Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:35:44 (1697)

1997-12-04 18:35:44# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Jafnvel þó hér séu ekki margir stjórnarliðar staddir þá er ég ekkert einmana og finn mig alveg fullburðugan til þess að halda uppi málflutningi einsamall fyrir því ágæta máli sem hér er til umræðu. Ég er frekar stoltur af því en hitt og þarf enga hjálp við það.

Ég mótmæli því algerlega sem hér var sagt áðan að í ríkisstjórninni væru einhver andfélagsleg viðhorf ríkjandi. Það er nú síður en svo og þetta frv. er eitt af merkjum þess hve félagsleg viðhorf eiga þar upp á pallborðið.

Eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson er ég talsmaður fyrir sjálfstæði sveitarfélaga en ég tel að réttmætt sé að gera greiðslu húsaleigubóta að skyldu og gefa sveitarfélögunum fyrirmæli um það í lögum. Mér fannst hv. þm. sanna það óbeint með tölu sinni um nágrannasveitarfélagið sem styggir frá sér fólkið að þrátt fyrir að sjálfstæði sveitarfélaga sé mikilvægt þá er ástæða til þess að hnippa í a.m.k. sum sveitarfélög svo þau sinni þessum málum betur hjá sér. Ég tel að þetta frv. gangi ekki of langt, eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson ýjaði að, en þó vildi hann gera að skyldu að nágrannasveitarfélagið byggði meira af leiguhúsnæði og félagslegu húsnæði. Mér finnst vera þversögn í þessu hjá honum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um markaðsvæðingu leigugjaldsins. Við getum ekki gefið sveitarfélögunum fyrirmæli um leigufjárhæðir. Það væri að grípa fram fyrir hendur þeirra. Við getum ekki skyldað þau til þess að leigja húsnæði á einhverju ákveðnu verði en ég minni á að íbúarnir í hverju sveitarfélagi eiga sinn félagslega rétt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og þeir eiga að geta sótt hann. Ef í hart fer geta þeir leitað til úrskurðarnefndar um félagsþjónustu, telji þeir sig fá ófullnægjandi afgreiðslu í sínu sveitarfélagi. Félagsmálastofnanir hafa ákveðnar skyldur við fólkið og ef sveitarfélagið keyrir upp leigu í ósæmilegum takti þá verður það auðvitað bara til þess að íþyngja félagsmálastofnun viðkomandi sveitarfélags þegar leigjendurnir hafa ekki fjármuni til þess að lifa af.

Ég tel að þetta með skattfrelsið hjálpi ekki hinum tekjulægstu. Þeir eru skattlausir hvort sem er. Þar af leiðir að mér geðjast ekki illa að þessari aðferð sem við hyggjumst nota núna. Út af fyrir sig er verið að sækja vatnið yfir lækinn --- að borga skatt og borga hann svo til baka. Það að hafa húsaleigubætur skattfrjálsar hjálpar ekki hinum tekjulægstu, sem eru undir skattleysismörkum en það er hins vegar hjálp fyrir þá einstaklinga sem hafa tekjur yfir skattleysismörkum.

Hv. 14. þm. Reykv. spurði hversu brýnt það væri að þetta frv. yrði að lögum fyrir áramót. Það er mjög brýnt því húsaleigubæturnar eru í vindinum ef þetta verður ekki að lögum. Skattaþátturinn er ekki í þessu frv., enda á hann ekki heima þar, þannig að ef gera þyrfti lagabreytingar út af skattamálum þá yrði það að vera flutt í öðru frv. af hæstv. fjmrh.

Ég á von á því að það náist samkomulag um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga núna um helgina. Ég er búinn að boða samráðsfund ríkis og sveitarfélaga á mánudaginn kemur kl. 9.30 og vænti þess að þá geti legið fyrir fullbúið samkomulag. Það er ekki mikið sem út af stendur. Við höfum verið að vinna í þessu baki brotnu undanfarið til að ná saman. Það er um mikil fjármálaleg samskipti að ræða og ég á von á því að við séum komnir það langt að þetta muni takast.

