Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 19:36:38 (1712)

1997-12-04 19:36:38# 122. lþ. 35.10 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:36]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Frv. það sem ég mæli hér fyrir, um breyting á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og er 332. mál á þskj. 418, varðar nokkrar lagfæringar sem gera þarf á lögunum auk þess sem slæðst hafa inn í lögin villur sem nauðsynlegt er að leiðrétta, hvort tveggja áður en lögin öðlast gildi 1. janúar nk.

Ný skipulags- og byggingarlög voru samþykkt á Alþingi sl. vor og komu í stað tvennra laga, annars vegar skipulagslaga, nr. 19/1964, með síðari breytingum og hins vegar byggingarlaga, nr. 54/1978, með ýmsum breytingum. Lögin voru lengi í smíðum og frv. til sameiginlegra skipulags- og byggingarlaga var lagt fram nokkrum sinnum á Alþingi á árunum 1988--1996 að frv. náði loks fram að ganga. Eins og gefur að skilja þegar um er að ræða jafnviðamikinn málaflokk og skipulags- og byggingarmál var fljótlega hafist handa á vegum ráðuneytisins, skipulagsstjóra ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga við að kynna lögin fyrir sveitarstjórnum, byggingarfulltrúum og öðrum tæknimönnum sveitarfélaganna og var það gert í samráði við hlutaðeigandi landshlutasamtök. Enn fremur var hafin vinna við gerð tveggja grundvallarreglugerða sem varðar framkvæmd laganna, annars vegar skipulagsreglugerðar og hins vegar byggingarreglugerðar auk minni reglugerða um störf sérstakrar úrskurðarnefndar samkvæmt 8. gr., um prófanefnd samkvæmt 48. gr. og um skipulagsgjald samkvæmt 35. gr. Við þá vinnu og á fundum með fulltrúum sveitarfélaganna hefur komið í ljós að nauðsyn ber til að lagfæra nokkur atriði laganna áður en þau öðlast gildi. Lagfæringarnar snerta fyrst og fremst stjórnun innan málaflokksins, svo sem um valdsvið byggingarnefnda gagnvart sveitarstjórnum og um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku vegna veittrar þjónustu, sérstaklega í tengslum við útgáfu svokallaðra framkvæmdaleyfa. Mun ég hér á eftir gera grein fyrir einstökum breytingum sem lagðar eru til í frv. að svo miklu leyti sem þær þarfnast skýringa.

Ekki er gert ráð fyrir því í nýjum skipulags- og byggingarlögum að hægt sé að fresta staðfestingu á svæðisskipulagi eins og þegar aðalskipulag á í hlut. Í 2. gr. frv. er því lagt til að sama regla gildi um frestun svæðisskipulags og aðalskipulags, enda verður þar að gæta samræmis, hafandi í huga að svæðisskipulag tveggja eða fleiri sveitarfélaga geymir í reynd aðalskipulag hvers sveitarfélags.

Í 5. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að aðalskipulag skuli endurskoða á fjögurra ára fresti, að afloknum sveitarstjórnarkosningum, og fari um málsmeðferð eins og um nýtt aðalskipulag sé að ræða. Ég sé ekki ástæðu til þess að fyrirskipa málsmeðferð með þessum hætti, þ.e. kynningu nýs aðalskipulags fortakslaust á fjögurra ára fresti ef ekki er talin ástæða til að breyta skipulagi. Því er lagt til í 3. gr. frv. að kveðið verði á um að sveitarstjórn skuli, að afloknum sveitarstjórnarkosningum, meta hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið. Með þessu næst það fram sem stefnt var að, að nýjar sveitarstjórnir hefji störf með því að líta á aðalskipulag sveitarfélagsins, enda er það eitt áhrifaríkasta stjórntækið til þess að henda reiður á umhverfismálum í sveitarfélaginu.

Í 36. gr. nýrra laga er fjallað um mannvirki og byggingarleyfi. Í 2. mgr. kemur m.a. fram hvaða mannvirki séu undanþegin byggingarleyfi og eru brýr þar meðtaldar. Eðlilegt er að göngubrýr í þéttbýli verði byggingarleyfisskyldar og lúti sömu reglum og mannvirki almennt, enda ekki um akbrautir að ræða í skilningi vegalaga. Því er lagt til í 4. frv. að undanþágan gildi ekki um göngubrýr í þéttbýli. Einnig er lagt til að holræsi verði undanþegin byggingarleyfum með sama hætti og dreifi- og flutningakerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta.

