Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:33:33 (1696)

1997-12-04 18:33:33# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., GHelg (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:33]

Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða mikið þjóðþrifamál sem varðar þúsundir landsmanna --- húsaleigubætur. Menn hafa haldið hér margar góða ræður og en nú er staða fundarins orðin sú að þetta er bara eins og fundur í Alþb. þar sem nokkrir aðvífandi gestir hafa dottið inn. Og mér dettur nú í hug, hæstv. forseti, hvernig menn hafa talað hér um að koma vitinu fyrir íhaldið og talað um að íhaldið sýni sitt rétta andlit. Það er ekki gott að horfa framan í þau andlit hér því þau eru engin. Ég tel að síst af öllu sé nauðsynlegt að koma viti fyrir hæstv. forseta, sem ekki einu sinni getur varið félagshyggjuöflin í Garðabæ sökum starfa sinna sem forseti þingsins. Ég vildi mælast til þess, eða spyrja hæstv. forseta, hvort við megum ekki bara ræða þetta á fundi yfir kaffi, við félagshyggjufólkið, og leyfa hæstv. félmrh. sem hefur setið hér einn og yfirgefinn, án allra liðsmanna hvort sem er úr Framsfl. eða Sjálfstfl., að fara bara heim að borða. Við getum spjallað um þetta okkar á milli og vildi ég mælast til þess, hæstv. forseti, þar sem klukkan er farin að halla í sjö, að við stjórnarandstaðan hættum að spjalla saman hér. Það er ekki við neinn að ræða nema hæstv. félmrh. og mér sýnist hann ósköp einn og yfirgefinn hér á hinu háa Alþingi í augnablikinu.

(Forseti (ÓE): Forseti hefur heyrt þessar hugmyndir en hyggst nú halda áfram þessari umræðu og sér ekki betur en þeir sem tekið hafa til máls njóti bara vel þess sem þeir segja. Allt er þetta tekið upp á band og kemst vafalaust til skila.)