Það er rétt að hafa það í huga og ég viðurkenni að þetta frv. kemur of seint til umræðu, en það er rétt að upplýsa það að frv. fór úr ráðuneytinu einhvern fyrstu daganna í nóvember. Ég hef ekki nákvæma dagsetningu. Af sérstökum ástæðum kom það ekki til útbýtingar hér í Alþingi fyrr en 19. nóvember. Ég hef ekki fengið að mæla fyrir því fyrr en nú sem mér þykir mjög slæmt, því ég lagði mikla áherslu á að ég yrði að fá að tala fyrir þessu máli fyrir nefndavikuna svo menn lentu ekki í tímaþröng. Ég tel samt að hægt sé að afgreiða málið fyrir jól ef menn vilja.

Menn hafa verið að velta fyrir sér hvort ástæða væri til að hafa þetta verkefni á vegum sveitarfélaganna eða á vegum ríkisins. Stefnan er sú að reyna að hreinsa út þetta bix og skipta verkunum upp á milli ríkisins og sveitarfélaganna. Ríkið sjái þá um ákveðin verkefni en sveitarfélögin alfarið um önnur. Ríkið er að taka yfir viðhald og nýbyggingar á framhaldsskólunum, á sjúkrastofnununum og er búið að taka við vinnumiðlunum. Sveitarfélögin taka líka við verkefnum, kostnaði vegna fatlaðra barna í leikskólum og húsaleigubótunum. Ég tel að húsaleigubætur séu alveg dæmigert nærverkefni og engir séu betri en heimamenn á hverjum stað til að meta þörfina fyrir húsaleigubætur. Það á að vera meiri þekking og á að vera betri yfirsýn hjá sveitarstjórn. Ég tel einmitt að félagsmálanefndir, sem eins og segir í frv. er að jafnaði ætlað að annast þetta verkefni, séu best til þess fallnar. Sveitarfélögin eru ekki skyldug til þess arna, það er hægt að fela þetta húsnæðisnefnd. Ég tel hins vegar að það sé miklu eðlilegra að það sé félagsmálanefndin því hún á að vita allra gleggst um ástæður hinna verst settu. Mér finnst eðlilegt að það sé sá aðili sem hefur fingurinn á púlsinum sem um þetta fjallar. Hv. 5. þm. Reykn., Rannveig Guðmundsdóttir, tók reyndar undir það að þetta væri dæmigert nærverkefni.

Út af því sem hv. 5. þm. Reykn. sagði vil ég taka fram að ég tel að grunnskólayfirfærslan hafi gengið vel og ríki og sveitarfélög hafi gert réttlátan samning. Ríkið borgaði eðlilega með grunnskólanum, sama hvað hver segir. Ríkið lagði fram fé með grunnskólanum til þess að reka hann síðasta árið sem ríkið rak hann og þar að auki til þess að standa undir kostnaði við lögbundin áform um einsetningu og fjölgun kennsludaga, til að standa undir launahækkun sem samið var um 1995 og ekki var komin til framkvæmda og til þess að standa undir launhækkun 1997 eins og aðrar stéttir fengju, þ.e. í takt við aðrar stéttir.

[18:45]

Til þess að standa undir þessu fá sveitarfélögin aukna hlutdeild í staðgreiðslunni. Í staðinn fyrir 9,20% verða þau búin að fá 12,04% eftir næstu áramót. Þau hafa 11,98% núna. Og þetta á að duga. Ég held að dæmið hafi verið gert eðlilega upp. Nú sömdu sveitarfélögin við kennara um hærri prósentuhækkun en aðrar stéttir fengu og það var þeirra mál. Þau sömdu sem sjálfstæðir samningsaðilar og það er ekki hægt að senda ríkinu bakreikning út af því. Einstakir skólar og skólar í einstökum sveitarfélögum verða leiðréttir eftir á ef um einhvern vanútreikning hefur verið að ræða og það er gert. Það er farið mjög vandlega ofan í þetta hjá jöfnununarsjóði og allir fá leiðréttingu ef þeir eiga rétt á henni. Hitt er svo annað mál að sum sveitarfélögin hafa tekið við þessu verkefni af miklum metnaði og kostað miklu meira til grunnskólans en þau gerðu. Settar hafa verið upp skólaskrifstofur sem taka við af fræðsluskrifstofum og veita miklu meiri þjónustu og það er bara á valdi sveitarfélaganna sjálfra.