Í 5. mgr. 39. gr. laganna er gert ráð fyrir að hægt sé að vísa ágreiningi milli byggingarnefndar og sveitarstjórnar um afgreiðslu máls til umhvrh. til úrskurðar. Í þessu tilviki er rétt að benda á að samkvæmt nýju lögunum er byggingarnefndum ekki fengið sjálfstætt vald gagnvart sveitarstjórnum þar sem sveitarstjórnir bera einar ábyrgð á gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana auk þess sem þeim er ætlað að fjalla um leyfisumsóknir, veita byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi og annast byggingareftirlit með atbeina kjörinna nefnda og sérhæfðra starfsmanna. Byggingarnefndirnar heyra því undir sveitarstjórnir og verða að sætta sig við að þær geti breytt ákvörðunum þeirra eða gengið á svig við tillögur þeirra. Því gengur það ekki upp að ágreiningi milli byggingarnefndar og sveitarstjórnar verði vísað til ráðherra auk þess sem umhvrh. er ekki ætlað úrskurðarvald samkvæmt lögunum heldur er úrskurðarvaldið í höndum sérstakrar úrskurðarnefndar, sbr. 8. gr. laganna. Því er lagt til í 5. gr. frv. að 5. mgr. 39. gr. verði felld niður.

Gjaldtökuheimildir vantar í 4. og 5. mgr. 42. gr. í tengslum við sérstakar úttektir og eftirlit og er því lagt til í 6. gr. frv. að byggingarfulltrúa sé heimilt, á kostnað byggjanda, að krefjast sérstaks eftirlitsgjalds þegar um byggingar meiri háttar mannvirkis er að ræða og með sama hætti, á kostnað byggjanda, að krefjast álagsprófunar á mannvirki til staðfestingar burðarþoli og virknisprófun lagnakerfa eftir að það hefur verið reist.

Í 1. mgr. 48. gr. kemur fram að ráðherra eigi að löggilda þá sem eiga að leggja fram uppdrætti vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Aldrei var ætlunin að löggilda hönnuði vegna framkvæmdaleyfa enda engu slíku til að dreifa. Því er lagt til í 7. gr. frv. að felld verði úr 1. mgr. 48. gr. laganna ákvæði um löggildingu hönnuða vegna framkvæmdaleyfa. Einnig er lagt til að ráðherra skuli leita umsagna prófanefndar áður en löggilding er veitt en ekki aðeins viðkomandi fagfélags. Hlutverk prófanefndar er að skipuleggja námskeið til undirbúnings prófa, sem hönnuðir þurfa að sækja, fyrir þá sem sækja um löggildingu, sbr. 3. mgr. 48. gr. laganna. Æskilegt er að prófanefndin fjalli einnig um umsóknir með formlegum hætti áður en ráðherra gefur út löggildinguna. Því er í 7. gr. frv. lagt til að lokamálsliður 5. mgr. 48. gr. laganna kveði á um að ráðherra leiti umsagnar viðkomandi fagfélags og prófanefndar áður en löggilding er veitt.

Ekki er gert ráð fyrir því í nýju lögunum að hægt sé að taka gjöld vegna útgáfu framkvæmdaleyfa. Nauðsynlegt er að sveitarfélög geti innheimt framkvæmdaleyfisgjöld með sama hætti og byggingarleyfisgjöld og er því lagt til í 8. og 9. gr. frv. að í 53. og 55. gr. verði bætt ákvæðum er heimili slíkt.

Í 56. gr. nýrra laga, þar sem fjallað er um framkvæmdir sem brjóta í bága við skipulag eða eru án leyfis, er ekki að finna nein þvingunarúrræði, liggi ekki fyrir framkvæmdaleyfi þar sem það á við, sbr. 27. gr. laganna. Því er nauðsynlegt að skjóta inn í 1. mgr. 56. gr. ákvæði er tekur á því ef ekki liggur fyrir framkvæmdaleyfi með sama hætti og ef ekki liggur fyrir byggingarleyfi, sbr. nánar 10. gr. frv.

