Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 19:09:11 (1706)

1997-12-04 19:09:11# 122. lþ. 35.5 fundur 98. mál: #A virðisaukaskattur# (sala til útlendinga) frv., Frsm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:09]

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. efh.- og viðskn. um 98. mál, um virðisaukaskatt.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum virðisaukaskattslaga um skattskyldu vegna sölu á þjónustu til erlendra aðila. Frá 1. júlí þessa árs hafa gilt nýjar og strangari reglur um slíka sölu sem hafa sætt gagnrýni af hálfu hagsmunaaðila. Hér eru þær reglur endurskoðaðar og þeim breytt þannig að heimildin sem nú tekur til endurgreiðslna til erlendra ferðamanna vegna kaupa á vörum hér á landi nær einnig til aðila sem eru búsettir erlendis.

Efh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt en það eru gerðar á því nokkrar veigamiklar breytingar. Í fyrsta lagi er í núgildandi lögum gert ráð fyrir því sem skilyrði fyrir undanþágu að fyrir liggi í bókhaldi seljanda vottorð frá bærum yfirvöldum í heimalandi kaupanda. Þetta ákvæði er fellt niður. Að mati nefndarinnar er um of ströng ákvæði að ræða og ekki sambærilegt við það sem gerist í öðrum löndum. Nefndin telur að önnur ákvæði í löggjöfinni tryggi nægjanlegt eftirlit með þessum þáttum. Einnig má geta þess að þeim ákvæðum skattalaga sem heimila skattyfirvöldum eðlilegt eftirlit með slíkri starfsemi er í engu breytt.

Í öðru lagi er gildistökuákvæði breytt í frv. Nýju reglurnar fólu í sér afdráttarlausari ákvæði um skattskyldu og ákvörðun hennar en áður höfðu gilt. Í ljósi þess að þessar reglur eru nú endurskoðaðar og það hefði valdið ruglingi bæði fyrir innlenda og erlenda aðila ef þær hefðu verið látnar gilda í örfáa mánuði, er lagt til að ákvæði fyrri efnisliðar 1. gr. frv., um sölu á þjónustu til erlendra aðila, verði afturvirkt og gildi frá 1. júlí 1997. Að öðru leyti leggur nefndin til að lögin öðlist þegar gildi með hefðbundnum hætti.

Efh.- og viðskn. flytur brtt. í þá átt sem ég lýsti á þskj. 394 og leggur til að frv. verði samþykkt með þessum brtt. Það er öll efh.- og viðskn. sem ritar undir þetta nál.