Hv. 5. þm. Reykn. hafði áhyggjur af því að sum sveitarfélög hefðu ekkert gagn af þessu með framhaldsskólana, þ.e. að ríkið yfirtæki þá. Nú veit ég það ekki nákvæmlega, en það er a.m.k. svo í mínu kjördæmi að öll sveitarfélögin, bæði stór og smá, eiga aðild að Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki og það kemur þeim öllum til góða ef af þeim er létt viðhaldi varðandi hann.

Hv. 5. þm. Vestf., Kristinn Gunnarsson, hafði áhyggjur af því að félmrh. hefði ekki nægilegt reglugerðavald. Ég hef ekki áhyggjur af því því eins og segir í frv. þá skal félmrh. setja reglugerðina og það er ekkert verið að taka það reglugerðavald af honum. En það er tekið fram í textanum að hann skuli hafa samráð við sveitarfélögin um málið. Það finnst mér vera eðlilegasti hlutur í heimi og mér mundi bara ekki detta í hug að setja reglugerð í trássi við sveitarfélögin um verkefni sem er komið til sveitarfélaganna. Það væri um annað ræða ef þetta væru verkefni sem ætti að kosta alfarið af ríkinu. Þá þættist ég kannski ekki endilega þurfa að leita sérstaklega álits sveitarfélaganna en úrslitavaldið er hjá ráðherra. (KHG: Af hverju þarf að skylda þig til að hafa samráð við ...) Ég tek það ekkert nærri mér þó þessar línur séu þarna í frumvarpsgreininni. Ég man ekki betur en að það sé svoleiðis í mörgum öðrum lögum að ráðherra skuli leita samráðs við viðkomandi aðila. Ég held að það sé alveg tryggt að þetta sé víðar. Í öllu falli finnst mér eðlilegt að það sé þarna.

Varðandi aðfinnslur hv. þm. um 14. gr. þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Félagsmálanefnd sveitarfélags er heimilt að fella niður greiðslur bóta eða stöðva bótagreiðslur ef nefndin fær vitneskju um veruleg leiguvanskil leigjanda.``

Húsaleigubætur eru til þess að hjálpa fólki til þess að komast í húsnæði en ekki veittar sem annars konar félagsleg aðstoð og mér finnst ekkert óeðlilegt við það þó að gert sé að skilyrði að fólkið sem tekur við húsaleigubótunum noti þær til þess að tryggja sér þak yfir höfuðið. Það er hugsunin með bótunum, ekki að það sé félagsleg aðstoð til annarra hluta. Hana þarf að taka með öðruvísi.

Varðandi þetta með andlát leigjandans þá hef ég ekki trú á því að nokkur taki húsaleigubæturnar með sér yfir um en það getur verið álitamál hvað á að borga húsaleigubætur lengi eftir að viðkomandi leigjandi er dáinn. Mér finnst ekkert óeðlilegt þó að þarna sé settur einhver tímafrestur.

Mér fannst nú hv. 13. þm. Reykv. mála skrattann á vegginn eins og einstöku sinnum áður. Ég hélt reyndar að hv. þm. yrði mjög ánægð með þetta frv. því raunverulega eru skornir af í því þeir agnúar sem voru á lögunum sem hún lagði fram. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að verða búinn. Tekjuhærri og ríkari íbúar sveitarfélaga geta fengið lækkun. Því er ekki að leyna. En það er ekki ástæða til að hjálpa þeim sérstaklega. Húsaleigubæturnar eru fyrir tekjulágt og eignalítið fólk, ekki fyrir þá sem eru betur settir. Þeir eiga að geta bjargað sér öðruvísi.