Í 1. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í nýju lögunum er gert ráð fyrir því að skipulagsreglugerð skv. 10. gr. og byggingarreglugerð skv. 37. gr. skuli öðlast gildi um leið og lögin eða 1. janúar nk. Hér er um að ræða tvær stórar og viðamiklar reglugerðir sem ætlað er að að kveða nánar á um framkvæmd laganna. Komið hefur í ljós að ógjörningur er að ganga frá reglugerðunum á jafnstuttum tíma og raun ber vitni og því er lagt til í 12. gr. frv. að núverandi reglugerðir haldi gildi sínu að svo miklu leyti sem þær fara ekki í bága við lögin þar til nýjar reglugerðir hafa verið settar. Stefnt er að því að skipulagsreglugerð verði sett fljótlega eftir áramót eða í febrúar/marsmánuði nk. og byggingarreglugerð á miðju næsta ári eftir rækilegan undirbúning og kynningu. Þar til verður stuðst við núverandi reglugerðir en gefnar verða út leiðbeiningar á vegum ráðuneytisins og Skipulagsstofnunar um þá þætti sem taka þarf tillit til vegna nýrra og breyttra laga. Þegar er hafinn undirbúningur að gerð slíkra leiðbeininga á vegum ráðuneytisins og skipulagsstjóra ríkisins í samvinnu við félag byggingarfulltrúa.

Sem kunnugt er eru starfandi nokkrar samvinnunefndir um svæðisskipulag, svo sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins og samvinnunefnd um svæðisskipulag Skagafjarðar en verkefnum þeirra er ekki lokið. Til þess að taka af allan vafa er lagt til í 12. gr. frv. að þessar nefndir starfi áfram eins og verið hefur en að um málsmeðferð bæði innan nefndanna og þegar kemur að umfjöllun um tillögur þeirra fari samkvæmt lögunum. Þannig verði svæðiskipulögin afgreidd samkvæmt nýju lögunum, sbr. 12. til og með 15. gr. laganna.

Hæstv. forseti. Í ráðuneytum umhverfis- og landbúnaðarmála svo og í fjölmiðlum að undanförnu hefur nokkuð verið rætt um framkvæmdaleyfi sem kveðið er á um í 27. gr. hinna nýju laga. Landbúnaður, landgræðsla og skógrækt eru talin falla fortakslaust undir þau ákvæði sem þar eru um framkvæmdaleyfi.

[19:45]

Þetta eru mjög víðtæk ákvæði, gefa lítið sem ekkert svigrúm til þess að framkvæmdir sem við mundum almennt kalla minni háttar, geti farið fram án þess að framkvæmdaleyfa sé aflað. Svo er kveðið á um í lagagreininni að vart er hægt að skilgreina það nánar í reglugerð. Ég veit að hv. umhvn. mun fá athugasemdir um efni þessarar greinar þegar vitað er að komið er fram frv. um breytingu á lögunum og ég bið að umhvn. taki þessi mál til sérstakrar athugunar og hvort ekki megi skilgreina nánar hvað átt er við eða fá heimild til að kveða nánar á um það og útfærslu í reglugerð. Því er þessu beint til nefndarinnar en ekki gerð tillaga í frv. um að þetta ákvæði um framkvæmdaleyfin --- og svo skýrt á kveðið um þau eins og gert er í lögunum --- kom inn í meðferð hv. þingnefndar á frv. á síðasta þingi þannig að ég taldi eðlilegt að beina því til hv. nefndar að fjalla um þetta mál á ný ef það mætti með einhverjum hætti breyta þar orðalagi þannig að frekar sé viðunandi og hægt að framkvæma þetta þannig að ekki sé sett hér af stað allt of strangt og erfitt ferli um framkvæmdaleyfin eins og skilja má á lögunum, standi þau óbreytt.

Ég hef hér að framan rakið þær breytingar sem birtast í frv. þessu og þarfnast sérstakra skýringa við auk þessa seinasta atriðis sem ég talaði um, um framkvæmdaleyfin. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um frv. og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. umhvn. að lokinni þessari umræðu um leið og ég legg sérstaka áherslu á að nefndin hagi svo störfum sínum að þessar breytingar nái fram að ganga fyrir áramót.