Spilliefnagjald

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 19:26:18 (1711)

1997-12-04 19:26:18# 122. lþ. 35.9 fundur 331. mál: #A spilliefnagjald# (hámark gjalds o.fl.) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:26]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 56/1996, um spilliefnagjald, sem 331. mál á þskj. 417.

Lög um spilliefnagjald tóku gildi árið 1996. Spilliefnanefnd sem starfar samkvæmt lögunum tók til starfa í fyrrahaust og hóf þegar undirbúning að framkvæmd laganna. Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögunum skal stefnt að því að álagningu gjalda verði komið á í áföngum og að fullu í síðasta lagi árið 2000. Spilliefnanefnd gerði áætlun um framkvæmd álagningar á einstaka vöruflokka og hefur verið unnið eftir henni. Framkvæmd laganna hefur gengið vel og mun hraðar en þeir sem komu að undirbúningi laganna á sínum tíma þorðu að vona. Búið er að leggja spilliefnagjald á lífræn leysiefni, varnarefni, ísósyanöt en undir þann efnaflokk falla til dæmis kítti, frauðþensluefni o.fl., olíumálningu og litarefni, rafhlöður, rafgeyma og efnavörur í ljósmynda- og prentiðnaði. Unnið er að frjálsu samkomulagi vegna kælimiðla og olíuvara á vegum hlutaðeigandi atvinnugreina en í lögunum er kveðið á um að fyrirtækjum og atvinnugreinum sé heimilt að semja um ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun af völdum spilliefna enda þjóni það markmiðum laganna. Er viðkomandi vara þá undanþegin gjaldtöku samkvæmt lögunum. Ráðherra staðfestir slíka samninga að fengnum umsögnum spilliefnanefndar og Hollustuverndar ríkisins. Þessir samningar eru algerlega að frumkvæði hlutaðeigandi atvinnugreina.

Með vörum sem geta orðið að spilliefnum er í lögum um spilliefnagjald átt við vörur, efni og umbúðir þeirra sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfi og tilgreindar eru í 6. gr. laganna. Þessi skilgreining á við hvort sem efnin er hrein eða hluti af öðrum efnum eða vörum.

Spilliefni eru skilgreind í mengunarvarnareglugerð. Samkvæmt henni eru spilliefni hvers kyns úrgangur sem inniheldur efni sem talin eru upp í fylgiskjali með reglugerðinni eða er mengaður af þeim í slíku magni eða af slíkum styrkleika að það stofni heilsu manna eða umhverfi í hættu. Þau efni sem spilliefnalögin taka á þarf því að tilgreina í lista með mengunarvarnareglugerðinni.

Spilliefni eru alvarlegasti mengunarvaldurinn í landinu. Þessum efnum er því miður oft fargað á óviðunandi hátt og er þeim t.d. hent með almennu sorpi eða helt niður um niðurföll. Hætta sem stafar af spilliefnum er margvísleg og alvarleg. Markmið laga um spilliefnagjald er að koma í veg fyrir mengun af völdum spilliefnanna með því að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, meðhöndlun og viðunandi endurnýtingu eða eyðingu þeirra.

Með samþykki laganna 23. maí 1996 var lagður grunnur að skipulegri söfnun spilliefna um land allt og bættum skilum þeirra til móttökustöðva. Frá því að lögin öðluðust gildi eru merkjanleg aukin skil spilliefna. Til þess að standa straum af kostnaði við söfnun, móttöku og meðhöndlun, endurnýtingu eða eyðingu spilliefnanna er í lögunum kveðið á um að heimilt sé að leggja sérstakt gjald, spilliefnagjald, á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Um er að ræða þjónustugjald til að standa undir þeim kostnaði sem leiðir af meðhöndlun efnanna. Álagning gjaldsins byggir á mengunarbótareglunni sem í þessu tilfelli merkir að sá sem notar vörur sem verða að spilliefnum greiði fyrir förgun og eyðingu þeirra. Með tilkomu gjaldsins er þannig tryggt fjármagn til söfnunar, flutnings og förgunar eða endurnýtingar þessa úrgangs. Spilliefnagjald er lagt á við innflutning eða við framleiðslu ef um innlenda framleiðslu er að ræða. Þegar spilliefnum er skilað til móttökustöðvar þarf sá sem skilar efnunum ekki að greiða fyrir þau eins og áður var, enda hafi spilliefnagjald verið lagt á viðkomandi vöru á fyrri stigum.

