Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:25:12 (1689)

1997-12-04 18:25:12# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:25]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski verið óskýr í tali. Já, í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að það sé ákaflega heppilegt fyrirkomulag að sveitarfélögin sjálf taki um það ákvörðun hvort þau ætli að greiða húsaleigubætur eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að kjósendur eigi heimtingu á að fá að vita og skynja hvar íhaldið er við völd og hvar það er ekki þannig að það sigli ekki undir fölsku flaggi og þurfi svo að baða sig í þeim sólargeislum sem héðan koma, með öðrum orðum að sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett hvernig og hvort þau ætli að styrkja tekjulágt fólk í sínu sveitarfélagi. Ég nefndi það áðan sem dæmi að þessi lagasetning mun engu breyta eða sáralitlu breyta um tiltekin sveitarfélög vegna þess einfaldlega að það er ekkert leiguhúsnæði þar að hafa og aldrei verið lögð á það áhersla. Og hverju eru menn þá bættari? Þetta eru auðvitað íhaldssveitarfélög sem ég er að nefna.

Mín skoðun er sú einfaldlega að við eigum að setja rammalöggjöf, almennar leikreglur um hvernig húsaleigubætur skulu greiddar í þeim sveitarfélögum sem það vilja og það kjósa og taka um það pólitíska ákvörðun.