ekki í Kópavogi, í sveitarfélögum hlið við hlið og þannig er það reyndar víðar.

Þær tölur sem birtar eru í frv. sýna að æ fleiri sveitarfélög hafa tekið upp húsaleigubætur en miðað við fjölda sveitarfélaga á landinu þá eru þau harla fá. Ég hygg þó, eins og tölurnar sýna, að það séu auðvitað stærstu sveitarfélögin sem hafa tekið upp húsaleigubætur enda þörfin væntanlega mest þar. Þannig er kostur þessa frv. sá að nú á kerfið að ná til allra sveitarfélaga undantekningarlaust. Þá tel ég það líka mikinn kost að bæturnar nái til alls íbúðarhúsnæðis í leigu, hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu ríkisins, sveitarfélaganna eða á almennum markaði. Þó hef ég þann fyrirvara sem ég nefndi hér áðan um það hvernig þessi breyting kann að snerta þann hóp sem búið hefur í niðurgreiddu húsnæði á vegum sveitarfélaganna. Þannig finnst mér meginhugsunin í frv. vera til góðs en set spurningarmerki við yfirfærsluna til sveitarfélaganna og hvers vegna verið sé enn á ný að greina með þessum hætti á milli þeirra sem leigja og þeirra sem kaupa sér húsnæði.

Ég ætla að nefna hér nokkur atriði í frv. sem mér finnast þó ekki stórvægileg. Í fyrsta lagi nefni ég það atriði að binda í lögum að félagsmálanefndir sveitarfélaga annist afgreiðslu umsókna. Í 2. gr. stendur reyndar ,,að jafnaði`` sem gefur þá væntanlega kost á því að hugsanlega geti aðrir aðilar annast þetta. Ég velti því fyrir mér hvort það sé endilega eðilegra að þetta mál heyri undir félagsmálanefndir frekar en húsnæðisnefndir. Húsnæðisnefndir hafa með húsnæði á vegum sveitarfélaganna að gera og úthlutun þess og mér finnst rétt að velta því upp hvort rétt væri að þær tæku við þessu verkefni. Ég þekki það af eigin raun eftir setu í stjórn sem þá hét stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík að þar var farið býsna nákvæmlega ofan í kjör fólks, skattframtöl, greiðslugeta metin og annað slíkt. Í sjálfu sér er þannig ekkert sem gerir húsnæðisnefndir eitthvað vanhæfari en félagsmálanefndir til þess að fara ofan í þessi mál. Þetta er auðvitað með ýmsum hætti hjá sveitarfélögunum. Sums staðar eru þessi mál öll undir einum hatti. Og í raun og veru fyndist mér að þarna mætti vera sveigjanleiki og spurning hvort orðalagið í 2. gr. nær yfir það að sveitarfélögin geti í raun ákveðið hvort það er félagsmálanefndin eða húsnæðisnefndin sem annast þessi mál.

Annað atriði sem ég vil nefna hér er að ég tek undir það að öll meðferð umsókna og úthlutana og slíkt þarf að vera vönduð. En mér finnst samt að þetta sé nú býsna mikið kerfi. Fólk þarf að gera býsna margt til að fá þessar bætur. Það þarf að gera leigusamning og þinglýsa honum. Og ég spyr hvaða kostnað það hafi í för með sér fyrir viðkomandi. Þegar búið er að þinglýsa leigusamningi þá þarf að leggja hann fram ásamt ljósriti af skattframtölum, launaseðlum og öðrum gögnum sem tiltekin eru í reglugerð. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé ekki óþarflega flókinn umbúnaður um þessar bætur.

Áðan var bent á það, í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, að ekki væri nægjanlegt að leigja sér herbergi til þess að fá húsaleigubætur. Ég hygg nú að leiga fyrir eitt herbergi sé ekki það há, þó ég verði að viðurkenna að ég þekki það ekki nægilega, til þess að það gefi hreinlega kost á húsaleigubótum. Þetta eru auðvitað atriði sem hægt er að velta fyrir sér og skoða hvar mörkin eigi að liggja þarna á milli. Til eru býsna stór herbergi þar sem hægt væri að innrétta lítinn eldhúskrók. Og í 6. gr. segir --- þetta er kannski fullnákvæmt --- en þar segir, með leyfi forseta: ,,... og eru lágmarksskilyrði a.m.k. eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða eldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu.``

[18:00]

Að það sé ígildi íbúðar. Kannski er hægt að túlka ,,séreldhús eða eldunaraðstöðu`` að hún þurfi ekki að vera mjög afmörkuð.

Þetta eru ekki stórvægileg atriði, hæstv. forseti, en það þarf auðvitað að fara vel ofan í það hvernig svona skilgreiningar eru. Að þær séu ekki of þröngar og það sé ekki verið að sníða fólki of þröngan stakk í kringum þetta kerfi.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég þakka fyrir allar þær miklu og merkilegu upplýsingar sem koma fram í greinargerðinni. Mér finnst hún varpa skýru ljósi á stöðu þessara mála og ég vil þakka fyrir það því að það er of algengt hér að við fáum frumvörp sem segja og skýra harla lítið en hér er virkilega varpað ljósi á stöðu þessara mála með tölulegum upplýsingum og þróunin sýnd og mér finnst rétt að þakka fyrir það.

Að lokum, hæstv. forseti, er ég sátt við meginhugsun þessa frv. en set ákveðin spurningarmerki við einstaka þætti eins og hvort það sé í raun rétt stefna að færa þessi mál yfir til sveitarfélaganna og auðvitað þarf að skoða mjög rækilega hvaða áhrif þetta frv., verði það að lögum, hefur á hina ýmsu hópa leigjenda og stöðu þeirra.