Spilliefnanefndin hefur unnið mikið og gott starf á því rúma ári sem hún hefur starfað. Í upphafi voru verkefni nefndarinnar einkum fólgin í því að skilgreina verkefni hennar, fjalla um reglugerðir um framkvæmdina, vöruflokka sem undir lögin falla, söfnun efnanna, flutning þeirra og förgun, endurnýtingu og eyðingu. Unnið var að álagninga- og greiðslukerfi svo og að skilgreiningum á helstu kostnaðarþáttum.

[19:30]

Nefndin hefur lagt áherslu á að hafa sem nánast samstarf við Ríkisbókhald, ríkistollstjóra og þá hagsmunaaðila sem spilliefnagjald varðar sérstaklega. Megineinkenni þess spilliefnagjaldakerfis sem nú er unnið að er að þjónustugjald skal koma á hvern efnaflokk, óháð öðrum flokkum. Við vinnslu frv. til laga um spilliefnagjald á sínum tíma var reynt að meta hve hátt gjaldið ætti að vera fyrir einstaka vöruflokka. Þá var fjallað um marga þætti sem voru lítt þekktir og margt var óljóst, eins og ég gerði grein fyrir þegar ég mælti fyrir því frv. á sínum tíma. Ekki lágu fyrir ábyggilegar upplýsingar um magn spilliefna hér á landi og ýmis atriði er vörðuðu kostnað voru óviss. Hefur því komið á daginn, eins og við var að búast, að nokkur atriði þarfnast lagfæringar.

Við framkvæmd laganna hefur komið fram að hámark gjaldsins sem kveðið er á um í lögunum er ekki nægjanlega hátt í öllum tilvikum og því er í þessu frv. lagt til að ákvæðum um hámark gjaldsins verði breytt og það hækkað fyrir tiltekna vöruflokka. Nefna má að spilliefnagjald hefur verið lagt á málningu og leysiefni. Í lögunum er hámarkið of lágt og því nægir gjaldið einungis til að greiða hluta af þeim kostnaði sem til fellur. Þannig bera þeir sem skila þessum efnum enn beinan kostnað af því að skila þeim til móttökustöðvar. Jafnframt er í frv. lagt til að spilliefnanefnd sé heimilt að greiða fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs sem krefst sérstakrar meðhöndlunar enda dregur það úr kostnaði við förgun þeirra. Hér má nefna sem dæmi vatnsmálningu og brúnsteinsrafhlöður. Eftir að spilliefnagjald á olíumálningu er komið að fullu til framkvæmda þarf ekkert að greiða við skil á henni til móttökustöðvar. Hins vegar þarf að greiða, miðað við óbreytt lög, gjald við skil á vatnsmálningu. Þetta getur leitt til þess að freistandi sé að blanda vatnsmálningu saman við olíumálningu til þess að komast hjá greiðslu. Gerist það verður framkvæmdin kostnaðarsamari þegar á heildina er litið. Því er lagt til að gjald á olíumálningu beri einnig uppi förgunarkostnað við vatnsmálningu. Einnig má nefna ýmis úrgangsefni sem blandast spilliefnum. Lagt er til að spilliefnanefnd sé heimilt að greiða fyrir meðhöndlun, urðun og eyðingu efna sem ekki teljast til spilliefna en blandast við þau. Hér má nefna ýmis ísogsefni, svo sem tvist, textíl og sag, enda séu þessi efni hluti af eðlilegri notkun vörunnar.

Samkvæmt lögunum um spilliefnagjald er ábyrgðin hjá þeim sem hafa hagsmuna að gæta, að sjá til þess að þeir hlutir sem lögin fjalla um verði leystir vel af hendi og á sem hagkvæmastan hátt. Grunnforsenda laganna er að spilliefnagjald standi undir framkvæmdinni og um er að ræða gegnumstreymi. Sú breyting sem lögð er til í frv. hefur því ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Fyrirhuguð tekjuhækkun er samsvarandi útgjaldaaukningunni.

Hér á eftir mun ég í stuttu máli fjalla um einstakar greinar frv. Í 1. gr. þess er lagt til að heimilt sé að greiða fyrir förgun annars úrgangs sem krefst sérstakrar meðhöndlunar og tengist spilliefnum sem verið er að meðhöndla, enda þjóni það markmiðum laganna og dragi úr kostnaði við meðhöndlun og förgun efnanna sem greitt hefur verið af. Jafnframt er lagt til að spilliefnanefnd sé heimilt að greiða fyrir förgun úrgagnsefna sem blandast spilliefnum við notkun. Sérstaklega er bent á að hér er einungis átt við úrgang sem blandast hefur spilliefnum við eðlilega notkun eða starfsemi. Hvorki er gert ráð fyrir að lögin nái yfir meðhöndlun eða förgun á olíumenguðum jarðvegi, né heldur að tekið sé á atvikum sem orsakast af slysum eða vangá.

Í 2. gr. er lögð til breyting á 2. mgr. 6. gr. laganna. Lagt er til að hámarksspilliefnagjald sem heimilt er að leggja á olíuvörur, þ.e. olíu eða brennsluolíu, verði allt að 20 kr. á hvert kg. Í gildandi lögum er hámarkið allt of lágt eða aðeins 1 kr. á kg. Ef þessu verður ekki breytt þá er ekki hægt að taka á þessum olíuvörum á grundvelli laganna. Lagt er til að á lífræn leysiefni verði heimilt að leggja allt að 3 kr. á hvert kg en upphæðin er nú 50 aurar og á ísósyanöt allt að 10 kr. á hvert kg en það er nú 1 kr. Þá er gerð tillaga um að hámark vegna málningar og litarefna verði hækkað í allt að 16 kr. á kg en nú eru lagðar 2,90 kr. á hvert kg og nægir það einungis til þess að greiða niður gjaldskrá móttökustöðvar eins og ég hef áður vikið að. Í tengslum við rafhlöður er bætt inn heimild til að leggja stykkjagjald á rafhlöður en hér er t.d. um að ræða hnapparafhlöður svokallaðar. Þá er lagt til að bætt verði inn nýjum vöruflokkum sem leggja skal spilliefnagjald á svo sem plöntu- og dýrafeiti og matarolíu og vörur sem innihalda kvikasilfur. Á plöntu- og dýrafeiti og matarolíu er lagt til að heimilt verði að leggja allt að 30 kr. á hvert kg. Á vörur sem innihalda kvikasilfur er lagt til að heimilt sé að leggja allt að 900 kr. á kg. Þar er t.d. átt við flúorljósarör, vörur notaðar á rannsóknastofum og ýmis mælitæki. Hvað plöntu- og dýrafeiti og matarolíu varðar þá er úrgangur vegna þessara efna ekki skilgreindur sem spilliefni þar sem um náttúruleg efni er að ræða. Með vörum sem geta orðið að spilliefnum er, í lögunum um spilliefnagjald, átt við vörur sem tilgreindar eru í 6. gr. laganna. Plöntu- og dýrafeiti og matarolía fylgja hér að fenginni tillögu spilliefnanefndar, en fulltrúar Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni lögðu áherslu á það. Matarolíur og feiti og hafa valdið ýmsum vandkvæðum, t.d. í fráveitukerfum og þurfa sérstaka meðhöndlun. Auk þess er æskilegt, ef þessi efni eru í miklu magni, að þau berist aðgreind frá öðrum úrgangi til móttökustöðva þannig að þau valdi ekki vandræðum í hreinsikerfum urðunarstaðanna. Aðilar í veitingarekstri og matvælavinnslu hafa bent Samtökum iðnaðarins á að æskilegt geti verið að þessum efnum sé skilað sérstaklega inn og heimild sé í lögum til að leggja gjald á þessar vörur og því er tillagan flutt hér.

Loks er í 3. gr. lagðar til breytingar á uppgjörstímabili vegna innlendrar framleiðslu úr einum mánuði í þrjá mánuði þar sem einn mánuður er óeðlilega stutt tímabil.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. en vísa að öðru leyti til grg. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.

Vegna þess að hér er um mikilvægt mál að ræða, sérstaklega hvað varðar leiðréttingu á hámarki gjalda vegna vörutegunda sem þegar er búið að leggja spilliefnagjald á og ég hef hér talið upp og koma fram í frv. er afar mikilvægt að breytingin verði afgreidd sem lög frá Alþingi fyrir næstu áramót.